Heilsukort

12. fundur
Miðvikudaginn 13. október 1993, kl. 13:42:41 (238)

[13:42]
     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil beina spurningu minni til hæstv. heilbr.- og trmrh. Í síðdegisþætti Rásar 2 19. sept. sl. var ráðherrann á tali við fréttamanninn Sigurð G. Tómasson og til umræðu voru ýmis verk sem heilbrrh. ætlar að beita sér fyrir, þar á m.a. heilsukort. Vil ég hér vitna orðrétt í svar hæstv. ráðherra við þeirri spurningu þegar hann segir:
    ,,Ég ætla akkúrat að skýra það núna hvað þetta þýðir. Það gerist þannig að sá maður sem ekki hefur borgað kortið, sá maður verður að borga kostnaðinn við innlögnina á sjúkrahúsið eða lækniskostnaðinn. Síðan þarf hann að fara í sjúkrasamlagið, gera upp kortið sitt og fá mismuninn endurgreiddan.``
    Þetta þýðir það með öðrum orðum að menn þurfa ekki að greiða þetta heilsukort fyrr en eftir á þegar á það hefur reynt, hvort viðkomandi þarf á heilbrigðisþjónustu að halda. Nú spyr ég hæstv. ráðherra: Er þetta einhver misskilningur? Hefur ráðherrann misskilið málið frá upphafi? Er þetta einhver vitleysa, sem hæstv. ráðherra sagði í þessum þætti vegna þess að í gærkvöldi við lok 1. umr. um fjárlagafrv. kom það skýrt fram hjá hæstv. fjmrh. að auðvitað gæti framkvæmdin ekki verið með þessum hætti ætti hún að skila þeim tekjum sem ráð er fyrir gert. Ég er hérna með útskrift af þeirri ræðu hæstv. fjmrh. en

það er ekki rétt að vitna í það nú þar sem hún er óyfirlesin af hans hálfu. En þetta kom mjög skýrt fram hjá ráðherra, framkvæmdin gæti ekki verið með þessum hætti. Hann sagði hins vegar: Það á eftir að ákveða þetta í ríkisstjórninni og það mun koma síðan í ljós hver framkvæmdin verður. En auðvitað til þess að eyða allri réttaróvissu þannig að ekki myndist hér einhvers konar kalkúnaástand, þá er mjög mikilvægt að ráðherra skýri það fyrir þjóðinni hvað það er sem menn eiga við með þessum hlutum.