Efnahagsaðgerðir vegna kjarasamninga

12. fundur
Miðvikudaginn 13. október 1993, kl. 15:52:09 (268)


[15:52]
     Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar) :
    Frú forseti. Ég dreg ekki í efa vald ríkisstjórnarinnar til þess að setja bráðabirgðalög. Það er kveðið á um það í 28. gr. stjórnarskrárinnar og í sjálfu sér hefur ekki orðið breyting á því valdi. En það sem hefur breyst er starfsemi þingsins og það að menn skilgreini starfsemi Alþingis þannig að hún vari allt árið sem m.a. gerir það að verkum að það er hægt að kalla nefndir saman hvenær sem er yfir sumartímann. Við erum hérna kannski í ,,prinsippumræðu`` um þetta mál, hversu langt á að ganga í að beita þessum rétti og er ekki nauðsynlegt að breyta út af þeirri venju sem hefur verið í gildi. Ég tek undir það, ég held að þessi ríkisstjórn hafi alls ekki gengið langt í þeim efnum miðað við ýmsar aðrar ríkisstjórnir. Þetta er einfaldlega venja sem hér hefur skapast og hefur tíðkast vegna þess að þingið var ekki starfandi en nú er hægt að kalla þingið saman? Ég skora á hæstv. forsrh. að næst þegar ríkisstjórnin telur brýna nauðsyn bera til að kalla þingið saman að láta á það reyna hvernig það gengur. Þetta er neyðarréttur ríkisvaldsins og það

á ekki að nota hann í nánast hvaða tilviki sem er þegar hægt er að fara aðrar leiðir. Það er einfaldlega lýðræðislegra og þingræðislegra að kalla þingið saman og ræða málin þar.