Fjárlög 1994

11. fundur
Þriðjudaginn 12. október 1993, kl. 15:21:33 (184)


[15:21]
     Margrét Frímannsdóttir :
    Virðulegi forseti. ,,Ríkisstjórnin leggur áherslu á þann ásetning sinn að gerbreyta fjármálastjórn hins opinbera. Dregið verður úr umsvifum ríkisins og þannig búið í haginn fyrir hóflega skattheimtu í framtíðinni. Þessar fyrirætlanir eru forsenda þess að viðreisn efnahagslífsins takist. Versnandi viðskiptakjör, aflasamdráttur og horfur á minnkandi landsframleiðslu undirstrika hve brýnt þetta er.
    Um leið og dregið verður úr hallarekstri ríkissjóðs árið 1992 með því að stöðva þau vaxandi ríkisumsvif sem viðgengist hafa undanfarin ár verða næstu skref til uppbyggingar og kerfisbreytinga í ríkisrekstrinum undirbúin. Uppstokkun og ný vinnubrögð eru nauðsynleg ef tryggja á markvissa opinbera þjónustu. Ríkisvaldið mun beita nýjum aðferðum í ríkisrekstri til að tryggja hagkvæma en jafnframt hóflega og skilvirka skattheimtu. Markmiðið er öflug, vel skilgreind en góð ríkisþjónusta ásamt aukinni valddreifingu og ábyrgð stjórnenda og starfsmanna.
    Stefnt er að því að fjármál ríkissjóðs verði komin í jafnvægi í árslok 1993 en með því skapast svigrúm fyrir aukna verðmætasköpun í atvinnulífinu. Með minnkandi lántöku ríkisins ætti einnig að vera unnt að lækka vexti og örva fjárfestingu og uppbyggingu.``
    Svona hefst kaflinn um ríkisbúskapinn í bókinni Velferð á varanlegum grunni sem gefin var út af hæstv. ríkisstjórn í október 1991, fyrir réttum tveim árum. Um það leyti var sú ríkisstjórn, sem hér flytur okkur sitt þriðja frv. til fjárlaga, að mæla fyrir sínu fyrsta fjárlagafrv. fyrir árið 1992.
    Markmiðin voru háleit og flutt af miklum þrótti við 1. umr. fjárlaga það árið. Í dag virkar þessi kafli á blaðsíðu 17 í hvítu bókinni hálfhlálegur þegar horft er til verka og árangurs þessarar hæstv. ríkisstjórnar.
    Ári seinna flutti hæstv. fjmrh. sitt annað fjárlagafrv. fyrir fjárlagaárið 1993. Í ræðu sinni þá fjallaði hæstv. ráðherra aðallega um heildarstefnumörkun ríkisins í efnahags- og ríkisfjármálum og minnti á nauðsyn róttækrar stefnubreytingar.
    Ég tel nauðsynlegt, virðulegi forseti, að rifja aðeins upp hvað hæstv. fjmrh. sagði hér fyrir ári til þess að sjá hvernig til hefur tekist og hversu mikinn trúnað við getum lagt á það frv. til fjárlaga sem hér er til umræðu. Í upphafi ræðu sinnar sagði hæstv. fjmrh., með leyfi forseta:
    ,,Núverandi ríkisstjórn markaði þegar í upphafi ferils síns nýja stefnu í efnahagsmálum --- stefnu sem hafnaði gömlu aðferðunum; gengisfellingum, óhóflegri sjóðafyrirgreiðslu, skattahækkunum og stórfelldum ríkisafskiptum sem ætlað var að leysa hvers manns vanda. Þess í stað er lögð áhersla á að draga úr ríkisafskiptum, auka frjálsræði í viðskiptum og tryggja stöðugleika með föstu gengi og lágri verðbólgu.``

    Þetta var sagt stuttu áður en gengið var fellt í fyrsta sinn, áður en Miklilax var afgreiddur, áður en stórkostlegar skattahækkanir voru samþykktar og áður en efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar, bein og óbein ríkisafskipti höfðu haft lamandi áhrif á alla atvinnustarfsemi í landinu þannig að atvinnuleysi varð hér meira en hafði þekkst í langan, langan tíma.
    En hæstv. fjmrh. var í ræðu sinni sannfærður um að sú nýja stefna sem ríkisstjórnin boðaði í efnahagsmálum væri besta og jafnvel eina færa leiðin til þess að fá hjól atvinnulífsins til þess að snúast á nýjan leik.
