Fjárlög 1994

11. fundur
Þriðjudaginn 12. október 1993, kl. 20:27:12 (228)


[20:27]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Örstutt. Varðandi fjarveru heilbr.- og trmrh. vil ég segja að hann hefur fjarvistarleyfi í dag. Ég gáði að því hér áðan þannig að þess vegna er hann ekki í húsinu.
    Það er rétt hjá hv. þm. að tilfærslurnar koma ekki inn í rekstrargjöldin og þeir fjármunir sem koma inn sem þjónustugjöld eða þátttökugjöld þeirra sem njóta þjónustunnar koma þess vegna ekki fram á þeim sértekjum sem ég nefndi, það er hárrétt.
    Ég veit ekki hvort það er í mínum verkahring að reyna að skýra út það sem segir um vextina. En ég hygg þó að þetta sé mjög skýranlegt þegar við berum saman annars vegar ríkið sem lántakanda á markaði og hins vegar bankana. Bankarnir verða að láta innlán og útlán standast á, eins og þeir segja í bankaheiminum að ,,matsa saman``, svo þeir tali nú þessa amerísku íslensku. En ríkissjóður er ekki í raun og veru að lána út. Hann tekur bara við peningum og notar síðan í sína þágu.
    Vandi bankanna er að innlánin eru að stórum hluta til verðtryggð en útlánin óverðtryggð. Þegar verðbólga eykst, t.d. í kjölfar gengisfellingar, þá stórhækka raunvextir innlánanna sem neyðir bankana til þess að stórhækka útlánin, einnig óverðtryggðu útlánin. Þetta þarf ríkissjóður ekki að hafa áhyggjur af. Þetta er einmitt ástæðan fyrir þessum háu vöxtum á skammtímamarkaði, sem leiða til þess að nú er verið að fjalla um það að koma í veg fyrir verðtryggð innlán til skamms tíma í bönkum. Síðan er kannski næsti kafli við að ef okkur tekst að ná niður vöxtum á skammtímamarkaði, þá má búast við því að vextir í framhaldinu lækki til lengri tíma, þar á meðal á ríkisskuldabréfum til þriggja, fimm og tíu ára.