Fjárlög 1994

11. fundur
Þriðjudaginn 12. október 1993, kl. 16:41:02 (193)


[16:41]
     Sturla Böðvarsson :
    Virðulegi forseti. Eins og vænta mátti hefur frumvarp til fjárlaga fyrir árið 1994 vakið viðbrögð og orðið tilefni til umræðu meðal þingmanna og reyndar þjóðarinnar allrar.
    Fátt hefur orðið að undanförnu til þess að auka okkur Íslendingum bjartsýni hins vegar um bættan hag vegna betri skilyrða á mörkuðum eða afrakstri auðlindanna nema ef vera skyldi betri horfur í rekstri stóriðjunnar á Grundartanga og Straumsvík og tilraunir til nýsköpunar í sjávarútvegi m.a. tengd úthafsveiðum og aukinni nýtingu botndýra sem vissulega ber að fagna.
    Það hefur orðið hlutskipti okkar í stjórnarflokkunum að takast á við mikinn samdrátt í þjóðartekjum og með minnkandi þorskveiðum á næsta ári bendir ekkert til þess að það ár verði léttara en það sem senn líður.
    Markvissar varnaraðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa samt sem áður styrkt stöðu okkar og komið í veg fyrir þann mikla vanda sem allt stefndi í þegar stjórnin tók við.
    Við slíkar aðstæður er ekki um annað að ræða en rifa seglin. Draga úr kostnaði á öllum sviðum enda þótt nauðsynlegt sé að meta og vega hvert tilefni sem til meðferðar er við uppstokkun og sparnað í hinum opinbera rekstri.
    Hlutverk okkar alþingismanna hér á hinu háa Alþingi er að setja lög. Með þeim er einstaklingum jafnt sem félögum settur sá rammi sem samfélaginu er ætlað að þróast innan. Með fjárlögum er settur hinn efnahagslegi rammi um ríkisreksturinn sem hefur áhrif á alla þætti þjóðfélagsins í lengd og í bráð.
    Með auknum rekstri og margskonar starfsemi hins opinbera á öllum sviðum verður stöðugt viðkvæmara að gera breytingar á framboði þeirrar þjónustu. Dæmi um það eru barnaheimili sjúkrahúsanna.
    Það sem einu sinni hefur verið sett á stofn verður rótfast og þarf því oft mikið átak og vandaðan undirbúning ef gera á róttækar breytingar á þeim stofnunum sem starfandi eru. Það er sá lærdómur sem draga má af viðbrögðum við ýmsum hugmyndum sem á sveimi hafa verið innan ráðuneyta og sumar hafa komið fram með því frumvarpi til fjárlaga sem hér er til 1. umr.
    Á uppgangstímum síðustu ára var þjóðin upptekin við að ausa af auðlindum sjávar. Byggja virkjanir sem og önnur mannvirki sem skapa umgerð um samfélag okkar. Opinber þjónusta hér stenst samanburð við það sem best gerist meðal annarra nágrannalanda, en ekki hefur verið gert ráð fyrir þeim afturkipp í efnahagsmálum sem gerði vart við sig strax í byrjun kjörtímabilsins og því hefur verið þeim mun erfiðara að bregðast við þeim vanda.
    Þegar litið er til nágrannaþjóða okkar og borinn saman fjöldi íbúa og stærð landsins er óhætt að segja að á þeim tæpu 50 árum sem lýðveldið hefur staðið hér á Íslandi þá hafa gerst ótrúlegir hlutir við uppbyggingu á sviði velferðar-, mennta- og menningarmála.
    Þrátt fyrir framfarir og nýjungar við flestar atvinnugreinar, og þá ekki síst í sjávarútvegi, hefur ekki tekist eins vel að efla atvinnulífið, þann grundvöll sem þjóðfélagið stendur allt og fellur með, eins og hina opinberu þjónustu. Þar stendur ekki síst á því að efla iðnaðinn í landinu og nýta þannig orku fallvatna, jarðhitann og ekki síður hugvit og færni vel menntaðra íslenskra starfsmanna sem hafa menntað sig á sviði iðnaðar og margvíslegrar tækni. Í því felst vandi okkar núna. Hann kemur fram við afgreiðslu fjárlaga allt til þess tíma að hagvöxtur getur aukist og þjóðartekjur þar með. Samkvæmt áætlun Þjóðhagsstofnunar er þess ekki að vænta að hagvöxtur glæðist fyrr en 1995 og 1996. Það skiptir því miklu máli að næsta ár verði vel nýtt, m.a. með því að takmarka ríkisútgjöldin og búa í haginn fyrir atvinnureksturinn og þá sérstaklega með lækkun vaxta og skatta. Vissulega væri freistandi við þessar aðstæður að hækka skatta og draga

þannig úr halla ríkissjóðs. En það tel ég að væri hið mesta glapræði.