    Það reyndist ekki rétt frekar en annað sem boðað var fyrir ári.
    Hæstv. fjmrh. ræddi einnig um andvaraleysi þeirra stjórnvalda sem á undan honum voru gagnvart erlendri skuldasöfnun, sem hann sagði hafa vaxið hratt og væri orðin hættulega mikil. Sú þróun væri uggvænleg og henni yrði að snúa við.
    Þetta var og er vissulega rétt hjá hæstv. ráðherra. Skuldasöfnun okkar erlendis er allt of mikil. En hvernig hefur þessari hæstvirtu ríkisstjórn tekist það markmið að snúa þessari þróun við?
    Í tíð þessarar ríkisstjórnar hafa hreinar erlendar skuldir vaxið mjög mikið. Þær eru nú um 170% af útflutningstekjum okkar samanborið við tæplega 130% í árslok 1990.
    Og þá er það fjárlagahallinn. Fyrir ári sagði hæstv. fjmrh. þetta um hallann á fjárlögum ríkisins, með leyfi forseta:
    ,,Eitt af því sem blasti við þegar núverandi ríkisstjórn tók við var að stjórn ríkisfjármála var í molum. Þetta lýsti sér meðal annars í því að fjárlög stóðust aldrei. Ýmsar breytingar hafa verið gerðar á þessu sviði til að koma í veg fyrir að fjárlög fari úr böndunum. Meðal annars er sú breyting að einstakir ráðherrar, hver á sínu sviði, bera nú aukna ábyrgð á gerð og framkvæmd fjárlaga. Þetta gerir fjárlagagerðina sjálfa traustari og eykur líkur á að áætlanir fjárlaga standist í raun.``
    Aðeins seinna í ræðunni sagði hæstv. ráðherra:
    ,,Forsendur fjárlagafrv. eru um margt traustari en áður hefur verið.``
    Mér skilst að við gerð frv. til fjárlaga fyrir árið 1994 hafi verið notuð sama aðferð og sú sem kynnt var hér áðan. Má ég nú heldur biðja um þá gömlu þó vissulega þýddi hún ekki hallalaus fjárlög. Sú aðferð var ekki nógu árangursrík hvað það varðaði að rammi fjárlaga héldi. En hún var þó hátíð miðað við það sem við búum við núna.
    Stjórnarandstaðan varaði við því fyrir ári að forsendur fjárlaga fyrir þetta ár væru kolrangar en á það var ekki hlustað.
    Ríkisfjármálin voru í molum, fjárlög stóðust aldrei, sagði hæstv. ráðherra. Ef við berum saman tvö heil ár í tíð síðustu ríkisstjórnar, árin 1989 og 1990, við tvö heil ár þessarar ríkisstjórnar, árin 1992 og 1993, þá var samanlagður halli ríkissjóðs á föstu verðlagi ársins 1993 miðað við landsframleiðslu 12,7 milljarðar kr. árin 1989 og 1990 en verður 19,6 milljarðar kr. árin 1992 og 1993 miðað við þær tölur sem við höfum um áætlaðan halla 1993.
    Munurinn liggur ekki í því að skatttekjur áranna 1989 og 1990 hafi verið svo miklu hærri eins og maður gæti haldið vegna þess að alltaf er verið að tala um samdrátt í tekjum ríkisins vegna þess erfiða efnahagsástands sem þjóðin býr nú við. En skýringin liggur ekki í því, því aðeins munar um einum milljarði á samanlögum tekjum þessara tímabila. Útgjöld ríkisins voru hins vegar um 6 milljörðum kr. hærri þessi tvö heilu ár núverandi ríkisstjórnar og rekstrarhalli ríkissjóðs 7 milljörðum kr. hærri.
    Hvað varð um þessa skilvirku stefnu hæstv. ríkisstjórnar í peningamálum ríkisins? Hvert fór hún?
    Hallinn í ár stefnir á þrettánda milljarðinn og frv. til fjárlaga er nú lagt fram með tæplega 10 milljarða kr. halla. Forsendurnar eins rangar og fyrir ári, þannig að augljóslega má bæta nokkrum milljörðum við þá hallatölu sem frv. gerir ráð fyrir.
    Ég get ekki skilið við ræðu hæstv. fjmrh. frá því á síðasta ári án þess að nefna eitthvað þar sem ríkisstjórninni hefur tekist að ná markmiðum sínum fram. Það hefur ekki tekist að lækka ríkisútgjöldin, draga úr hallarekstri ríkissjóðs, lækka vexti eða koma í veg fyrir aukinn samdrátt í nýjum fjárfestingum.
