Efnahagsaðgerðir vegna kjarasamninga

13. fundur
Fimmtudaginn 14. október 1993, kl. 11:39:03 (273)

[11:39]
     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Hér hafa menn verið að ræða um fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar sem tengjast gerð kjarasamninga frá því í sumar. Ég ætla ekki að fara yfir þau mál í heildina heldur vildi ég ræða um örfá atriði sem tengjast þessari yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og trúverðugleika þeirrar yfirlýsingar og kannski bera það pínulítið saman við yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar eða a.m.k. þá sem gerð var á síðasta hausti og var hér til umræðu þá.
    Í upphafi máls míns langar mig að lesa upp til upprifjunar hvað stendur í 1. mgr. þessarar yfirlýsingar, með leyfi forseta:
    ,,Ríkisstjórnin telur mikilvægt að eyða óvissu í kjaramálum, tryggja frið á vinnumarkaði og treysta þannig stöðugleika í efnahagsmálum með víðtækri samstöðu um kjarasamninga til loka næsta árs. Á þessum forsendum er ríkisstjórnin reiðubúin að ganga eins langt og nokkur kostur er í ljósi erfiðrar stöðu í ríkisbúskapnum í þá átt að greiða fyrir gerð kjarasamninga til lengri tíma.``
    Ég tel að þessi ríkisstjórn hafi fram að þessu staðið sig ákaflega illa í þeim markmiðum sem þarna eru sett fram. Mig langar til að benda mönnum á yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá því í fyrrahaust og hvernig staðið hefur verið að efndum á þeirri yfirlýsingu að einu leyti. Í þeim ráðstöfunum sem voru gerðar þá var það eitt af aðalatriðunum að fella niður aðstöðugjaldið og mig langar, með leyfi forseta, að lesa upp það sem stóð í greinargerð með yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í því sambandi til að rifja upp fyrir mönnum hvernig þau mál voru sett fram. Þar segir:
    ,,Þetta fyrirkomulag gildir til bráðabirgða á árinu 1993. Næsta ár verður notað til að endurskoða tekjustofna sveitarfélaga í því skyni að finna sveitarfélögunum varanlegar tekjur í stað aðstöðugjaldsins. Þessi endurskoðun verður gerð sameiginlega af fulltrúum ríkisstjórnarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga og er stefnt að því að nýtt tekjuöflunarkerfi sveitarfélaganna verði tekið upp í ársbyrjun 1994.``
    Þarna er að vísu ekki getið um að launamenn eigi að koma að þessari tillögugerð en þetta var nú mál sem sneri kannski mest að launamönnum. Ég verð að segja það alveg eins og er að ég held að það hafi aldrei verið gerð eins stórkostleg breyting í skattalögum og þessi án þess að um það færi fram víðtæk umræða í þjóðfélaginu þar sem menn stæðu frammi fyrir því hvað ætti þá að koma í staðinn. En þetta var sem sagt bráðabirgðaráðstöfun og í dag sjá menn hvaða tillögur ríkisstjórnin kemur með um það hvernig eigi að deila þessum byrðum niður. Þetta eru nefnilega engir smáaurar. Á þessu ári voru þetta um 4 milljarðar kr. og núna sjáum við það að ríkisstjórnin leggur til að þessu verði að langstærstu leyti breytt í útsvar og það er á fjórða milljarð króna. Það er sem sagt verið að tala um tæplega 50 þús. kr. á hverja fjögurra manna fjölskyldu í landinu og það breytist sem sagt í útsvar um næstkomandi áramót. Til viðbótar er síðan verið að leggja á nýtt gjald til Atvinnuleysistryggingasjóðs sem mun að öllum líkindum kosta launþega eitthvað á annan milljarð kr. Þannig að álögurnar frá því í fyrrahaust, sem voru til bráðabirgða upp á 4 milljarða vegna niðurfellingar aðstöðugjaldsins, halda áfram af nákvæmlega sama þunga á næsta ári. 4 milljarðar eru settir á almennt launafólk í landinu í staðinn fyrir atvinnureksturinn. Það er að mínu viti algjörlega gegn þeim yfirlýsingum sem menn voru með. Því var lýst yfir skýrt og greinilega að það ætti að leita nýrra leiða til tekjujöflunar fyrir sveitarfélögin og að þetta væri bráðabirgðaráðstöfun. Fólkið í landinu væri að leggja þetta á sig til endurreisnar atvinnulífinu en þetta væri bráðabirgðaráðstöfun. Þannig skildu launþegar þetta, það er ég ekki í vafa um.
