Efnahagsaðgerðir vegna kjarasamninga

13. fundur
Fimmtudaginn 14. október 1993, kl. 12:22:56 (286)


[12:22]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Það er ekkert óeðlilegt þó það sé sæmileg sátt um þetta frv. út af fyrir sig og með sama hætti er heldur ekkert óeðlilegt þó um frv. sé sæmileg sátt að efni til að þá fari fram umræður eins og hér hafa farið fram um ýmsa þætti efnahagsmálanna sem þessa atburði snerta, kjarasamningana og síðan frv. eða bráðabirgðalögin. Það má þó kannski segja að þar sem sæmileg sátt er um efnisatriði frv. að því er best verður séð þá ætti að vera minna ádeiluefni að lögin hafi verið sett með bráðabirgðalögum því oft er það nú svo að menn halda því fram að ríkisvaldið á hverjum tíma sé að forðast málefnalegar umræður eða atgang gagnvart stjórnarandstöðu með því að setja bráðabirgðalög. Þannig að að þessu leyti til ætti þetta nú að vera jákvæðara. Hv. 7. þm. Reykn. skýrði mér frá því að hann þyrfti að fara á bankaráðsfund þannig að ég mun fjalla . . .  (Gripið fram í.) Það er nú komið yfir í bankastjórnina hygg ég þannig að það er ekki bankaráðsmannanna lengur. Ég mun fjalla heldur minna um það sem hann sagði af því tilefni. Hins vegar hefur margt af því sem kom fram hjá hv. þm. komið fram hjá öðrum þingmönnum jafnframt. Aðeins vil ég þó nefna þar sem hann sagði í upphafi að það væri ljóst að þessir samningar, sem voru tilefni laganna, hefðu verið atvinnulífinu hliðhollir eins og hann orðaði það. Ég hygg að það sé alveg hárrétt hjá honum og skýringin var reyndar sú að meginmarkmið samninganna var ekki eins og þegar vel árar kauphækkanir heldur til að reyna að tryggja stöðu atvinnunnar sem menn höfðu miklar áhyggjur af. Og samningarnir gengu út á það að skaða ekki stöðu atvinnulífsins, þ.e. ekki að gera kröfur um launahækkanir sem ekki var grundvöllur fyrir annars vegar og hins vegar að knýja á um að ríkisvaldið kæmi til móts við atvinnulífið eins og gert var og til móts við samtök launamanna eins og gert var. Þannig að það var hárrétt sem hv. þm. sagði í upphafi að þessi samningsgerð var atvinnulífinu hliðholl.
    Hv. þm. sagði að sá bjartsýnistónn sem ég hefði haft í stefnuræðunni á sínum tíma ætti sér ekki stoð í þeirri þjóðhagsáætlun sem af hálfu míns embættis var lögð fram hér 4. okt. En ég tel nú að það megi segja að einmitt í upphafi og inngangi og yfirliti þeirrar áætlunar þá komi mjög svipuð sjónarmið fram. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Verðbólga hér á landi er nú svipuð og annars staðar í Evrópu og horfur eru á að hún verði minni á næsta ári. Gert er ráð fyrir að almennt verðlag á Íslandi hækki um 4% á milli áranna 1992 og 1993 borið saman við spá OECD um 4,1% hækkun verðlags í Evrópu. Á næsta ári er spáð um 3% verðbólgu hér á landi en 3,9% í Evrópu. Viðskiptahallinn stefnir í 5,5 milljarða kr. á þessu ári sem svarar til 1,4% af landsframleiðslu og hefur hann ekki verið minni um árabil. Til samanburðar var hallinn 12 milljarðar kr. í fyrra og 18 milljarðar í hittiðfyrra. Þessi halli felur í sér að skuldasöfnun Íslendinga erlendis hefur verið stöðvuð og reyndar lækka erlendar skuldir þjóðarbúsins lítillega að raungildi á milli áranna 1992 og 1993. Reiknað er með að viðskiptahallinn verði svipaður á árinu 1993 og á þessu ári eða um 5,5 milljarðar kr.
