Eftirlaun hæstaréttardómara

12. fundur
Miðvikudaginn 13. október 1993, kl. 14:06:32 (256)


[14:06]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Frú forseti. Það er að sjálfsögðu rétt sem fram kom í máli hæstv. forsrh. að hér eru ekki ný tíðindi á ferð eins og ég reyndi að koma að hér áðan í spurningu minni, heldur kemur þetta upp aftur og aftur og spurningin er sú, hvers vegna er ekki tekið á þessu? Auðvitað þarf að kanna þessa mál og kalla fram upplýsingar um ástandið í hinum ýmsu ríkisstofnunum, en það þarf að taka á þessu. Það þarf að afnema þessi forréttindi og því var mín spurning: Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera? Og það er auðvitað rétt sem fram kom hjá forsrh. varðandi 61. gr. stjórnarskrárinnar að þar er verið að verja dómendur en það kom líka fram í máli hæstv. fjmrh. þegar þessi mál voru til umræðu hér á þinginu í síðustu viku að þessi grein væri túlkuð fullfrjálslega og hún er notuð til þess m.a. að tryggja hæstaréttardómendum að þeir haldi óbreyttum launum. Og nú eru þau mál reyndar að fara fyrir dómstóla. En mergurinn málsins er sá að þessi fríðindi og forréttindi, sem verða æ meira óþolandi eftir því sem ástandið versnar í þjóðfélaginu, verður að afnema.