Staðfesting EES-samningsins

12. fundur
Miðvikudaginn 13. október 1993, kl. 13:39:22 (236)


[13:39]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Gert er ráð fyrir því að EES-samningurinn öðlist gildi í seinasta lagi um næstu áramót. Þeir menn munu vera til sem gera sér vonir um það að það geti orðið 1. des. en ég treysti mér ekki til þess að slá því föstu.
    Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hafði seinastar áttu þrjú þjóðþing eftir að staðfesta samninginn. Það var breska þingið, hið franska og hið spænska. Því er haldið fram af stjórnvöldum í Bretlandi að hann verði örugglega samþykktur í tæka tíð. Sömuleiðis er því haldið fram af hálfu franskra stjórnvalda. Samkvæmt samtali sem hæstv. forsrh. átti á leiðtogafundi Evrópuráðsins í Vín við spænska forsætisráðherrann þá fullvissaði hann íslenska forsrh. um að það væri traustur meiri hluti fyrir samningnum í spænska þinginu og hann yrði staðfestur í tæka tíð.
    Af hálfu belgískra stjórnvalda hefur verið sagt að ekki þurfi að hafa áhyggur af staðfestingu að því er varðar Belgíu vegna þess að stjórnvöldum sé í lófa lagið að láta samninginn taka gildi vegna þeirra aðferða sem þeir viðhafa þar í landi.
    Um tvíhliða samninginn um skipti á gagnkvæmum veiðiheimildum við Evrópubandalagið er það að segja að hann frestast til sama tíma, þ.e. í fyrsta lagi um áramót sem hann tæki gildi.