    Mig langar líka til að benda á annað og það kemur fram í fjárlagafrv. Ég vil, með leyfi forseta, vitna í fjárlagafrv. á bls. 271. Þar segir:
    ,,Þyngst vega fyrirhugaðar breytingar á tekjustofnum sveitarfélaga á móti niðurfellingu aðstöðugjalds. Á þessu ári var tekjutapi sveitarfélaga alfarið mætt með hækkun á tekjuskatti einstaklinga. Í forsendum frumvarpsins er hins vegar gert ráð fyrir að fjármögnunin verði tvíþætt í samræmi við tillögur nefndar sem hefur fjallað um þetta mál. Annars vegar er gert ráð fyrir að útsvar sveitarfélaga hækki um 1 1 / 2 % að meðaltali á næsta ári en tekjuskattur ríkisins lækki um sama hlutfall. Hins vegar er skattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði felldur niður, sem lækkar tekjur ríkissjóðs, en á móti er svigrúm sveitarfélaga til frekari tekjuöflunar af fasteignasköttum aukið.``
    Hvers vegna er verið að blanda þessum hlutum saman? Hvað eru menn eiginlega að fara? Var niðurfellingin á sérstökum skatti á verslunar- og skrifstofuhúsnæði eitthvað tengd þessu máli? Nákvæmlega ekki neitt. Það skyldi nú ekki vera að þetta væri komið þarna inn í þeim tilgangi að Reykjavíkurborg gæti frekar notfært sér hækkanir á skrifstofu- og verslunarhúsnæði og atvinnuhúsnæði til þess að hala upp í tapið sem verður vegna þess að það er búið að taka af henni aðstöðugjaldið og hún tapar mest allra sveitarfélaga á þeirri niðurfellingu? Það er a.m.k. í mínum huga engin sérstök skýring á því að tengja saman niðurfellingu á sérstökum skatti á verslunar- og skrifstofuhúsnæði og þessum málum. Það er alveg sérmál og séráhugamál sjálfstæðismanna að fella þann skatt niður en það út af fyrir sig tengist ekki hinu. Þetta er sú eina skýring sem ég get haft á þessu. Það er nefnilega stórkostleg breyting, sérstaklega fyrir Reykjavíkurborg, að aðstöðugjaldið er fellt niður. Og ef Reykjavíkurborg fær einungis tekjur á móti sem svarar til 1,5% í útsvari þá mun borgin verða fyrir miklu tekjutapi fram yfir önnur sveitarfélög. Mig langar til að spyrja hæstv. forsrh. hvernig hann getur tengt saman þessi tvö mál. Ég hef ekki áttað mig á því hvernig það á að gerast.
    Mig langar til að benda á örfá atriði í þessari yfirlýsingu. Í fyrsta lagi langar mig til að spyrja hæstv. forsrh. hvað hafi verið gert í þeim lið þar sem segir: ,,Jafnframt mun ríkisstjórnin beina því til ríkisstofnana að fresta tækjakaupum eftir því sem unnt er og auka í þess stað viðhald þar sem slíkt er aðkallandi.`` Var þessum tilmælum beint til allra ríkisstofnana og hvaða tæki höfðu menn í huga? Höfðu menn kannski í huga farartæki? Tæki á heilsugæslustöðvum? Tæki til að skúra stofnanirnar? Eða hvað var þetta? Voru þetta bílar? Eða hvers konar tæki áttu menn við? Komust þessi tilmæli ekki til skila til ríkisstofnananna? Hvað hafði þessi tilkynning í för með sér?
