Eftirlaun hæstaréttardómara

12. fundur
Miðvikudaginn 13. október 1993, kl. 14:03:01 (254)

[14:03]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Frú forseti. Ég ætla að halda áfram á sömu braut og síðasti fyrirspyrjandi, en undanfarnar vikur hafa launamál og sérréttindi ákveðinna hópa opinberra starfsmanna og æðstu embættismanna ríkisstofnana vakið mikið umtal og hneykslun í samfélaginu.
    Eins og við vitum verða slík upphlaup alltaf öðru hvoru en kerfið bara mallar áfram og ekkert breytist. Að vísu hefur hæstv. viðskrh. lýst því yfir að hann ætli að kanna ástandið í bankakerfinu og ekki veitir af en það þarf að gera meira. Það þarf að endurskoða fríðindakerfi ríkisins í heild og því er mín spurning til forsrh. sem yfirmanns og verkstjórnanda í ríkisstjórninni: Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera til að afnema þau óþolandi forréttindi sem eru við lýði hjá hinu opinbera? Er ríkisstjórnin tilbúin til þess að breyta 61. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem m.a. er kveðið á um eftirlaun hæstaréttardómara? Ég held að ég geti fullyrt að það mun ekki standa á okkur stjórnarandstæðingum að breyta þessu ákvæði stjórnarskrárinnar þannig að það megi nú boða til kosninga sem allra fyrst, en hvað ætlar ríkisstjórnin að gera?