Fjárlög 1994

11. fundur
Þriðjudaginn 12. október 1993, kl. 20:18:21 (223)


[20:18]
     Finnur Ingólfsson (andsvar) :
    Þingforseti. Góðir þingfulltrúar, þeir fáu alþingismenn sem hér eru í salnum. Það hefur komið hvað eftir annað mjög skýrt fram í máli hæstv. heilbr.- og trmrh., í Tímanum í tvígang að ég hygg og í ríkisfjölmiðlunum, að sú framkvæmd verði á þegar heilsukortin verða tekin upp að menn geti greitt heilsukortið sitt eftir á, þ.e. eftir að viðkomandi einstaklingur hefur lagst inn á sjúkrahús og komist þess vegna hjá því að greiða það gjald er upp verður sett á sjúkrahúsunum, hafi viðkomandi ekki greitt heilsukortið, og geti síðan greitt heilsukortið eftir að hann kemur út, því að það verður ekki gengið að neinum í þessum

efnum.
    Nú hefur hins vegar hæstv. fjmrh. sagt, og sem er auðvitað mjög skiljanlegt, að framkvæmdin geti ekki orðið með þessum hætti, ef þetta á að skila ríkissjóði sértekjum upp á 400 millj. kr. Með þessu hefur hæstv. fjmrh. skapað ákveðna réttaróvissu, líkt og hæstv. utanrrh. gerði þegar hann lofaði því og taldi að það væri allt í lagi að flytja inn kjúklinga eða kalkúnalæri í gegnum Keflavík. Því er mikilvægt að úr þessu verði skorið sem allra fyrst. Það getur hæstv. fjmrh. auðvitað gert með því að lýsa því yfir að framkvæmdin sem hæstv. heilbr.- og trmrh. hefur lýst að skuli verða á innheimtu heilsukortanna, sé ekki með þeim hætti sem hæstv. heilbr.- og trmrh. hefur lýst. Það er því mikilvægt að fá úr þessu skorið, að þetta sé alveg skýrt.