Fjárlög 1994

11. fundur
Þriðjudaginn 12. október 1993, kl. 14:42:17 (182)


[14:42]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hirði nú ekki um að svara í þriðja sinn um stöðu frv. og orð hæstv. utanrrh. Það mun bara koma í ljós og gefast næg tækifæri til þess síðar að ræða um þá hluti.
    Um stöðu frv. vegna fyrirvara sem fram hafa komið þá hefur því verið svarað á opinberum vettvangi. Það er ljóst að ráðherra, sem ekki styður fjárlög, getur auðvitað ekki setið í ríkisstjórn. Ég veit að hv. þm. sat í ríkisstjórn áður og ég hugsa að hann kannst við fyrirvara frá þeim tíma, jafnvel frá sömu persónunni, og hann getur þá rifjað það upp hvernig það fór og hvort viðkomandi ráðherra sat áfram í þeirri ríkisstjórn.
    Í lokin minntist hv. þm. á það að það hefði verið sagt að það væri tímabundin aðgerð að hækka tekjuskatt um 1,5% sem lið í því að taka aðstöðugjaldið út. Það er hárrétt. En það var aldrei nokkurn tíma sagt annað heldur en það væri tímabundin aðgerð út af fyrir sig af því að hún átti að vera í tiltekinn tíma. Nú er í undirbúningi og reyndar búið að endurskoða lögin og það er gert ráð fyrir því að tekjustofnalög sveitarfélaganna breytist og þá er gert ráð fyrir því að útsvar hækki sem nemur þessari tekjuskattshækkun þannig að það má halda því fram a það sé varanleg aðgerð að flytja skatta frá fyrirtækjum yfir á einstaklinga. Ég tel að það sé misskilningur hjá hv. þm. að halda því fram að því hafi verið lofað að breyta eftir skamma stund. Það sem var sagt í fyrra, a.m.k. það sem ég hef sagt þá, var einungis að það væri tímabundið fyrirbæri að þetta væri gert í gegnum ríkissjóð eins og var gert á yfirstandandi ári. En því verður að sjálfsögðu breytt núna fyrir árslok þannig að nú verða hrein skipti á milli tekjustreymis til sveitarfélaganna annars vegar og ríkisins hins vegar.