Fjárlög 1994

11. fundur
Þriðjudaginn 12. október 1993, kl. 14:32:30 (178)

[14:32]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég heyri það að hv. þm. heyrir líka illa ofan á allt annað því að ég sagði ekki að þetta væri í fyrsta skipti sem slík skýrsla hefði verið útbúin eins og þessi skattsvikaskýrsla heldur hefði það ekki verið gert í tíð síðustu ríkisstjórnar. Og upphaf lífsins varð ekki til þegar hv. þm. sat í síðustu ríkisstjórn, það vita allir. Svo máttugur er hann ekki.
    Ég hef heyrt það að undanförnu að hv. þm. Alþb. hver af öðrum koma hér í ræðustól og gerast siðbótaprédikarar. Þeir eru að halda því fram að þeir séu sá flokkur hér á Alþingi sem hafi mest efni á því að stunda siðbótarstörf og eru hérna í eins konar messu alla daga. Frægust var þó ræða hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar sem hann flutti við útvarpsumræður um daginn. Sannleikurinn er sá að þessi þingmaður, hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, gaf eftir ýmsa skatta. Hann gaf eftir skatta til vina sinna og það varð að breyta skattalögum í framhaldi af því. ( Gripið fram í: Gaf hann skatta til vina sinna?) Hann gaf eftir skatta eins og frægt var og margoft hefur komið fram hér í þingsölum. Það er þess vegna mjög kærkomið að fá að segja það hér í ræðustól af því tilefni sem hér gefst, að núv. ríkisstjórn hefur ásamt aðilum vinnumarkaðarins farið í gegnum skattsvikamálin, komist að niðurstöðu og er að vinna að úrlausn þeirra mála. Það er meira en síðasta ríkisstjórn gerði og það er staðreynd sem hér stendur.
    Vegna vinnu okkar hæstv. utanrrh. skal þetta sagt. Fjárlagavinna og vinna við ríkisfjármál endar ekkert á einum tilteknum degi. Ríkisstjórnin mun á næstu vikum, mánuðum og vonandi árum halda áfram að vinna í ríkisfjármálunum. Þess vegna eru það engar fréttir þótt einstakir ráðherrar setjist niður og reyni að tína saman tillögur sem gætu komið að gagni og grípa þurfti til enn róttækari aðgerða. ( SvG: Af hverju kom það ekki fram í ræðunni?) Þetta átti hv. þm. að vita.