Fjárlög 1994

11. fundur
Þriðjudaginn 12. október 1993, kl. 19:14:10 (218)


[19:14]
     Sigbjörn Gunnarsson (andsvar) :
    Frú forseti. Vegna spurningar hv. síðasta ræðumanns þess efnis hvort fjárln. muni veita fagnefndum meira vægi þá vil ég segja þetta: Ég tek undir með þingmanninum eftir að hafa starfað í fagnefndum í tvö ár að það er heppilegt að fagnefndir komi að verki og það er gott veganesti fyrir fólk sem situr í fagnefndunum að kynna sér þann þátt fjármála sem þær nefndir snertir. Hitt er svo annað að ég er nýlega kominn til starfa í fjárln. og síðustu sólarhringar hafa farið í að kynna mér störf þeirrar nefndar, m.a. hef ég kynnt mér ítarlega Noregs-skýrsluna sem flokksbróðir hv. þm. nefndi til sögunnar hér fyrr í umræðunum. Þar er auðvitað margt athyglisvert að finna. Ég held þó að aðdragandinn að slíkum breytingum sem þar er um getið þurfi að vera lengri en tök eru á um þessar mundir. En ég mun beita mér fyrir því í upphafi næsta árs að fjárln. ræði ítarlega hvort möguleikar séu til breytinga í þessa veru.