    Fjárfesting er í sögulegu lágmarki. Raunvextir eru hér háir í samanburði við önnur lönd. En það markmið ríkisstjórnarinnar að færa til skattbyrði í þjóðfélaginu hefur náðst. Þar hafa háar fjárhæðir verið færðar frá fyrirtækjum yfir á einstaklinga. Og þeirri stefnu er dyggilega fylgt í því frumvarpi sem hér er til umræðu.
    Á þessu ári var aðstöðugjald sem fyrirtæki greiddu til sveitarfélaga fellt niður. Sú aðgerði átti að vera sérstaklega í þágu sjávarútvegsfyrirtækja vegna erfiðrar stöðu þeirra. Vafalaust hefur þessi ráðstöfun komið nokkrum sjávarútvegsfyrirtækjum til góða en vissulega var þarna einnig verið að létta til með tusku- og tískubúðum sem ef til vill var ekki ástæða til. Sveitarfélögum, sem áttu þennan tekjustofn, var bætt tekjutapið að hluta með því að hækka álagðan tekjuskatt einstaklinga um tæpa fjóra milljarða kr.
    Ríkisstjórnin áformaði svo að nota þetta ár til þess að finna aðra tekjumöguleika fyrir sveitarfélögin til þess að mæta þessu tekjutapi. Og nú er leiðin fundin.
    Álagt útsvar á einstakalinga verður hækkað sem nemur þessari upphæð, tæpum 4 milljörðum kr. Álagt útsvar mun þannig hækka, ef tillögur ríkisstjórnarinnar ná fram að ganga, úr 14,4 milljörðum kr. á þessu ári í 17,5 milljarða kr. á næsta ári.
    Hæstv. fjmrh. lagði mikið á sig við að útskýra fyrir þingi og þjóð að það væri ekki um skattahækkun að ræða þegar tekjuskatturinn var hækkaður á þessu ári vegna niðurfellingar aðstöðugjalda. Þetta væri aðeins bráðabirgðaráðstöfun. Ríkið tæki að sér innheimtu fyrir sveitarfélögin. Þessa 4 milljarða ætti því helst ekki að færa með heildarskatttekjum ríkisins og almenningur í landinu þyrfti aðeins að bera þessa ,,ekki skattahækkun`` í eitt ár. Síðan kæmu aðrir tekjustofnar til.
    Með þessari bráðabirgðahækkun á skatti væri fólkið í landinu að leggja sitt af mörkum til þess að stuðla að meiri atvinnu og gefa stjórnvöldum tíma til þess að finna varanlegar lausnir. Um þetta náðist svo að segja þjóðarsamstaða.
    Sú samstaða hefði aldrei náðst ef hæstv. fjmrh. hefði lýst því yfir að aðstöðugjöldunum, tímabundna tekjuskattinum, sem ekki átti að færa sem skatttekjur ríkisins, ætti að velta alfarið yfir á launþega með því að hækka útsvarsálagningu sveitarfélaga. Þessi 4 milljarða skattlagning er samkvæmt tillögum ríkisstjórnarinnar komin til að vera.
    Ríkisstjórnin ætlar bara að þvo heldur sínar af þessari skattahækkun og velta henni yfir á sveitarfélögin.
    Og sömu leið fer hæstv. ríkisstjórn með ýmsa aðra skattlagningu. Henni er velt yfir á stofnanir og fyrirtæki í formi þjónustugjalda og feluskatta. Og í trausti þess að almenningur átti sig ekki á þessu svara fulltrúar fjmrh. og hæstv. fjmrh. sjálfur spurningu þrjú í fréttatilkynningu nr. 22/1993 frá fjmrn. til dagblaða og fréttastofa um það hvort það sé rétt sem haldið hefur verið fram að heildarskattbyrði landsmanna hafi verið að aukast, þessu svaraði þeir neitandi. Spurningin er á eftirfarandi hátt, með leyfi forseta:
    ,,Því hefur verið haldið fram að heildarskattbyrði landsmanna hafi verið að aukast. Er þetta rétt?``
    Svar fjmrn.: ,,Það er ekki rétt. Boðskapur efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar sem endurspeglast í fjárlagafrv. er skýr. Þrátt fyrir erfiðar efnahagsaðstæður verður að draga úr hallarekstri ríkissjóðs án þess að hækka skatta. Þess vegna er verið að lækka ríkisútgjöld. Skatttekjur ríkissjóðs munu hins vegar lækka að raungildi árið 1994 þriðja árið í röð um 1 1 / 2 milljarð kr. og hafa ekki veri lægri í 7 ár, síðan 1987.
