Aukatekjur ríkissjóðs og gjaldtaka ríkisstofnana

10. fundur
Mánudaginn 11. október 1993, kl. 16:50:00 (150)


[16:50]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil einungis bæta því við það sem fram hefur komið nú þegar að núv. ríkisstjórn hefur tekið talsvert til í þessum málum. Þannig var þegar ég kom í fjmrn. að þá var í gildi reglugerð sem tók gjöld af ákveðnum starfshópum langt umfram það sem sannanlega var hægt að segja að væru þjónustugjöld. Það var eitt af mínum fyrstu verkum að taka til hendi og breyta þessari reglugerð í lög og það var gert á árinu 1991 til þess að ekki væri stjórnarskráin brotin. Ég vil að það komi mjög skýrt fram að ríkisstjórnin hefur gert þetta með þessum hætti.
    Í öðru lagi vil ég segja að ég tel það til mikillar fyrirmyndar að efna til þjónustugjalda því að ég tel að þeir sem njóta þjónustunnar eigi yfirleitt að borga fyrir þá þjónustu sem þeir fá og ég held að það sé sem betur fer þannig núna að þetta er gert í vaxandi mæli. Við höfum hins vegar passað duglega upp á það --- með einni eða tveimur undantekningum, og það hefur þá verið lagað --- að láta ekki þjónustugjöldin kosta meira en sannanlegur kostnaður við þjónustuna er. Í langflestum tilvikum eru þjónustugjöldin aðeins lítið brot af kostnaðinum við veitta þjónustu. Við verðum nefnilega að átta okkur á því að margt af því sem ríkið gerir fyrir notendur opinberrar þjónustu er þess efnis að viðkomandi aðilar eiga að borga fyrir viðvikið. Ég held að þessi stefna sé ekki bara ráðandi hér á landi heldur hefur hún einnig átt vaxandi fylgi að fagna í öllum okkar nágrannalöndum, ekki síst vegna þess að menn vilja geyma skattana, fjármagnið sem kemur inn frá skattborgurunum, til þess að geta staðið undir almennum kostnaði sem samstaða er um í þjóðfélaginu að skattféð eigi að standa undir.