    Þessi árangur hefur náðst þótt erfið ytri skilyrði hafi leitt til samdráttar og stöðnunar í þjóðarbúskapnum um nokkurra ára skeið. Gagnstætt því sem venja hefur verið við slík skilyrði hefur bæði verðbólga og viðskiptahalli minnkað. Í því sambandi nægir að benda á reynsluna frá erfiðleikaárunum um miðjan áttunda áratuginn og á fyrri hluta þess níunda. Í báðum tilvikum fór hvort tveggja úr böndum, verðbólga og viðskiptahalli. Að baki hagstæðri þróun nú en áður við svipaðar aðstæður liggur aðhaldssöm hagstjórn og raunsætt mat aðila vinnumarkaðarins á efnahagslegum forsendum.``
    Af þessu er ljóst að sá grunntónn sem var í minni ræðu og þar sem sagði að ýmis tákn bentu til þess að bjartara gæti verið fram undan eiga forsendur í þessari þjóðhagsspá.
    Auðvitað er það svo að tákn eru eitt og svo aftur veruleikinn annar. Táknin eru bara vísbending og síðan þurfa menn að sjá hverju fram vindur. Tákn eru ekki staðreyndir og ég geri mér fulla grein fyrir því eins og við öll sem hér erum inni.
    Hv. 7. þm. Reykn. ræddi heilmikið um vexti eins og hv. þm. gerir reyndar oft. Hann hefur oft sagt að ríkisstjórnin hefði ekki átt að hækka vexti á spariskírteinum eins og hann hefur orðað það og að ríkisstjórnin eigi að halda slíkum vöxtum niðri. Mér þykir stundum hv. þm. tala um þessi mál með mikilli einföldun. Og raunar ekki gefa haldbæra skýringar á hugsun sinni. Hv. þm. veit það auðvitað að vaxtastigið á spariskírteinum er ekki ákveðið með þeirri tölu sem skráð er á skírteinin. Það er kaupverð skírteinanna sem ræður ferðinni. Og þannig er það nú að kaupverð þessara skírteina, markaðsverð þessara skírteina er lægra, vaxtakrafan er lægri nú en hún var þegar hv. þm. fór með stjórn efnahagsmála í landinu. Það skiptir máli en ekki hvaða tala er skrifuð eða skráð á ríkisskuldabréfin.
    Hitt er annað mál að skilyrðin sem þessar staðreyndir skapa hafa ekki skilað sér í vaxtakerfi bankanna með sama hætti. Það eru auðvitað margar skýringar á því sem hafa komið fram hér í umræðunum af hálfu hv. þm. Meðal annars þær skýringar að yfirfjárfesting á undanförnum áratugum og einkum síðustu árum, fjárfesting sem ekki skilaði arði því miður, hefur gert bönkunum það nauðsynlegt að hafa vaxtamun gríðarlega háan hér. Þessi vaxtamunur er fyrirtækjum sem nú eru að stofna til skuldbindinga afskaplega erfiður. Það er okkur öllum líka ljóst að bankarnir verða að fá svigrúm til að greiða niður töpuð útlán. Það er enginn vegur til annars en að þeir hafi það svigrúm. Það gerir okkur erfiðara um vik að ná vöxtum bankakerfisins niður eins og nauðsynlegt væri við þrengingaraðstæður sem nú eru.
    Hv. 4. þm. Norðurl. e. og reyndar hv. 1. þm. Austurl. ræddu um málatilbúnaðinn af hálfu ríkisstjórnarinnar og þá einkum bráðabirgðalagasetninguna. Ég svaraði því reyndar aðeins í gær í andsvari við ræðu hv. 18. þm. Reykv. almennt um bráðabirgðalögin en þeir tóku sérstaklega til, þessir tveir hv. þm., það atriði sem snerti Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins og bentu á að til hefði verið fullmótað frv. sem hefði verið rætt í þinginu, ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn í þinginu hefði ekki viljað samþykkja það frv. eða aflað sér þeirra heimilda sem með því frv. fengjust en hefðu síðan í bráðabirgðalögum skömmu síðar, eftir að þingi lauk, sett sams konar frv. eða sams konar lög.
