Jöfnunar- og undirboðstollar á skipasmíðaverkefni

10. fundur
Mánudaginn 11. október 1993, kl. 16:55:42 (152)


[16:55]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Sem svar við fyrstu fsp. vil ég segja þetta: Í maí á þessu ári skilaði starfshópur sem skipaður var í október 1992 skýrslu til iðnaðar- og viðskrn. um ríkisstyrki og undirboð í skipasmíðaiðnaði. Í skýrslunni var ítarlegt yfirlit yfir ákvæði um ríkisstyrki og undirboð í alþjóðlegum viðskiptasamningum sem Ísland er aðili að. Enn fremur er í skýrslunni að finna greiningu á meintum, ólögmætum undirboðum pólskra skipasmíðastöðva í byggingu og breytingar á íslenskum fiskiskipum. Í skýrslunni kemur m.a. fram að heimildir í viðskiptasamningum til að leggja á undirboðstolla eru nokkuð óljósar og mismunandi eftir viðskiptasvæðum. Þessar reglur og annað sem þeim tengist, svo sem ákvæði um ríkisstyrki, eru enn í mótun, bæði í samstarfi Evrópuþjóðanna og á vettvangi GATT. Viðræður hafa verið í gangi á milli EFTA-landanna og EB í sumar um ríkisstyrki, einkum styrki í skipaiðnaði. Hefur af hálfu Íslands verið náið fylgst með framvindu þeirra mála og nokkrir þessara funda verið sóttir af Íslands hálfu.
    Sameiginlegt reglum alþjóðlegra viðskiptasamninga um undirboðstolla er að strangar kröfur eru gerðar um sönnun undirboðs eða styrkja og þær rannsóknir sem fram þurfa að fara áður en slíkir tollar eru lagðir á. Eru þær einkum vandmeðfarnar þegar ekki er um að ræða vörusölu þar sem styðjast má við markaðsverð. Ákvæði íslenskra laga um heimildir til að leggja á undirboðstolla eru einkum miðaðar við ákvæði GATT-samkomulagsins og þeim þarf að beita í samræmi við heimildir samninganna.
    Í skýrslu þeirri sem vikið er að hér að framan kemur fram að þessi lagaheimild kunni að vera hæpin að því er tekur til skipaviðgerða. Í skýrslunni kemur einnig fram að vandmetið er hvort eða að hve miklu leyti lágt verð á skipasmíðum, einkum í Póllandi sem sótt hefur inn í íslenskan markað, er að rekja til undirboða og styrkja eða lægri raunverulegs framleiðslukostnaðar. Yrði það miklum vandkvæðum bundið. Notkun undirboðstolla vegna skipasmíða og viðgerða virðist ekki notuð meðal annarra þjóða. Koma væntanlega til þau atriði sem nefnd hafa verið hér að framan og eins hitt að slíkar aðgerðir auka kostnað innlendra útgerða og draga úr samkeppnishæfni þeirra. Af þessum ástæðum telur fjmrn. ekki rétt á þessu stigi að gripið verði til undirboðstolla, en hefur falið ákveðnum starfshóp að undirbúa málið enn frekar um það eftir hvaða reglum skuli farið ef og þegar beita eigi jöfnunartollum.
    Sem svar við 2. fsp. segi ég þetta: Ákvörðun um breytingu á XII. kafla tollalaga hefur ekki verið tekin. Mun hún m.a. ráðast af vinnu framangreinds starfshóps og eins þeim breytingum á alþjóðlegum ákvæðum um undirboðs- og jöfnunartolla, en þau eru til umræðu bæði meðal Evrópuþjóða og í tengslum við svokallaða Uruguay-lotu GATT.
    Varðandi 3. fsp. vil ég segja að á ríkisstjórnarfundi 8. okt. sl. var lagt fram minnisblað frá iðn.- og viðskrh. þar sem kom fram að í undirbúningi væri nefndaskipan um úttekt á fjárhagsstöðu skipaiðnaðarins og var sú tillaga ráðherrans samþykkt á fundinum. Jafnframt beindi viðskrh. eða öllu heldur iðnrh. því til utanrrh. að hann fylgdist með því sem er að gerast í Noregi en nýlega bárust upplýsingar um umfangsmikla fjárfestingarstyrki til skipasmíðastöðvar í Kirkenesi í Norður-Noregi eða að upphæð 1.850 millj. ísl. kr. í heild. Þessi styrkur kemur til viðbótar þeim miklu framleiðslustyrkjum sem fyrir eru í norskum skipaiðnaði og nema nú um 13% af nýsmíði þar í landi sem er hækkun frá fyrra ári. Utanrrh. tók að sér að mótmæla þessum styrkjum á grunni EFTA-samningsins og fyrirhugaðs EES-samnings og í yfirstandandi GATT-viðræðum, Uruguay-lotunni, og á grunni annarra samninga sem tilefni gefa.
    Það kom fram á fundinum að sérstök áhersla verður lögð á það af hálfu Íslands í samningaviðræðum EFTA og EB á næstu vikum að tryggt sé eins og kostur er að skipasmíðar verði hluti EES-samningsins frá og með gildistöku hans. Þessari kröfu verði fylgt eftir í samningaviðræðum EFTA og EB á efri stjórnunarstigum reynist slíkt nauðsynlegt.

    Þetta vildi ég, virðulegi forseti, að kæmi fram sem svar við þremur fyrirspurnum hv. fyrirspyrjanda.