Leyfi setts framkvæmdastjóra ríkissjónvarpsins

12. fundur
Miðvikudaginn 13. október 1993, kl. 13:52:56 (246)


[13:52]
     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Menntmrh. hefur eitthvað misskilið orð mín vegna þess að ég sagði ekki að Hrafn Gunnlaugsson væri farinn í tveggja mánaða leyfi heldur væri á leið í tveggja mánaða leyfi, hefði fengið slíkt leyfi eða sé á leið í slíkt leyfi.
    Menntmrh. segist ekki hafa á takteinum dæmi um slíkar leyfisveitinar. Hins vegar er það alþekkt að menn fái tímabundin leyfi frá störfum sem þeir gegni í þjónustu ríkisins. Mig langar bara í þessu sambandi að vitna í álitsgerð Ríkisendurskoðun um þetta mál, um samskipti Hrafns Gunnlaugssonar og Ríkisútvarpsins, þar sem segir m.a. að á árinu 1987 hafi hann verið í launalausu leyfi samtals 6 mánuði. Þann 1. febr. 1989 fékk hann launalaust leyfi til fjögurra ára. Auk þessara leyfa hefur hann fengið stutt launalaus leyfi. Þá segir: ,,Það er ekki hafið yfir gagnrýni að yfirstjórn sjónvarpsins skuli á liðnum árum hafa veitt starfsmönnum sínum, einkum í stjórnunarstöðum, launalaus leyfi í svo ríkum mæli sem verið hefur.``
    Hefði nú ekki verið ástæða til að fara eftir þessum ábendingum Ríkisendurskoðunar? ( Umhvrh.: Eða bara lengja leyfið?)