Veiði togara innan 12 mílna landhelginnar skv. reglugerð nr. 402/1993

9. fundur
Mánudaginn 11. október 1993, kl. 15:59:53 (132)


[15:59]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Við stöndum frammi fyrir miklum vanda í okkar fiskveiðimálum með minnkandi afla og að smábátaeigendur mótmæli nú þessari reglugerðarsetningu er eðlilegt í ljósi þess, bæði vegna þess að ekki var haft neitt samráð við þá og ekki síður vegna þess að hér geti verið um lögleysu að ræða. Ég fer fram á það að hæstv. sjútvrh. sanni það með lögfræðilegri álitsgerð að sú reglugerð sem hann hefur gefið út um þetta standist lög.
    Í blaðagrein eftir Önund Ásgeirsson sem birtist fyrir einu ári síðan í Morgunblaðinu, kom það fram að Kanandamenn hafa neyðst til þess að banna allar togveiðar úti fyrir Nýfundnalandi næstu tvö ár þar á eftir og ástæðan var sú að togskip frá Evrópu hafi gjöreytt veiðislóðinni.
    Á síðasta þingi var lögð fram þáltill., sem ekki fékkst samþykkt, frá Magnúsi Jónssyni, um rannsókn á áhrifum botndreginna veiðarfæra á lífríki sjávar þar sem Alþingi átti að álykta um að fela umhvrh. og sjútvrh. að beita sér fyrir því að fram færi rannsókn á áhrifum botndreginna veiðarfæra á lífríki sjávar og sjávarbotns.
    Í grg. með þál. segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Í þeim þrengingum, sem nú eru í fiskveiðum víða á Norður-Atlantshafi, hafa þær raddir orðið æ fleiri og háværari að sú veiðiaðferð að draga eftir sjávarbotninum veiðarfæri, sem geta verið allt að tugur tonna að þyngd, geti átt sinn þátt í minnkandi veiði úr helstu nytjastofnum okkar og fleiri þjóða. Aukin tækni í gerð veiðarfæra, svo og tækjabúnaður um borð í skipunum, gerir mönnum kleift að draga botnvörpu yfir nánast hvað sem er nema skipsflök svo vitnað sé í ummæli reyndra togarasjómanna.``
    Virðulegi forseti. Ég tel að það liggi ekki fyrir nægilegar rannsóknir á því hvaða áhrif botndregin veiðarfæri hafi á lífríki sjávar og ekki síst þess vegna er það ámælisvert að hleypa togskipum inn fyrir 12 mílna landhelgi.