    Í fjárlagafrv. er beinlínis gert ráð fyrir skattalækkun. Yfirlýst áform ríkisstjórnarinnar vegna kjarasamninga sl. vor um að lækka virðisaukaskatt af matvælum frá næstu áramótum fela í sér nánast 2 1 / 2 milljarðs kr. skattalækkun á næsta ári. Að hluta verður tekjutapi ríkissjóðs vegna þessa mætt með álagningu skatts á fjármagnstekjur og að hluta með innheimtu sérstaks atvinnutryggingagjalds af launþegum og atvinnurekendum. Samanlagt munu skatttekjur af þessum ástæðum lækka um 700--800 millj. kr. árið 1994.
    Það er því rangt að heildarskattbyrði hafi verið að aukast. Þvert á móti hefur hún minnkað ár frá ári eins og tölur staðfesta. Ríkisstjórnin hefur hins vegar lækkað skatta á fyrirtækjum og fært yfir á einstaklinga, einkum hina tekjuhærri og efnameiri til að styrkja atvinnulífið og hamla gegn auknu atvinnuleysi.`` --- Er það eignarskattslækkunin og hækkun á útsvari hjá sveitarfélögum sem gefur þær niðurstöður að heildarskattbyrði einstaklingsins hafi lækkað? Þeir segja sem sagt ekki rétt að heildarskattbyrði einstaklinganna hafi stóraukist í tíð þessarar ríkisstjórnar. Staðreyndin er önnur og skattarnir heita aðeins öðrum nöfnum núna en þeir gerðu áður: Þjónustugjöld, heilsukort eða útsvar sem ríkisstjórnin hefur neytt sveitarfélögin til að leggja á. Allt hefur þetta hækkað fyrir tilstilli þessarar ríkisstjórnar.
    Og nú að leggja á nýjan skatt, 0,5% skatt á allar launatekjur fólks. Þessi skattur á að vera í sama hlutfalli hvort sem um er að ræða tekjur fiskverkakonu, bónda, sjómanns, kennara eða starfsfólks heilbrigðiskerfisins. Eða á ég heldur að nefna hæstaréttardómara, bankastjóra Seðlabankans, Íslandsbanka, Landsbanka og Búnaðarbanka og annarra hátekjumanna í þjóðfélaginu. Sama hlutfall verður tekið af tekjum þeirra sem eru með 700--800 þúsund kr. eða meira á mánuði, auk fríðinda, og þeirra sem eru með tekjur á bilinu 50--100 þúsund kr. á mánuði án nokkurra fríðinda. Fiskverkakonan þarf jafnvel að kaupa stígvélin sín, svuntuna og hanskana sjálf á meðan almenningur í landinu greiðir milljóna leikföng handa hátekjuliðinu. Sama hlutfall verður tekið af launum beggja, 0,5% skattur af launatekjum, atvinnuleysisskattur sem skila á 1 milljarði á næsta ári.
    Og þetta er ekki eina skattahækkunin sem við sjáum í frv. til fjárlaga fyrir árið 1994. Hverjum einstaklingi verður nú gert að kaupa sér aðgang að heilbrigðisþjónustunni með korti sem kostar 2.000 krónur. Þarna ætlar ríkisstjórnin að ná sér í 400 milljónir. Slíkur nefskattur er í framkvæmd óréttlátari en sá sem ég nefndi áðan, því hann er hlutfallslega miklu hærri á þá hópa sem hafa tekjur á bilinu 50--100 þúsund kr. á mánuði heldur en þá sem hafa á bilinu hálfa til eina milljón í tekjur á mánuði. Nefskattur hæstv. heilbrrh., jafnaðarmannsins Guðmundar Árna, leggst með mestum þunga á þá sem lægstu launin hafa og stórar fjölskyldur en verður hins vegar létt byrði þeim tekjuháu.
    Að vísu er þeim sem ekki treysta sér til þess að greiða 2.000 kr. fyrir heilsukortið boðið upp á að setja það í umslag og endursenda heilbrrn., hæstv. ráðherra eða fulltrúum heilbrrn., með þeim skilaboðum að viðkomandi vilji ekki vera sjúkratryggður. En sá hinn sami á þá ekki jafnan aðgang að því heilbrigðiskerfi sem hann hefur tekið þátt í að byggja upp með skattgreiðslum sínum og sá sem greiðir aðgangseyri til hæstv. heilbrrh.
