Fjárlög 1994

11. fundur
Þriðjudaginn 12. október 1993, kl. 18:43:09 (214)


[18:43]
     Finnur Ingólfsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Eftir því sem fleiri þingmenn Sjálfstfl. tala við 1. umr. um frv. til fjárlaga þá skýrist það auðvitað enn betur að þetta frv. nýtur alls ekki stuðnings þeirra flokka sem þó hafa lagt það fram og ætla að bera ábyrgð á því eins og það hefur verið lagt fram á þinginu.
    Ég sagði það fyrr í andsvari að það er margt sem bendir til þess að fjárlagahallinn sem áætlaður er að verði með frv. sé 10 milljarðar kr., hann gæti stefnt í 20 milljarða kr. Og ef fram heldur sem horfir bara í umræðunni um heilbrigðismálin þar sem maður getur í fljótu bragði lesið út að það standi til að spara 1,5 milljarða kr. þá held ég að það sé nokkuð ljóst að með þeim ræðum sem hér hafa verið haldnar, bæði í utandagskrárumræðu í fyrri viku um Gunnarsholt og um barnaheimili sjúkrahúsanna og nú í þessari ágætu ræðu hv. þm. Láru Margrétar um heilsukort og þar fram eftir götunum, þá sé a.m.k. af þeim sparnaði sem þar er áætlað að ná farnar út 1.200 millj. kr. Eftir gætu kannski staðið 300 millj. kr. af því sem menn eru að tala um að spara í heilbrigðismálum. Ef fram heldur sem horfir þá er það ekkert fjarri lagi að það standi ekki steinn yfir steini í þessu fjárlagafrv. og hallinn sé þess vegna miklu meiri. 170 millj. kr. á að spara á barnaheimilunum, það er engin samstaða um það, 50 millj. kr. í Gunnarsholti, það er engin samstaða um það, 525 millj. kr. á að spara í sjúkratryggingunum, það er engin samstaða um neitt þar. Jú, það á að semja við verkalýðshreyfinguna um stærstu hlutana, um eingreiðslurnar, sem verkalýðshreyfingin hefur nú þegar lýst yfir að alls ekki komi til greina að semja um. Heilsukortin eiga að gefa í tekjur 400 millj. Það er ekki samstaða um þá leið sem á að fara. Til viðbótar því eiga þeir aðeins að greiða sem það vilja þegar þeir hafa notið þjónustunnar. Það skilar því engum 400 millj. Það er alveg sama hvar á þetta frv. er litið, a.m.k. í þessum málaflokki, að það stendur ekki steinn yfir steini.