    Ég ætla að gera að umtalsefni einn lið sem er merktur með bókstafnum c. Þar stendur: ,,Íslensk fyrirtæki þurfa í auknum mæli að styrkja stöðu sína á alþjóðavettvangi með því að fjárfesta í atvinnulífi annarra þjóða. Greitt verði fyrir fjárfestingu íslenskra fyrirtækja í erlendum sjávarútvegi.`` Mig langar líka að spyrja hvað hafi verið gert í þessu. Ég er ekki að spyrja vegna þess að ég hafi svo óskaplegan áhuga

á því að það verði gert mikið í þessu. Ég tel ekki að við Íslendingar höfum efni á því að flytja mikið fjármagn úr landi um þessar mundir og tel að það sé út af fyrir sig ekkert sérstakt kappsmál yfirvalda nú um stundir að moka peningum út úr landinu sem þarf nú á öllu öðru að halda öðru en því að missa héðan fjármagn. En þess vegna langar mig til að vita hvað hafi verið gert í þessu og með hvaða hætti menn standa að því að auka fjárfestingu íslenskra fyrirtækja á erlendum vettvangi.
    Síðan langar mig að gera að umtalsefni lækkun virðisaukaskattsins á matvælum, sem lofað er í þessu plaggi og þá yfirlýsingu sem hér kom fram frá hæstv. fjmrh. um það --- og mér skilst að hæstv. forsrh. hafi líka látið einhver orð falla í þá áttina --- að þetta loforð um að fella niður virðisaukaskattinn mundi ekki standa ef kjarasamningum yrði sagt upp. Ég tel að það sé óskaplega mikil ósvífni fólgin í svona yfirlýsingu. Verkalýðsfélögin hafa staðið að öllu leyti við sína hlið á kjarasamningunum frá því í vor. Ríkisstjórnin er búin að lýsa því yfir að hún ætli ekki að standa að öllu leyti við sína hlið þessa samkomulags. Meðal annars hefur hún sagt að skattur á fjármagnstekjur verði ekki settur á 1. janúar eins og stendur í þessari yfirlýsingu, en þegar verkalýðsfélögin velta því fyrir sér hvort eigi að framlengja þennan samning þá hljóta þau að skoða dæmið að öllu leyti og ég tel það mjög alvarlegt mál ef ríkisstjórnin ætlar að svíkja þetta loforð sitt um lækkun. Þetta loforð snýr ekki að verkalýðsfélögunum einum. Það snýr að fólkinu í landinu og fólkið í landinu á auðvitað kröfu á því að ríkisstjórnin hagi sér þannig að það sé hægt að sýna henni lágmarkstiltrú. Hún hefur að mínu viti ekki gert það undanfarið, kannski ekki allan þann tíma sem hún hefur setið, en sérstaklega finnst mér að það hafi orðið trúnaðarbrestur í sambandi við það mál sem ég var að lýsa hérna áðan hvernig byrðunum af atvinnulífinu var velt yfir á almennt launafólk án þess að það færi fram um það eðlileg umræða. 4 milljarðar króna hafa verið færðir þannig á milli og núna koma menn með nýja tillögu um það í haust hvernig eigi að koma þessum álögum fyrir og þá er þeim komið nákvæmlega öllum fyrir á launafólkið áfram þó að það væru skýlausar yfirlýsingar í fyrra um að það ætti að finna nýja tekjustofna og fólkið í landinu skildi það þannig að það væru ekki sömu tekjustofnar og í fyrra, þ.e. þá er þetta tekið með tekjuskatti, 4 milljarðar kr. Nú á að taka það með útsvari og nýjum launaskatti og ég held að það væri nú affarasælla fyrir þessa ríkisstjórn að hún reyndi a.m.k. að koma til móts við fólk eftir þessar aðfarir og fara a.m.k. ekki að lýsa því yfir að það eigi að taka til baka það sem samið var um við verkalýðsfélögin í vor vegna þess að verkalýðsfélögin munu kannski segja upp þessum samningum vegna þess að ekki hafi verið staðið við þá að öðru leyti.
    Til viðbótar þessu er á sama tíma og þessir 4 milljarðar kr. eru færðir frá atvinnulífinu yfir á almennt launafólk verið að lækka tekjuskatt fyrirtækja og þá erum við ekkert að tala um aumingjana í þessu þjóðfélagi. Þá erum við að tala um þá sem græða peninga á sínum rekstri. Höfum við efni á því á sama tíma og þjóðin á í vandræðum að vera að lækka tekjuskatt á þeim sem hafa afgang, þeim sem geta raunverulega lagt peninga til samfélagsins, taka þá út úr og lækka á þeim sérstaklega álögurnar? Er það rétti tíminn? Ég held ekki. Ég tel að það eigi að taka þetta til baka. Það eru hlutir eins og þessir sem ættu að bíða þess tíma þegar betur árar en ekki nú.