    Er einhver sem ekki lítur á þetta sem beina skattahækkun á þá tekjulægstu í þjóðfélaginu, ofan á 0,5% skatt á allar launatekjur, ofan á stanslausa hækkun þjónustugjalda frá því að þessi ríkisstjórn tók við? Ef svo er þá er sá hinn sami blindur á kjör fólks og hvernig þau hafa stórversnað á síðustu tveim árum.
    Auk þessara stórauknu skatta á láglaunafólk ætlar ríkisstjórnin að spara 200 milljónir með því að skerða láglauna-, orlofs- og desembergreiðslur þeirra sem eru atvinnulausir og eru á bótum, aldraðir og öryrkjar. Rökin fyrir þessum sparnaði eru þau að hæstv. fjmrh. finnst ,,skringilegt`` að greiða þeim orlofsuppbætur sem ekki hafa vinnu og eru á bótum. Er nema von að samtökin Sjálfsbjörg, Landssamband fatlaðra, telji ástæðu til þess að senda hæstv. ráðherra bréf vegna svona ummæla. Auk þess mun 400 millj. kr. lækkun vaxtabóta nú koma til framkvæmda. Þá hefur persónuafsláttur lækkað og skólagjöldin hækkað.
    Virðulegi forseti. Ég hef ekki eytt miklum tíma í að fara yfir stöðu einstakra málaflokka miðað við þær tillögur sem fram koma í fjárlagafrv., heldur aðeins reynt að draga fram hversu ótrúverðug stefna er rekin og hefur verið rekin í ríkisfjármálum frá því að þessi ríkisstjórn tók við völdum.
    Hvað einstaka málaflokka varðar virðist stefnan vera sú sama og við höfum áður séð og árangurinn verður vafalaust eftir því. Flötum niðurskurði er áfram beitt án tillits til hlutverka stofnana eða mikilvægis þeirra verkefna sem stofnunin fæst við. Manni virðist sem engin vinna hafi nú, frekar en áður, verið lögð í það að skoða gaumgæfilega hverja stofnun áður en framlög eru ákveðin.
    Í þann tíma sem ég hef setið í fjárln. hefi ég séð hvernig fjárlög hvers árs fela í sér ákveðna sjálfvirka hækkun. Stofnanir sækja um og fá fjárveitingar til nýrra verkefna. Næsta ár koma umsóknir sömu stofnunar á borð fjárln. og enn koma ný verkefni auk uppfærslu í samræmi við verðlagsbreytingar á fjárveitingum síðasta árs. Þetta gerist ár eftir ár, ný verkefni bætast við, þau gömlu hverfa inn í fastar fjárveitingar viðkomandi stofnunar, að viðbættum verðbreytingum milli ára. Það er eins og gömlu verkefnunum ljúki aldrei, viðbótarfjárveitingin, sem fékkst vegna sérstakra tímabundinna verkefna, verði í mörgum tilvikum að fastri rekstrarfjárveitingu til viðkomandi stofnunar.
    Þá þykir alveg eðlilegt að stofnanir ríkisins færi milli fjárlagaliða þannig að rekstrarfjárveiting sé að hluta nýtt til stofnframkvæmda og fjárfestinga, sem síðan næsta ár geta þýtt aukna þörf fyrir rekstrarfjárveitingu. Þannig getur átt sér stað ákveðin sjálfvirkni í vexti ríkisútgjalda þó viðkomandi stofnun fari í raun aldrei út fyrir þann ramma fjárlaga sem henni er ætlaður á hverju ári. Á þessu verður ekki tekið með því að beita flötum niðurskurði á rekstur og stofnkostnað, heldur með því að skoða viðkomandi stofnun og fylgjast náið með því að ekki sé fært milli fjárlagaliða, tegunda og viðfangsefna án heimilda.
    Ég er alls ekki viss um að með því að færa fjárlagagerðina meira inn í fagráðuneytin sé tryggara að einmitt svona skoðun eigi sér stað. Fagráðuneytin hafa tilhneigingu til að halda verndarhendi yfir ,,sínum`` stofnunum og neita að líta á fjárlög og framkvæmd þeirra sem eina heild.
