Fjárlög 1994

11. fundur
Þriðjudaginn 12. október 1993, kl. 14:35:00 (179)

[14:35]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er alveg óhjákvæmilegt að það skýrist fyrr en seinna hvaða stöðu þetta fjárlagafrv. hefur, þetta þskj. nr. 1. Satt best að segja er vörn hæstv. fjmrh. og framsaga fyrir því harla vandræðaleg, enda mun hann fyrstur fjmrh. hafa mátt sæta því að frv. var skotið í kaf af samstarfsráðherrum hans í ríkisstjórn, jafnvel áður en það var lagt fram, en eins og kunnugt er lýsti hæstv. utanrrh. því yfir áður en frv. var lagt fram að það væri ónýtt og hæstv. félmrh. hefur fjölmarga óskilgreinda fyrirvara við frv., enda var hæstv. fjmrh. að lýsa því hér yfir í framsöguræðu sinni að í raun og veru væri verið að undirbúa annað frv., hið eiginlega fjárlagafrv. og það kæmi fram þegar þeir verða komnir af berjamónum, hann og hæstv. utanrrh., og búnir að tína til þessar hugmyndir í sparnaðinum. Þess vegna er það auðvitað svo, hæstv. forseti, að það er væntanlega því miður tímasóun að standa í miklum umræðum um þetta frv. á þessu stigi málsins og miklu nær að hæstv. ráðherrar vinni þessa heimavinnu og komi sínum endanlegu hugmyndum um fjárlög ársins 1994 hér fyrir þingið sem fyrst.
    Í öðru lagi verð ég að gera athugasemdir við það, hvernig hæstv. fjmrh. í ræðu sinni og reyndar líka í grg. með frv. setur fram fullyrðingar um tilfærslu skattbyrðarinnar í tengslum við þetta fjárlagafrv. og í tengslum ríkisstjórnarinnar. Sú framsetning er með öllu ófullnægjandi. Þar er verið að reyna að læða því að, telja mönnum trú um það, að í raun og veru sé á ferðinni skattalækkun hjá hæstv. ríkisstjórn. Mér skilst jafnvel hvað einstaklingana snertir. Ekkert er fjær sanni. Aldrei í sögunni hefur verið að festast í sessi önnur eins tilfærsla á skattbyrði frá fyrirtækjunum og yfir á einstaklingana og nægir þar að nefna aðstöðugjaldið í heild sinni upp á 4 milljarða kr. og lækkun tekjuskatts upp á 1 milljarð í viðbót á næsta ári. Það er því óhjákvæmilegt, hæstv. forseti, að það verði tekin saman greinargerð um þessa hlið mála og ég held að efh.- og viðskn. sem á lögum samkvæmt að fara yfir tekjuhlið frv. verði að fara í þá vinnu úr því að greinargerð fjárlagafrv. og ræða hæstv. ráðherra er með þeim hætti sem raun ber vitni.