    Það má kannski minna á að það varð mikil samstaða um það í umræðum á Alþingi að það ætti að taka aðstöðugjaldið af, það ætti að finna leiðir til þess að koma því öðruvísi fyrir. En það hefur misheppnast með þvílíkum endemum að koma þessu í framkvæmd að það hefur fátt held ég farið verr úr höndum þessarar ríkisstjórnar og er þá langt til jafnað. Það er t.d. einn hluti þessa máls að á sama tíma og menn ákváðu að fella niður aðstöðugjaldið ákvað ríkisstjórnin að fella gengi íslensku krónunnar þannig að það hefur ekki nokkur lifandi maður möguleika á því að átta sig á því t.d. hvort aðstöðugjaldið hefur orðið til lækkunar á vöruverði. Það er útilokað að svo sé. Aðstöðugjaldið hefði auðvitað þurft að leggja af í þeim aðstæðum að fólk gæti fylgst með og séð hvernig það skilaði sér í lækkuðu vöruverði. Ég hef ekki trú á því að menn finni það út eftir að verðbólgan er búin að rúlla áfram, eftir að ríkisstjórnin er búin að fella gengið tvisvar á því tímabili sem þessi aðgerð hefur staðið yfir, að fella niður aðstöðugjaldið.
    Ég vil að lokum nefna hér eitt mál sem ég tel ástæðu til að minna á. Það var í þessari yfirlýsingu sagt í lið nr. 8 að til að draga úr áhrifum þorskaflaskerðingarinnar á þessu ári yrði aflaheimildum Hagræðingarsjóðs úthlutað án endurgjalds og þannig komið til móts við þá sem urðu fyrir mestri skerðingu við síðustu úthlutun. Þarna hengslaðist hæstv. ríkisstjórn til þess að lokum að taka á máli eftir að hafa legið á því að allan þingtímann í fyrra, eftir að hafa neitað að afgreiða frumvörp sem lágu hér fyrir og eftir að þinginu var slitið mjög snögglega án þess að það væri hægt að fá mál eins og þessi afgreidd. Fáeinum dögum síðar afgreiðir ríkisstjórnin málin með nákvæmlega sama hætti eins og lagt hafði verið til, með bráðabirgðalögum. Ég tel að þetta sé ólíðandi og það sé hæstv. ríkisstjórn til skammar að standa svona að málum að neita að láta Alþingi afgreiða mál en koma síðan með málið og fá það afgreitt með bráðabirgðalögum stuttu seinna.
    Þar fyrir utan vil ég láta það koma fram enn einu sinni að það er mín skoðun að þarna hafi verið staðið öfugt að þessum hlutum. Það var hægt að úthluta veiðiheimildum ef menn hefðu haft vilja til þess þannig að það hefði orðið miklu jafnara, það hefði komið miklu jafnara niður heldur en gert var. Þetta varð til þess að þessi úthlutun sem loksins þó kom var það seint á ferðinni að margir af þeim útgerðarmönnum sem fengu úthlutað aflaheimildum gátu ekki notfært sér þær. Þær féllu hreinlega niður. Menn höfðu ekki tíma til þess að veiða ýsuna og menn höfðu ekki möguleika á að færa þetta á milli ára og því síður að einhver gæti keypt þessar aflaheimildir. Ég veit um nokkur dæmi þess að t.d. aflaheimildir í ýsu, sem var úthlutað, féllu niður dauðar vegna þess að það var enginn möguleiki til að veiða þann fisk. Og auk þess var verið að úthluta aflaheimildum til smábáta í tegundum sem þeir höfðu enga möguleika til að veiða og aðrir útgerðaraðilar gátu þá ýmist fengið þessar aflaheimildir fyrir lítið eða ekki neitt eða þær féllu niður dauðar þannig að það má segja að þarna hafi nú enn einu málinu verið klúðrað af hæstv. ríkisstjórn.