    Að skera flatt er oft á tíðum auðveldasta leiðin. Þá þarf ekki að gera upp á milli stofnana, meta mikilvægi þeirra og verkefni. Það er svo einfalt að svara kröfum um aukið fjármagn á þann hátt að eitt skuli yfir alla ganga. Flatur niðurskurður leiðir því alls ekki til árangurs inn í framtíðina, þvert á móti. Ef valin er sú leið þá verða vandamálin áfram þau sömu og lítið eða ekkert endurmat á sér stað á verkefnavali og mikilvægi stofnana. Því er ekki við árangri að búast með þessu frv. þar sem flötum niðurskurði hefur verið beitt.
    Þó örlar á tilraunum til þess að endurskipuleggja og það er þá helst í dómsmrn. Þar er lagt til að embætti verði lögð niður eða sameinuð. Þær tillögur virðast þó vera settar fram í fljótheitum, án mikils undirbúnings, og læðist að manni sá grunur að kappið við að ná því að vera innan þess fjárlagaramma sem því ráðuneyti var ákveðinn hafi ráðið ferðinni en ákvörðun ekki tekin að vel yfirlögðu ráði.    
    Ein tillagan er sú að sameina sýslumannsembættin á Hvolsvelli og í Vík. Raunverulegur sparnaður sem næðist með þeirri aðgerð hefur verið dreginn í efa. Einnig þær tölur sem birtast okkur í frv. Friðjón Guðröðarson, sýslumaður á Hvolsvelli, hefur sent frá sér greinargerð varðandi þetta mál. Með greinargerðinni fylgja síðan útfærðar tölulegar staðreyndir sem sýna, svo ekki verður um villst, að þær upplýsingar sem er að finna í frv. varðandi þetta málefni standast ekki og eru ekki til þess að auka trúverðugleika þessa plaggs.
    Einstaka sinnum vottar þó fyrir því að hæstv. ríkisstjórn sé að komast nær raunveruleikanum en hún hefur verið á síðustu tveim fjárlagaárum. Til dæmis er nú aðeins gert ráð fyrir að selja ríkisfyrirtæki fyrir um 500 milljónir kr. á móti einum og hálfum milljarði í ár, þar sem þó eru horfur á að einungis um 100 milljónir skili sér.
    Enn eru uppi áform um að selja Þvottahús Ríkisspítalanna fyrir 60 milljónir króna. Þær 60 milljónir eiga að stærstum hluta að renna til Ríkisspítala en takist ekki að selja þvottahúsið eiga Ríkisspítalar að skera niður sem því nemur eða auka verkefni þvottahússins, þ.e. þvo meira.
    Þrátt fyrir loforð um að auka framkvæmdir á vegum ríkisins til þess að hamla á móti atvinnuleysi er gert ráð fyrir því í frv. að framkvæmdir á vegum ríkisins dragist verulega saman. Gert er ráð fyrir að 14,7 milljarðar fari til framkvæmda á árinu 1994 á móti tæplega 16,5 milljörðum í ár. Fjárfestingar á vegum ríkisins dragast því verulega saman frá því í ár, sem hlýtur að teljast slæmt þar sem, eins og ég sagði áðan, fjárfesting sem hlutfall af landsframleiðslu er í sögulegu lágmarki, 15,5%. Hún er of lítil til þess að bera uppi aukinn hagvöxt og bata á vinnumarkaði verður vart nema með auknum hagvexti. Því hefði verið skynsamlegt að beita öllum tiltækum ráðum til þess að auka fjárfestingu ríkisins í stað þess að draga úr henni. Fyrir utan það að við gerð síðustu kjarasamninga var af hálfu ríkisstjórnarinnar gefið loforð um auknar framkvæmdir á þessu og næsta ári, langt umfram það sem fram kemur í frv. Það eru því svik við verkalýðshreyfinguna ef ekki kemur til hækkun á þessum lið frv.
    Þá hefur það komið fram að frv. felur í sér fleiri svik við gerða kjarasamninga, 0,5% atvinnuleysistryggingagjaldið, frestun á gildistöku fjármagnstekjuskattsins og 2.000 kr. aðgangseyri að heilbrigðiskerfinu. Allar þessar tillögur ríkisstjórnarinnar gefa fyllilega ástæðu til þess að endurmeta þær forsendur sem lágu að baki kjarasamnings og hreint alveg furðulegt að ríkisstjórnin skuli ganga svo á gerðan samning sem raun ber vitni.
