Fjárlög 1994

11. fundur
Þriðjudaginn 12. október 1993, kl. 17:24:38 (203)


[17:24]
     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér þykir verst af öllu ef ég hef komið af stað leiðindum í Framsfl. Það er hins vegar deginum ljósara að með þeirri ríkisfjármálastefnu sem framfylgt hefur verið undanfarin ár hefur okkur tekist það sem skiptir afar miklu máli og ég gerði að miklu umtalsefni raunar í minni ræðu og er það að tekist hefur að draga úr hinni opinberu lánsfjárþörf um helming og það auðvitað skiptir öllu máli þegar við erum að fara í þá vinnu sem þarf að leiða til verulegrar raunvaxtalækkunar í landinu. Munurinn á stefnu minni og stefnu Framsfl. er auðvitað sá að framsóknarmenn hafa lagt fram hugmyndir eða stóðu að því í síðustu ríkisstjórn að lækka vexti á ríkispappírum án þess að gera nokkrar aðrar ráðstafanir. Það hafði þær afleiðingar í för með sér að ríkispappírarnir voru að vísu skráðir á lægri vöxtum en þeir einfaldlega seldust ekki. Það er munurinn á þeirri stefnu sem ég hef verið að halda fram og þeirri stefnu sem Framsfl. hefur verið að halda fram, að ég hef sagt sem svo að til þess að þetta megi takast þá þurfi í fyrsta lagi að vera til efnahagslegar forsendur. Þær hafa verið skapaðar með traustri fjármálastefnu þessarar ríkisstjórnar. Í annan stað hitt að ég hef auðvitað verið að benda á það að fjármagnsmarkaðurinn hér á landi er svo fábrotinn og vanþróaður að það er tiltölulega auðvelt að tryggja það að gefnum ákveðnum efnahagslegum forsendum að hann verði til þess að hér lækki vextir. Það er stefna sem ég var að tala fyrir. Nú hefur það sem sagt komið á daginn að Framsfl. vill fara að eigna sér þetta en þá verður auðvitað að þvo þennan fortíðarvandastimpil af sér sem þeir skópu sér sjálfir vorið 1991 þegar þeir með óábyrgum hætti lækkuðu vexti á ríkispappírum án þess að gípa til nokkurra annarra efnahagslegra úrræða.