Heilsukort

12. fundur
Miðvikudaginn 13. október 1993, kl. 13:47:10 (240)

[13:47]
     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Það er auðséð á þessu svari að framkvæmdin hefur breyst í meðförum ráðherrans frá því að þetta viðtal var tekið. Ef ég man rétt, þá kom það fram í viðtali annaðhvort við Dagblaðið, það er rétt að fletta því upp þegar fram líða stundir, eða Tímann, að auðvitað yrði þetta ekki innheimt eftir hefðbundnum innheimtuleiðum. Hæstv. ráðherra hefur látið slíkt fara frá sér þannig að nú á að gera það sem sagt að innheimta þetta eins og hverja aðra skattaskuld þannig að þarna er náttúrlega um skatt að ræða og ekkert annað.
    Hins vegar er það náttúrlega mjög einkennilegt ef svo vill til að maður hefur greitt sitt kort og er sjúkratryggður, lendir hér í slysi og er fluttur með sjúkrabíl inn á sjúkrahús, þarf þar á þjónustu að halda, en af því að hann var ekki með kortið á sér þegar hann lenti í slysinu, þá skal hann takk greiða reikninginn, fer ekki út af sjúkrahúsinu fyrr en hann er búinn að greiða reikninginn. Hann getur farið með reikninginn í sjúkrasamlagið og framvísað kortinu þar. En það kemur fram í þessu viðtali við hæstv. ráðherra á Rás 2 að menn geti farið með kortið eftir á og greitt það í sjúkrasamlaginu og fengið mismuninn greiddan þannig að þetta er framkvæmdin með allt öðrum hætti, hæstv. ráðherra, í dag heldur en hún var 19. sept. sl.