Efnahagsaðgerðir vegna kjarasamninga

12. fundur
Miðvikudaginn 13. október 1993, kl. 15:21:21 (263)


[15:21]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er lengi hægt að flýja á vit fortíðarinnar þegar menn lenda í vandræðum. Auðvitað áttu fyrirtæki í erfiðleikum á Akureyri í tíð fyrri ríkisstjórnar og þeirrar sem sat þar áður og þar áður og þar áður. Við getum farið út í þá umræðu alla saman hér en þurfum nú meira en tvær mínútur til. Mér fannst hv. þm. vera fullfljótur að draga í land. Hann gekkst að vísu við því að hann hefði eitthvað verið að malda í móinn norður á Akureyri í sumar en þá var langt til Reykjavíkur og hinn þungi hrammur forsrh. hvergi nærri. En nú kemur hér prúður maður í ræðustólinn og segir að ríkisstjórnin hafi sýnt mikinn skilning á þessu og þetta sé allt heldur að vænkast á Akureyri. --- Og nefndi svo Slippstöðina. Og þá vil ég náttúrlega spyrja hv. þm.: Er það ekki þrátt fyrir allt svo að sú hlutafjáraukning sem hv. þm. var að tala um er frá fyrra ári? Núna berst þetta fyrirtæki fyrir lífi sínu í greiðslustöðvun og ríkið hefur hafnað frekari þátttöku í endurfjármögnun þess nema því sé kannski enn ósvarað hvort ríkið tekur að sínu leyti þátt í nauðasamningum varðandi niðurfellingu skulda. Ég veit ekki betur, eftir samtöl við forráðamenn skipasmíðastöðvarinnar frá því fyrir nokkrum dögum síðan, en að málið standi þannig að ríkið hafi hafnað frekari þátttöku sem einn af stærstu eignaraðilum í fyrirtækinu. Ef annað er uppi á teningunum og hv. þm., eða hæstv. forsrh. sem enn er fjarstaddur, getur komið og glatt okkur með þeim fréttum, þá stendur ekki á mér

að fagna því, það er alveg á hreinu.
    Varðandi svo aftur ástandið á Akureyri þá er það auðvitað þannig að þar hefur keyrt um þverbak nú á síðustu missirum, það held ég að við þekkjum báðir, ég og hv. þm. Það er vissulega af ýmsum orsökum og hlutir eins og fall Sovétríkjanna og því um líkt verður ekki skrifað á reikning ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar enda er þar nóg fyrir, allar veðheimildir búnar þar. En samt er það þannig að undan því verður ekki vikist að atvinnuástandið er þarna verst á öllu landinu. Og auðvitað ætti ekki síður þar, ef menn væru sjálfum sér samkvæmir, að vera í gangi átak af því tagi sem ákveðið var að ráðast í á Suðurnesjum í ljósi erfiðs atvinnuástands þar og allt gott er um að segja þó það hafi síðan að vísu farið svo að atvinnuástandið sé blessunarlega skárra þar um þessar mundir heldur en það er því miður á Eyjafjarðarsvæðinu.