Auglýsingar ríkisins og stofnana þess

10. fundur
Mánudaginn 11. október 1993, kl. 17:11:22 (158)

[17:11]
     Fyrirspyrjandi (Guðjón Guðmundsson) :
    Virðulegi forseti. Fsp. mín til hæstv. fjmrh. er svohljóðandi:
        Hvaða reglur gilda um birtingu auglýsinga ríkisins og stofnana þess í dagblöðum og héraðsfréttablöðum?
    Nú er það svo þegar þarf að auglýsa vöru, þjónustu eða eitthvað annað reyna þeir sem auglýsa að gera það þar sem líklegt er að auglýsingin nái til sem flestra þeirra sem verið er að höfða til með auglýsingunni. Þess vegna er t.d. eðlilegt að birta í héraðsfréttablöðum auglýsingar sem varða viðkomandi hérað. Mér segja hins vegar útgefendur héraðsfréttablaða að þau svör fáist hjá ríkisstofnunum að þær auglýsi ekki í slíkum blöðum. Um þetta eru fjölmörg dæmi. Eitt nýlegt dæmi er slík auglýsing sem birtist í dagblöðunum nú í september þar sem Innkaupastofnun ríkisins auglýsti til sölu íbúð á Akranesi.
    Nú er það svo að íbúðir þar í bæ seljast nær undantekningarlaust bæjarbúum eða fólki úr nærliggjandi byggðarlögum. Á Akranesi er gefið út héraðsfréttablað sem nefnist Skagablaðið og þetta blað gefur vikulega út vandað auglýsingablað sem er sent á hvert einasta heimili í Vesturlandskjördæmi. Nú hefði mátt ætla að Innkaupastofnun ríkisins auglýsti íbúðina í þessu blaði en ekki aldeilis. Þegar leitað var eftir þessari auglýsingu í blaðið voru svörin þau að reglur leyfðu ekki auglýsingar í héraðsfréttablöðum. Auglýsingin birtist hins vegar í Tímanum 11. sept. og í Alþýðublaðinu 15. sept. Hvort halda menn nú að sé meira gagn að birta síka auglýsingu í blaði sem fer inn á hvert heimili eða í dagblaði sem fer á örfá heimili í kjördæminu? Þarna er augljóslega verið að styrkja dagblöð og flokksmálgögn undir því yfirskyni að verið sé að auglýsa. Nú geta menn haft á því skiptar skoðanir hvort ríkið eigi að styrkja útgáfu dagblaða.

Ég tel að það eigi ekki að gera það og þetta sé meðal þeirra útgjalda ríkisins sem hægt er að fella niður. Aðrir hafa ekki sömu skoðun eins og sést í fjárlagafrv. þar sem gert er ráð fyrir að ríkið styrki dagblöðin um 80 millj. kr. á næsta ári jafnframt því sem heimilt er að kaupa 100 eintök af hverju dagblaði. Ríkið kaupir ekki héraðsfréttablöðin og hefur meira að segja sagt upp því eina eintaki sem keypt var af hverju blaði.
    Ég tel að hér verði að hafa skýrar reglur þannig að auglýsingar ríkisins og stofnana þess verði framvegis birtar þar sem líklegt er að þær nái til sem flestra en séu ekki notaðar sem dulbúinn aukastyrkur til blaða sem sárafáir lesa og enn þá færri kaupa.