Veiði togara innan 12 mílna landhelginnar skv. reglugerð nr. 402/1993

9. fundur
Mánudaginn 11. október 1993, kl. 16:02:39 (133)


[16:02]
     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Þegar við færðum út landhelgina þá voru okkar rök m.a. þau að okkur væri best treystandi til að nýta fiskimiðin við landið. Við bentum á það að erlend skip væru hér t.d. upp að 12 mílum á sínum tíma, það væru stórir hópar breskra skipa sem væru að drepa smáfisk. Þegar við færðum út í 50 mílurnar bentum við á ryksugutogarana frá Rússlandi og Austur-Evrópuríkjunum sem væru allt í kringum landhelgina hjá okkur. Við fengum það sem við vildum, við fengum að stjórna nýtingu hafsvæðanna í kringum landið. Og hvernig förum við svo að því? Við úthlutum á skipin okkar ákveðnu magni af fiski í tonnum. Við skiptum okkur lítið sem ekkert af því hvernig menn fara að því að veiða þennan fisk og við hlustum ekki á heimamenn á svæðunum sem eru að benda á hvernig ýmis veiðarfæri fara með lífríkið. Það eru ákveðnir hagsmunaaðilar í útgerð og fiskvinnslu sem hafa ráðið ferðinni í þessum málum allan þennan tíma. Svo kemur hæstv. sjútvrh. hér upp þegar honum er bent á það að menn hafi kannski ekki farið alveg rétt að lögum og fer í sömu fötin og hann hefur verið í síðan hann tók við þessu embætti, þ.e. framsóknarfötin --- ég er að gera það sama og fyrirrennari minn. ( Umhvrh.: Þau fara honum vel.) Ég vil ekki taka undir það að framsóknarfötin fari honum vel. Ég hafði a.m.k. þá von í upphafi þegar hann tók við þessu embætti að hann mundi a.m.k. reyna að sýna svolítinn mannsbrag af sér þannig að hann mundi lagfæra það sem verst væri og hefði mistekist hjá fyrirrennara hans og í stefnu stjórnvalda við stjórn fiskveiða. En það virðist vera hans aðalafsökun að hann sé að gera þetta nákvæmlega eins og það hefur verið gert áður. --- Nema að einu leyti: Nú stöndum við sem sagt frammi fyrir því, (Forseti hringir.) hæstv. forseti, að íslensk stjórnvöld loka veiðisvæðum á erlendum hafsvæðum fyrir íslenskum skipum en hleypa

þeim hér upp í kartöflugarða við okkar eigið land.