    Haft er eftir formanni VMSÍ að hugmyndaflug ríkisstjórnarinnar í þessum efnum sé með ólíkindum á sama tíma og það sé viðurkennt að undanskot frá skatti séu á bilinu 10--15 milljarðar króna.
    Og enn einkennilegri eru þessar tillögur eða úrræði ríkisstjórnarinnar þegar haft er í huga að þessir tveir skattar, 0,5% á öll laun og heilsukortin, eiga að skila í ríkissjóð um 1,4 milljörðum króna þegar 1% vaxtalækkun á innlendum lánamarkaði mundi spara ríkinu um 800 milljónir króna í útgjöld vegna vaxtagjalda. 2% vaxtalækkun gerði því meira en að dekka þessa nýju skatta ríkisstjórnarinnar, auk þess sem vaxtalækkun myndi treysta þá kjarasamninga sem gerðir hafa verið í stað þess að splundra þeim.
    Svigrúm til þess að lækka vexti núna er auk þess meira en það var á undanförnum árum samkvæmt þeim upplýsingum sem við fengum frá forstöðumanni Þjóðhagsstofnunar þegar hann kom á fund fjárln.
    Frv. til fjárlaga fyrir árið 1994 er ákaflega ótrúverðugt plagg og síst af öllu til þess fallið að treysta efnahagsástandið. Það er unnið út frá sömu meginlínu og fjárlög þessa árs sem virðast ætla að koma út með um 100% meiri halla en gert var ráð fyrir.
    Þó má sjá af greinargerð frv. hver hin raunverulega stefna hæstv. ríkisstjórnar er, sem ekki var nokkur leið að lesa út úr stefnuræðu hæstv. forsrh. Við sjáum í greinargerðinni hverjir það eru sem eiga að bera byrðarnar og við sjáum þar hversu gífurlegar skattahækkanir stefna ríkisstjórnarinnar hefur haft í för með sér fyrir þá sem lægstar hafa tekjurnar. Við sjáum þar hvað er arðbært í augum hæstv. ráðherra og hvað er ekki arðbært.
    Á bls. 250 í frv., þar sem fjallað er um framkvæmdir á vegum ríkisins, segir að áhersla verði lögð á arðsöm verkefni sem ekki leiði til aukins rekstrarkostnaðar þegar til lengri tíma er litið.
    Efst á sömu síðu er fjallað um framlög úr Framkvæmdasjóði fatlaðra og Framkvæmdasjóði aldraðra en framlög til beggja þessara sjóða eru verulega skert. Þar segir að ekki verði veitt framlög úr þessum tveimur sjóðum til þess að koma á fót nýjum stofnunum. Nýjar stofnanir fyrir fatlaða og aldraða falla sem sagt ekki innan ramma skilgreiningar hæstv. ríkisstjórnar á því hvað sé arðbær framkvæmd og hvað ekki.
    Ný og gerbreytt efnahagsstefna hæstv. ríkisstjórnar sem boðuð var strax haustið 1991 í hvítu bókinni hefur falist í því að treysta fyrst og fremst á samdrátt og niðurskurð til þess að koma á jöfnuði í hagkerfinu. Sú stefna hefur engan árangur borið. Niðurstaðan er samtals að minnsta kosti rúmlega 30 milljarða kr. halli á fjárlagaárinu 1992--1993 og því frv. sem hér er til umræðu fyrir árið 1994. Vextir hér á landi eru hærri heldur en í nánast öllum viðskiptalöndum okkar þar sem þeir hafa farið lækkandi. Áframhaldandi samdráttur og kreppa eru í hagkerfinu og Þjóðhagsstofnun boðar vaxandi atvinnuleysi á komandi vetri.
    Þrátt fyrir að augljóst sé að sú efnahagsstefna sem ríkisstjórnin ákvað að fylgja fyrir tveim árum hefur engum árangri skilað er henni enn fylgt í frv. til fjárlaga fyrir næsta ár. Jafnvel þó augljóst sé að einstakir hæstv. ráðherrar innan ríkisstjórnarinnar séu búnir að missa alla tiltrú á þessari stefnu eins og fram kom í ræðu formanns Alþýðuflokksins, Jafnaðarmannaflokks Íslands, hæstv. utanrrh. um stefnu ríkisstjórnarinnar þar sem hann lýsti nánast fjárlagafrv. og þar með efnahagsstefnunni sem handónýtu plaggi. Eða ráðherra hefur sett fram fyrirvara við afgreiðslu þessa frumvarps ríkisstjórnarinnar, eins og hæstv. félmrh. hefur gert. Og ég held, virðulegi forseti, að nauðsynlegt sé að hæstv. félmrh. eða staðgengill hennar sem ég trúi að sé hér einhvers staðar í húsinu, hæstv. umhvrh., fari yfir það með okkur í hverju fyrirvarar félmrh. við frv. felast og hvaða leiðir hæstv. ráðherra vill fara.
