Auglýsingar ríkisins og stofnana þess

10. fundur
Mánudaginn 11. október 1993, kl. 17:13:55 (159)


[17:13]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Það eru engar samræmdar reglur til um birtingu auglýsinga stofnana ríkisins í dagblöðum og héraðsfréttablöðum. Ríkisvaldinu er í einstökum lögum skylt að auglýsa og er þá ákvæði laganna látið ráða umfangi birtinga. Dæmi um slíkt eru t.d. lög um húsbréfaútgáfu en auglýsa skal útdrátt ,,í dagblaði`` eins og segir í lögunum. Ég hef séð auglýsingu í Morgunblaðinu sem er örlítil og stutt þar sem vísað er til auglýsingar í Alþýðublaðinu. Einstök ráðuneyti og stærri stofnanir hafa sett sér ákveðnar vinnureglur um auglýsingar er varða markaðssetningu eða kynningu ríkisins á vöru eða þjónustu og ætti að mínu áliti útbreiðsla blaðsins að teknu tilliti til auglýsingaverðs að ráða, þ.e. viðskiptahagsmunir eingöngu. Þá verða menn að sjálfsögðu að taka tillit til þess ef um svæðisbundnar auglýsingar er að ræða. Þær stofnanir sem mest auglýsa hafa í auknum mæli falið auglýsingastofum að sjá um þessi mál. Þessar stofur hafa samninga við blöðin og ljósvakamiðla um auglýsingataxta sem taka mið af auglýsingagildi. Til skamms tíma var það viðtekin venja að auglýsingar birtust í öllum dagblöðum án tillits til hagsmuna ríkissjóðs. Þau eru hins vegar ólík að umfangi og útbreiðslu og auglýsingagildið er því mismunandi eins og reyndar kom skýrt fram í máli hv. fyrirspyrjanda.
    Ríkið eyðir árlega umtalsverðum fjárhæðum í auglýsingar. Mikilvægt er að það fé nýtist sem best. Því er eðlilegt að það sé á ábyrgð viðkomandi forstöðumanns að ákveða um tíðni og staðsetningu birtinga sé það ekki bundið í lögum. Ég vil nefna sem dæmi að víða segir að auglýsa skuli í Lögbirtingablaðinu.
    Virðulegi forseti. Ég hef fullan skilning á viðhorfum hv. fyrirspyrjanda sem koma fram í hans máli og get í sjálfu sér litlu öðru bætt við en því sem komið hefur fram í þessu svari mínu.