Fjárlög 1994

11. fundur
Þriðjudaginn 12. október 1993, kl. 14:27:56 (175)


[14:27]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Í raun og veru hefði Alþingi getað sparað sér þennan tíma sem fór í að lesa upp þessa ræðu úr fjmrn. vegna þess að eins og kunnugt er þá er ætlunin að leggja hér fljótlega fram nýtt fjárlagafrv. á vegum ríkisstjórnarinnar sem þeir eru nú að vinna fjmrh. og hæstv. utanrrh. eins og fram kom í ræðu hæstv. ráðherra og mætti ýmislegt fleira um þau vinnubrögð segja.
    Það sem ég vildi hins vegar sérstaklega vekja athygli á er það að mér fannst að í ræðu hæstv. ráðherra væri afskaplega lítið fjallað um eitt stærsta málið sem fram hefur komið núna að undanförnu og það eru þau stórfelldu skattsvik sem enn þrífast hér í þessu landi þrátt fyrir þær skattkerfisbreytingar sem hæstv. utanrrh. beitti sér fyrir sem fjmrh. og fullyrti þá að mundu verða til þess að þurrka svo að segja alveg upp skattsvikin í landinu. Það hefur komið á daginn að það sem hann sagði á þeim tíma reyndist vera markleysa að öllu leyti. Skattsvikin blómstra sem aldrei fyrr. Það er dapurlegt til þess að vita að hæstv. fjmrh. skuli nú flytja þessa miklu ræðu sína án þess að gera grein fyrr því nákvæmlega hvernig hann ætlar að taka á skattsvikum þegar það liggur fyrir að það eru 16 þús. millj. kr. sem fara fram hjá hagkerfinu samkvæmt þeirri skýrslu sem hæstv. fjmrh. hefur nýlega gefið út á vegum nefndar sem starfaði á hans vegum.