    Einn mikilvægasti þáttur í rekstrarumhverfi er þróun raungengis og staða þess. Færa má rök fyrir því að í hvert skipti sem sjávarútvegurinn hefur gengið vel hefur gengi krónunnar verið rangt skráð svo sjávarútvegsfyrirtækin og sjávarbyggðirnar hafa ekki fengið notið afraksturs góðrar afkomu vegna aukinna veiða og bættrar afkomu sjávarútvegsfyrirtækjanna. Mætti halda um það langa ræðu hvernig fjármunir hafa verið fluttir frá framleiðsluatvinnuvegunum til hreinnar eyðslu og stórfelldrar uppbyggingar verslunar og þjónustu sem fleytt hafa rjómann af mikill framleiðni í sjávarútvegi en eiga sér tæplega rekstrargrundvöll nema í góðæri.
    Forsendur þess frv. til fjárlaga sem hér er til 1. umr. koma m.a. fram í þjóðhagsáætlun sem forsætisráðherra hefur lagt fram. Samkvæmt henni er gert ráð fyrir stöðugleika árið 1994 með verðbólgu um 3%, sem er lægri verðbólga en áætlað er að verði í ríkjum Evrópu á sama tíma. Hins vegar er gert ráð fyrir því að þjóðartekjur dragist saman og landsframleiðslan verði 2,6% minni 1994 en 1993 vegna minni þorskafla.
    Þetta eru mikilvægar staðreyndir. Annars vegar stöðugleiki með lágri verðbólgu sem er einhver mikilvægasti þáttur í efnahagsumhverfi okkar og hins vegar sú staðreynd að við stækkum ekki kökuna sem er til skipta fyrir landsmenn heldur mun hún minnka.
    Við slíkar aðstæður ætti öllum að vera ljóst að það er erfiðleikum háð að loka fjárlögum án þess að á þeim verði halli. Að öðrum kosti köllum við yfir okkur stórfellt atvinnuleysi, ekki síst hér á höfuðborgarsvæðinu þar sem þjónustugreinarnar eru fjölmennastar.
    Sá halli, sem hér er lagt upp með í frumvarpi, er þó ekki eins alvarlegur og ella vegna þess að viðskiptahallinn hefur farið minkandi. Viðskiptahallinn var árið 1991 18 milljarðar kr., árið 1992 12 milljarðar kr. og hann er talinn verða 5,5 milljarðar á þessu ári og er spáð að hann verði svipaður á næsta ári.
    Vissulega verður það að vera markmið okkar að ná jöfnuði í ríkisfjármálum og við sjálfstæðismenn leggjum á það ríka áherslu að hemja útgjöld ríkisins og draga úr skattheimtu til þess að reyna til hins ýtrasta að efla framtak einstaklinga og fyrirtækja.
    Við þær aðstæður sem nú hafa skapast er það ekki létt verk að skera svo niður ríkisútgjöldin nema með því að loka fjölda stofnana og lækka laun.
    Í umræðunni um efnahagsmálin fer það sem rauður þráður að lækka verður raunvexti til þess að koma til móts við fyrirtæki sem og skuldug heimili. Lækkun vaxta er ekki einungis kjarabót fyrir launþega heldur skiptir vaxtalækkun verulegu máli fyrir ríkissjóð þótt mikið af skuldum séu við erlendar lánastofnanir.
    Bent er á að samband sé á milli halla á ríkissjóði og vaxtastiginu vegna þeirrar eftirspurnar sem ríkið veldur á lánsfjármarkaði. Vissulega er það rétt en hins vegar er ljóst að vaxtamyndunarkerfið er veikburða og því þörf að gera sérstaka athugun á því. Er nauðsynlegt að stjórnendur Seðlabankans taki til við og standi fyrir því að gera breytingu á vaxtamyndunarkerfinu við fyrsta tækifæri og er afar mikilvægt að hæstv. viðskrh. fylgi því fast eftir.
    Eftir þá umræðu sem hér er hafin mun fjárln. fá frumvarpið til meðferðar. Ríkisstjórnin hefur fléttað það saman við erfiðar aðstæður og í meðförum þingsins er mikilvægt að hafa sýn til lengri tíma en þess eina árs sem fjárlögin ná til þegar gengið er til þess að stokka upp einstaka stofnanir eða fella niður þjónustu. Þá verður að taka mið af þeim vilja stjórnvalda að sameina sveitarfélög og ná fram hagræðingu og sparnaði í þjóðfélaginu.
