Rjúpnastofninn

10. fundur
Mánudaginn 11. október 1993, kl. 17:33:03 (169)


[17:33]
     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Bændur sem fylgst hafa með rjúpnastofninum í áratugi eru allir sammála um að hann hafi aldrei verið minni en í ár. Það hefur komið hér fram. Þetta veldur mönnum miklum áhyggjum og ég gleðst yfir því að hæstv. umhvrh. ætlar að taka á þessum málum en hann tekur allt of lítið skref ef hann ætlar aðeins að stytta veiðitímann um mánaðartíma. Ég held að það væri rétt að hann byrjaði á, ef hann er ekki tilbúinn til þess að friða rjúpuna alfarið, að leyfa veiðar ekki lengur en í viku og hafa þá veiðitímabilið seinna á árinu en þarna er ákveðið.
    Ég er alveg viss um að það mundu margir fagna því og hann mundi eiga síauknum vinsældum að fagna úti um allar sveitir ef hann tæki ákveðið á þessum málum og það fyrr en síðar.