Auglýsingar ríkisins og stofnana þess

10. fundur
Mánudaginn 11. október 1993, kl. 17:20:38 (164)


[17:20]
     Fyrirspyrjandi (Guðjón Guðmundsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir svar hans. Þar kom fram að engar samræmdar reglur eru til um birtingar á auglýsingum ríkisins. Ég vil bara leggja áherslu á og ítreka að það verði settar skýrar og samræmdar reglur um það hvernig ríkið stendur að sínum auglýsingamálum. Ég tel að þessar reglur verði að byggjast á því að auglýsingar birtist þar sem þær koma til með að ná til sem flestra sem þær eiga að höfða til. Það er útilokað að láta það viðgangast að auglýsingum sé dælt ótakmarkað í blöð sem lítið eða ekkert gagn er að auglýsa í, ekki síst á samdráttartímum þegar reynt er að lækka útgjöld ríkisins á sem flestum sviðum. Það hlýtur að verða að gera þá kröfu að fé ríkisins sé ekki sóað með þessum hætti og það fé sem ætlað er til auglýsinga sé notað til virkra auglýsinga en ekki til viðbótarstyrkja til handa flokksmálgögnum sem fáir lesa.