Fjárlög 1994

11. fundur
Þriðjudaginn 12. október 1993, kl. 17:23:01 (202)


[17:23]
     Finnur Ingólfsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það hljómar auðvitað eins og brandari þegar maður hlustar á hv. þm. Einar K. Guðfinnsson halda því fram að ríkisfjármálastjórnin hafi verið svo traust undanfarin tvö ár að lagður hafi verið grunnur að því að vextir geti lækkað í landinu enda talaði þingmaðurinn sig frá því og sagði að það yrði að gera þetta með handafli. Þegar því er haldið fram að fjármálastjórnin sé traust þá verða menn að hafa það í huga að ríkisstjórnin lagði fram fjárlagafrv. fyrir árið 1992 sem gerði ráð fyrir 4 milljarða kr. halla en var með 7 milljarða kr. Árið 1993 átti hallinn að verða 6 milljarðar kr. Hann stefnir í það að mati Ríkisendurskoðunar að verða 12 milljarðar kr. Nú er lagt fram fjárlagafrv. sem gerir ráð fyrir 10 milljarða kr. halla og menn segja: Jú, við erum enn að reyna að nálgast raunveruleikann. En sennilega hafa menn aldrei verið fjær því en einmitt nú að nálgast raunveruleikann því þegar menn lesa í gegnum frv. þá gæti alveg eins stefnt í 20 milljarða kr. halla á árinu 1994 ef ekki verða gerðar verulegar breytingar á frv.
    Þannig að það er mjög langt frá því, hv. þm. Jóhannes Geir, að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson hugsi eitthvað líkt og við framsóknarmenn ef hann telur að þetta sé ábyrg fjármálastjórn.