Fjárlög 1994

11. fundur
Þriðjudaginn 12. október 1993, kl. 18:46:29 (216)


[18:46]
     Finnur Ingólfsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þessi ræða hv. þm. Láru Margrétar kom mér í sjálfu sér ekki á óvart. Ríkisstjórnarliðið veit ekkert hvernig á að gera þetta. Það er alltaf betur og betur að koma í ljós. Ef hins vegar sú leið er farin sem hæstv. heilbr.- og trmrh. hefur lýst að fara skuli í þessari heilsukortainnheimtu þá er hún mjög svipuð því, ef ég tek samlíkingu, að maður sem á bíl og lendir í árekstri, hefur tryggt hann í kaskó en greiðir auðvitað ekki trygginguna og hefur aldrei dottið það í hug. Þegar hann hins vegar hefur lent í árekstrinum og búið er að gera við bílinn þá kemur hann með reikninginn til tryggingafélagsins og segir: Ja, þetta kostaði nú tjónið. Ég vil fá þetta að fullu greitt en þú mátt draga hérna frá iðgjaldið af kaskótryggingunni. Ef tryggingafélag væri rekið með þessum hætti, hvernig færi fyrir því? Það færi lóðbeint á hausinn. Þannig að hugmyndirnar um 400 millj. kr. skattheimtu með heilsukorti og ef framkvæmdin er eins og hæstv. heilbr.- og trmrh. hefur lýst þá er auðvitað enginn fótur fyrir þessu og er bara tóm vitleysa eins og allt sem í þessu frv. er.