Efnahagsaðgerðir vegna kjarasamninga

12. fundur
Miðvikudaginn 13. október 1993, kl. 15:53:50 (269)


[15:53]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég hygg að niðurstaðan hafi verið sú við endurskoðunina sem ég gat um, einmitt að viðhalda valdi braðabirgðalöggjafans en jafnframt að stuðla að því að úr notkun þess valds dragi og það hefur gengið eftir. Valdið er fyrir hendi en notkunin hefur minnkað þannig að það má segja að hugarfarsbreytingin hefur gengið í þá áttina. Ég er ekki endilega að segja að sú breyting að ekki þarf að byrja fundi á því að kjósa nýjar nefndir sem mun tefja störf kannski um hálfan dag eða einn dag, skipti sköpum í þessum efnum. Ég hygg nú hins vegar að sú breyting að bráðabirgðalög séu rædd fljótlega sé góð breyting og holl breyting þannig að bráðabirgðalöggjafinn þurfi að standa sem fyrst reikningsskil sinna gerða gagnvart þinginu. Ég hygg að það sé góð breyting og ég get tekið undir með hv. þm. að auðvitað á að láta á það reyna ef aðstæður skapast hvort þingið geti ekki einmitt tekið á málum þó að á sumri sé þegar aðstæður séu slíkar.