    Það hefur nokkuð borið á því á undanförnum mánuðum að þær raddir hafi heyrst að til þess að koma hagkerfinu í lag þurfi að fara leið erlendrar lántöku og að hallarekstur ríkissjóðs í líkingu við það sem lagt er til í fjárlagafrv. geti verið nauðsynlegur um tíma. Sú aðferð að taka erlend lán til framkvæmda og til þess að setja út í atvinnulífið er í senn hæpin og hættuleg miðað við þær miklu erlendu skuldir sem þjóðin býr nú við. Stöðugur hallarekstur ríkissjóðs er ekki vænleg leið til árangurs. Þess vegna telur Alþb. nauðsynlegt að skoða þriðju leiðina sem ýmsir af sérfræðingum í hagstjórn og efnahagslífi á Vesturlöndum hafa á undanförnum missirum mælt með. Sú leið er að flétta saman sókn í atvinnulífi og útflutningi, ábyrga hagstjórn og félagslegar áherslur. Þeir sem vilja fara þessa leið viðurkenna erfiðleikana sem við er að glíma og hafna því að stóraukin skuldasöfnun, sem ekki tengist arðbærum fjárfestingum, sé leiðin fram á við. Þeir leggja áherslu á að höfuðatriðið sé að auka útflutningstekjur. Það þarf að skapa undirstöður hagvaxtar og sóknar í útflutningi í samstarfi stjórnvalda og atvinnulífs. Til þess þarf að lækka vexti. Til þess þarf að nýta þau færi sem lágt raungengi skapar. Til þess þarf að efla rannsóknir og þróunarstarfsemi og stuðning við frumkvöðla og ný verkefni, sérstaklega á sviði útflutnings.
    Þessi leið felur það einnig í sér að dregið verði úr hallarekstri ríkissjóðs og annarra opinberra aðila. Hallarekstur og erlend skuldasöfnun ríkissjóðs grefur til lengdar undan undirstöðum öflugrar útflutningsstarfsemi.
    En niðurskurður ríkisútgjalda í þessu skyni má hins vegar ekki veikja alvarlega einmitt þær undirstöður hagvaxtar sem eru nauðsynlegar til sóknar, þ.e. mikilvæga þætti menntakerfis, rannsókna- og þróunarstarfsemi og eðlilegan stuðning við nýsköpun. Hann verður einnig að vera félagslega ábyrgur, því án þess næst ekki um hann nein sátt. Það verður því að dreifa byrðunum af aðhaldi í ríkisfjármálum réttlátlega. Við getum kallað þessa leið hagvaxtarleiðina, eða jafnvel það sem er enn betra, útflutningsleiðina. Með margvíslegum breytingum á skattakerfi, sjóðum og bankastofnunum verður smáum og stórum fyrirtækjum gert auðveldara að sækja fram á erlendum mörkuðum. Með víðtæku samstarfi atvinnulífs, launafólks og stjórnvalda verði mótaðar sóknarlínur í einstökum atvinnugreinum og á þann hátt náð aukinni framleiðslu og sölu á erlendum mörkuðum sem skapi vaxandi þjóðartekjur, dragi úr halla ríkissjóðs og skapi stöðugleika og jafnvægi í efnahagsmálum. Þetta er sú leið sem Alþb. telur að sé rétt til þess að ná varanlegum árangri í efnahagslífi landsins. Sú leið samdráttar og niðurskurðar sem ríkisstjórnin hefur fylgt og enn er höfð að leiðarljósi í fjárlagafrv. fyrir árið 1994 er þrautreynd og má gjarnan leggja hana til hliðar. Að fara leið erlendrar lántöku er einnig varhugavert vegna þess hve gífurleg skuldasöfnun hefur nú þegar átt sér stað. Frv. til fjárlaga fyrir árið 1994 felur ekki í sér metnað til þess að örva og styrkja efnahagslíf landsins. Því ætti hæstv. ríkisstjórn að taka frv. til baka og endurskoða efnahagsstefnu sína því hún hefur þrátt fyrir háleit markmið brugðist algerlega.