Auglýsingar ríkisins og stofnana þess

10. fundur
Mánudaginn 11. október 1993, kl. 17:17:11 (161)


[17:17]
     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda fyrir að hefja þessa umræðu og hæstv. fjmrh. fyrir hans svör. Ég held að sagan sem sögð var af Víkurfréttum á Húsavík sé lýsandi um ástand þessa máls. Ritstjóri þess blaðs vakti á því athygli að þegar verið var að auglýsa lokun togveiðihólfa á Skjálfandaflóa þá var það gert í því merka og fræga blaði Alþýðublaðinu en alls ekki í héraðsfréttablaðinu Víkurfréttum sem þó fer nánast inn á hvert einasta heimili á þessu svæði. Þetta sýnir okkur auðvitað í hvaða ógöngur þetta mál var komið á sínum tíma en er nú vonandi á réttri leið.
    Ég hef heyrt þær röksemdir fyrir því að hafa þennan háttinn á að með því að styrkja þessi pólitísku dagblöð sé verið að ýta undir málefnalega pólitíska umræðu í landinu. Ég held að það sé alveg augljóst mál að ef menn vilja ýta undir pólitíska umræðu í landinu og efla lýðræði þá sé það best gert með því að treysta fremur rekstur hinna sjálfstæðu héraðsfréttablaða úti um allt land. Það væri miklu eðlilegra ef menn vilja láta fé af hendi rakna úr ríkissjóði til einhverra slíkra hluta að það fari frekar til hinna sjálfstæðu óháðu fjölmiðla úti á landsbyggðinni sem gefnir eru út þar flestum til sóma.