    Ég ætla, virðulegur forseti, ekki að ræða þetta mál meira. Mér finnst að það sé ekki mikill tilgangur í því að öðru leyti heldur en því að mig langaði til þess að vekja fyrst og fremst athygli á því hvernig þessi ríkisstjórn er smám saman að koma fólkinu í landinu í skilning um það að hún virðir ekki þær leikreglur sem eðlilegar eru í samskiptum við almenning í landinu. Ég hef verið að nefna hér dæmi um það hvernig málflutningur í kringum það að færa skattana til eins og gert var með aðstöðugjaldinu hefur allt í einu snúist við og það raunverulega svikið sem fólki var gefið í skyn. Það er því miður þannig með hið opinbera, þessa ríkisstjórn og jafnvel ýmsar stjórnarstofnanir í landinu, að þær virða ekki almennar leikreglur í þessu þjóðfélagi. Hæstv. heilbrrh. hefur t.d. komið með tillögu sem ég tel að virði alls ekki almennar leikreglur. Hann kemur með tillögu um það að leggja nýjan skatt á þegnana í þjóðfélaginu. Hann lýsir því þannig fyrir þegnunum að þeir séu nú búnir að borga til samfélagsins 50--60 milljarða á ári í sínum sköttum og eigi þannig rétt á þjónustu í heilbrigðiskerfinu en leggur síðan til að það verði komið á nýjum skatti upp á einhverjar 400 millj. eða svo og ef menn borgi hann ekki þá missi menn allan bónusinn sem þeir hafi unnið sér inn með því að borga skattana sína í stóra pottinn. Er þetta verjandi?
    Það er annað, sem ég vil nefna í þessu sambandi. Hæstv. heilbrrh. lýsti því hér fyrir stuttu síðan með hvaða hætti ætti að snúa sér að almenningi í landinu til þess að bjóða þessa þjónustu ríkisins, þ.e. þessa tryggingu, þessi heilsukort og hann sagði: Við ætlum að senda fólki þessi kort bara heim. Ef menn endursenda þau ekki, þá eru þeir komnir í viðskipti, þá eru þeir orðnir viðskiptavinir ríkisins. Og ég spyr: Geta aðrir aðilar í þjóðfélaginu farið svona að? Geta tryggingafélög eða einhverjir aðrir sent mönnum samninga heim og haft neðst á blaðinu: Ef þið verðið ekki búnir að endursenda okkur þetta eftir hálfan mánuð, þá eruð þið orðnir viðskiptavinir. Þá förum við í það að rukka ykkur um þetta og það verða settir á ykkur dráttarvextir og þetta verður innheimt eins og aðrar venjulegar skuldir ef þið hafið ekki endursent þetta innan viss tíma. Ég segi alveg eins og er að mér finnst ekki koma til mála að ríkið hagi sér með þessum hætti. Ríkið á vitaskuld að stunda það að vera til fyrirmyndar í viðskiptum við þengana. Og ætli ríkið að bjóða upp á eitthvað sem það kallar þjónustu þá á ríkið auðvitað ekki að gera það með einhverjum allt öðrum hætti en talið er eðlilegt í þjóðfélaginu. Ég vildi láta þetta koma fram sem mína skoðun og ég skora á hæstv. forsrh. að endurskoða málið að þessu leyti til, ég trúi því nú ekki, ef menn fara að hugsa þetta vandlega, að þeir vilji bjóða þegnum þjóðfélagsins upp á þessa vinnuaðferð. Það er ekki verið að bjóða fólki neitt val. Það er verið að stilla fólki upp að vegg. Annaðhvort borgar þú tvöþúsundkallinn þinn eða þú ert búinn að kasta frá þér því sem þú hefur verið að taka þátt í að skapa hérna í þjóðfélaginu. Og að senda mönnum heim einhvers konar þjónustusamning og segja: Ef þið skilið ekki þessu til baka innan viss tíma þá eruð þið viðskiptavinir, það gengur ekki heldur. Það mundi aldrei ganga í almennum viðskiptum og ríkið á ekki að haga sér öðruvísi heldur en aðrir aðilar í þjóðfélaginu þegar það býður fram sína þjónustu.