Veiði togara innan 12 mílna landhelginnar skv. reglugerð nr. 402/1993

9. fundur
Mánudaginn 11. október 1993, kl. 16:10:18 (136)


[16:10]
     Sturla Böðvarsson :
    Virðulegi forseti. Útgáfa þeirrar reglugerðar sem hér er til umræðu hefur vakið nokkurn óróa og þess vegna er nauðsynlegt og í rauninni afar mikilvægt fyrir hæstv. sjútvrh. að taka til athugunar þær ábendingar og athugasemdir sem komið hafa fram. Ég vil m.a. vekja athygli á því að sjómenn við Breiðafjörð hafa lýst miklum áhyggjum yfir því hversu dregið hefur úr veiðum og þeir hafa bent á þá hættu sem stafar af miklum togveiðum á Flákanum. Togveiðar geta valdið miklum skaða ef of langt er gengið í togveiðum á þeim svæðum. Þess vegna vil ég við þessa umræðu hvetja hæstv. sjútvrh. til þess að taka til sérstakrar athugunar þær ábendingar sem hafa komið fram og leita allra leiða til þess að takmarka eins og hægt er togveiðar á þessum svæðum, m.a. við Breiðafjörðinn.