    Við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1994 hér í þinginu tel ég að hafa þurfi eftirtalin markmið að leiðarljósi:
    1. Að hemja útgjöld ríkisins og endurmeta tillögur um nýjar stofnanir, ekki síður en að endurmeta þær tillögur ráðuneyta um að leggja niður embætti og hætta rekstri þjónustustofnana.
    2. Að lækkun raunvaxta verði að veruleika.
    3. Að niðurgreiðslur og tilfærslur verði metnar rækilega.
    4. Að með frekari einkavæðingu og flutningi verkefna til sveitarfélaga verði dregið úr beinum rekstri og þjónustu á vegum ríkisins. Slíkar aðgerðir þurfa að hafa eðlilegan aðdraganda og ekki má binda sig fastan við sigluna með því að horfa um of á áramót þegar verið er að gera breytingar á rekstri stofnana. Gefa verður stjórnendum eðlilegan aðlögunartíma og ekki síður þeim sem njóta þjónustunnar.
    5. Að beina fjármunum til innri uppbyggingar, svo sem samgöngumannvirkja, til þess að gera rekstur þjóðfélagsins hagkvæmari. Það kann ekki góðri lukku að stýra að allt snúist um að setja á fót nýjar stofnanir og efla þjónustu á vegum ríkisins sem kallar síðan yfir okkur aukin ríkisútgjöld sem við í raun höfum ekki ráð á. Sameining sveitarfélaga og hafnarsvæða samfara bættum samgöngum á landi eru núna mikilvægustu þættir við innri uppbyggingu okkar ágæta þjóðfélags.
    6. Að styrkja rannsóknir, ekki síst á sviði hafrannsókna og hvers konar þróunarstarfs. Er mikilvægt að ríkisvaldið auki verulega stuðning sinn við vísinda- og tækniþróun í landinu, en nýsköpun á grundvelli þekkingar og tækni er ein mikilvægasta undirstaða hagvaxtar í nútímaþjóðfélagi.
    7. Að efla ferðamannaþjónustu svo fjárfesting í þeirri grein megi nýtast sem best.
    8. Að í samstarfi við sveitarfélögin verði hamlað gegn atvinnuleysi með því að efla starfandi fyrirtæki ekki síður en ný, m.a. með því að takmarka skattheimtu og með því að auka þátt sveitarfélaganna

við aðgerðir Atvinnuleysistryggingasjóðs með því að efla atvinnu með sérstökum framlögum til verkefna sem skapi atvinnutækifæri á tilteknum svæðum.
    9. Að gera ráð fyrir frekari samdrætti ríkisútgjalda þegar hagvöxtur eykst að nýju og það er auðvitað nauðsynlegt að hafa í huga þegar fjallað er um fjárlög næsta árs.
    Hér hef ég nefnt fáein dæmi sem ég tel að einkum þurfi horfa til við afgreiðslu fjárlaga og eru þau vissulega í samræmi við þá meginstefnu sem frv. markar en margt annað mætti nefna.
    Virðulegi forseti. Með breytingum á lögum um þingsköp var gert ráð fyrir því að takamrka umræðutíma við 1. umr. frv. Því mun ég nú stytta mál mitt en vil segja að lokum: Fjárfesting er samkvæmt fjárlagafrv. í sögulegu lágmarki eins og það hefur verið nefnt. Það má vissulega velta því fyrir sér hvort með því sé hagvexti á næstu árum stefnt í hættu. Arðbær fjárfesting er mikilvæg undirstaða aukins hagvaxtar. Við afgreiðslu fjárlagafrv. verður að gera sérstaka athugun á þessari staðreynd.
    Með því að draga verulega úr þorskveiðum er tekin sú ákvörðun að skerða tekjur þeirra fyrirtækja og þeirra byggða sem byggja hvað mest á þorskveiðum. Á sumum svæðum verður unnt að vega upp tekjutapið að einhverju leyti með aukinni loðnuveiði eða veiðum á stofnum sem ekki eru undir kvóta. Það vegur þó skammt og er ekki til staðar í mörgum byggðum sem verða því fyrir mikilli skerðingu. Þar er veruleg hætta á auknu atvinnuleysi.
    Það er afar mikilvægt að gera sér grein fyrir þessari staðreynd og búa svo um hnúta, m.a. við afgreiðslu fjárlaga, að sá skellur verði mildaður svo sem nokkur kostur er.
    Virðulegi forseti. Ég mun ekki lengja þessa umræðu nú en fæ tækifæri til þess að ræða fjárlagafrv. í fjárln. á næstu vikum og mánuðum.