Skráning blóðflokka í ökuskírteini

10. fundur
Mánudaginn 11. október 1993, kl. 16:19:08 (139)

[16:19]
     Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ökuskírteini er það persónuskilríki sem flestir einstaklingar sem náð hafa 17 ára aldri hafa að jafnaði á sér. Efni og form ökuskírteinis skal vera með sérstökum hætti eins og um getur í 43. gr. reglugerðar um ökukennslu og próf ökumanna, nr. 747/1983, með síðari breytingum. Þar segir að í ökuskírteini skuli greina númer skírteinis, nafn, fæðingardag og heimili skírteinishafa, kennitölu skírteinishafa, útgáfudag og gildistíma skírteinis, útgáfustað skírteinis, hvaða réttindi skírteinið veitir, takmarkanir og skilyrði, ef um þau er að ræða, og hvar og hvenær skírteinið er fyrst útgefið. Í skírteininu skal einnig vera mynd af skírteinishafa stimpluð af lögreglustjóra.
    Allt þetta eru nauðsynlegar og traustar upplýsingar um handhafa ökuskírteinis enda er það svo að ökuskírteini er það skilríki sem hvað mest er notað þar sem persónuskilríkja er krafist.
    Ég tel þó að upplýsingagildi ökuskírteina mætti enn auka með því að einnig sé skylt að tilgreina blóðflokka skírteinishafa í ökuskírteini og reyndar mætti hugsa sér þá reglu varðandi útgáfu annarra persónuskilríkja. Rökin fyrir þessu eru margvísleg, m.a. þau að í þeim tilvikum sem handhafi ökuskírteinis eða annarra persónuskilríkja slasast getur skipt máli að vitneskja um blóðflokk viðkomandi sé til staðar sem allra fyrst eftir að slys á sér stað. Það gæti því skipt afar miklu máli að hægt sé að ganga að slíkri vitneskju í persónuskilríkjum sem sá slasaði ber á sér. Því vil ég beina eftirfarandi spurningum til hæstv. dómsmrh.:
  ,,1. Eru uppi áform í dómsmrn. um að breyta reglugerð um ökukennslu og próf ökumanna, nr. 787/1983, ásamt síðari breytingum, þannig að auk þeirra upplýsinga sem nú skal tilgreina í ökuskírteini við útgáfu þess skuli einnig greint frá blóðflokki skírteinishafa?
    2. Ef svo er, hvenær mun sú breyting koma til framkvæmda?``