Embætti ríkislögmanns

10. fundur
Mánudaginn 11. október 1993, kl. 16:33:22 (144)


[16:33]
     Björn Bjarnason :
    Frú forseti. Ég vil taka það fram í þessum umræðum um stöðu ríkislögmanns að mér finnst eðlilegt að það embætti sé starfrækt. Hins vegar finnst mér að umræður um málefni er snerta embættið nú í sumar gefi til kynna að það sé e.t.v. ástæða til þess að huga að starfssviði ríkislögmanns. Ég fagna því sem kom fram í máli hæstv. fjmrh. að álitsgerðir ríkislögmanns eru að sjálfsögðu ekki rétthærri heldur en álitsgerðir annarra lögmanna og ég tel mjög mikilvægt að það komi skýrt fram þegar menn ræða um starfsemi ríkislögmanns að hann eða framkvæmdarvaldið getur ekki með álitsgerðum sínum hnekkt í neinu því sem samþykkt hefur verið á Alþingi.
    Það liggur ljóst fyrir að vegna stjórnarskrárákvæða um þrískiptingu valdsins þá er það aðeins á valdi dómstóla að hnekkja eða komast að endanlegri niðurstöðu varðandi það sem samþykkt er á hinu háa Alþingi en það er ekki á verksviði ríkislögmanns að gefa álit um það hvað vakað hafi fyrir alþingismönnum við afgreiðslu mála.