    Það má viðurkenna að þetta lítur ekki vel út en þetta er ekki heldur alveg allur sannleikurinn í málinu. Sannleikurinn í málinu er sá að það vissu menn að yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar, sem drógust á langinn eins og hv. 11. þm. Reykv. hefur iðulega minnst á, um með hvaða hætti ætti að bæta úr þorskskerðingunni hnigu í aðra átt en Hagræðingarsjóðsáttina. Á það var deilt í þinginu. Það var síðan sjónarmið ríkisstjórnarinnar að eftir að efnahagsaðgerðir höfðu verið gerðar og þar með talið breyting á gengi krónunnar á haustmánuðum 1992 þá höfðu forsendur breyst í þeim efnum. Það var því ekki pólitískur vilji á lokavikum þingsins til að afgreiða frv. um Hagræðingarsjóð. Þegar hins vegar var ljóst, að okkar mati að það atriði að setja lög um úthlutun aflaheimilda Hagræðingarsjóðs gæti haft grundvallarþýðingu á síðustu stundu við lausn kjarasamninganna þá var ákvarðað af þeirri pólitísku nauðsyn að setja um lög, þannig að forsendur á pólitísku mati höfðu breyst. Það var mat ríkisstjórnarinnar. Ég veit að um þetta geta menn deilt

en þetta er skýringin á þessu atriði sérstaklega.
    Hv. 4. þm. Norðurl. e. spurði reyndar um lagaóvissu um þennan sjóð núna og í tengslum við það að dregist hefur að frv. um þróunarsjóð sjávarútvegs kæmi fram á þinginu og yrði afgreitt. Ég hygg að það sé ekki út af fyrir sig veruleg lagaóvissa. Það hefur áður komið fyrir að dregist hefur ákvörðun réttra aðila um úthlutun úr þeim sjóði umfram það sem menn neyðast til að gera eins og gerðist varðandi Bíldudal þar sem eru tímasettir frestir varðandi forkaupsrétt. En það er óverulegur þáttur, hlutur af þessum heildarpakka sem þarna er á ferðinni.
    Hv. 4. þm. Norðurl. e. og reyndar fleiri þingmenn spurðu um það hvað væri farið að framkvæma af þeim rúmlega milljarðs kr. lista sem kynntur var. Ég hef ekki þær tölur handbærar hér, því miður, en geri ráð fyrir því að hv. þm. muni afla þeirra upplýsinga í nefndinni sem fær málið til meðferðar. Meginatriðið er þó það að allir þessir þættir verða framkvæmdir. Aðilum vinnumarkaðarins er ljóst að einhverjir þessir þættir kunna að dragast fram á næsta ár en þeir verða framkvæmdir og eru ekki hugsaðir sem frádráttur við það framkvæmdamagn sem á að koma á því ári. Í rauninni má segja að miðað við það að veitt var miklu meira á þessu ári en menn höfðu búist við og mismunurinn verður því enn þá meiri á næsta ári þá er kannski ekkert óheppilegt að allnokkur þungi þessara framkvæmda dragist yfir á næsta ár og ég hygg að það sé skilningur á því hjá aðilum vinnumarkaðarins sem fjölluðu um þetta mál.
    Hv. 18. þm. Reykv. spurði sérstaklega um ráðstöfun framlags til atvinnumála kvenna. Eins og fram kom þegar þessi sérstaki liður, um 60 millj. kr., var kynntur þá var talað um að ráðstafanir á þeim framlögum yrðu gerðar í samráði við samningsaðilana og það yrði starfshópur skipaður til þess að fjalla um þau atriði. Sá starfshópur hefur skilað tillögum til félmrh. en hópinn skipuðu Hulda Finnbogadóttir formaður, Ásdís Sigurjónsdóttir, fulltrúi fjmrn., Hansína Stefánsdóttir, fulltrúi Alþýðusambands Íslands, Þorkell Sigurjónsson, fulltrúi Vinnuveitendasambands Íslands, og Ingibjörg Broddadóttir, deildarsérfræðingur í félmrn., var starfsmaður starfshópsins. Það var samstaða í þessum starfshópi að gera tillögur um eftirfarandi skiptingu fjárins:
    A. Námsaðstöðu til atvinnulausra kvenna, 5 millj. 443 þús. kr., til sveitarfélaga, 20 millj. 445 þús. kr., til einkaaðila 33 millj. 660 þús. kr., óráðstafað 452 þús. kr.
    Þessi greinargerð mun sjálfsagt ganga til þeirrar nefndar sem um málið fjallar en samandregið mun það vera svo að mest af þessu fjármagni muni ganga til höfuðborgarsvæðisins og Norðurl. e. enda er atvinnuleysi meðal kvenna mest þar, eins og segir í minnisblaði starfsmanns fjmrn. til fjmrh. En það er síðan félmrh. að taka afstöðu til tillagna starfshópsins.
    Hv. 18. þm. Reykv. spurði líka um hvað liði ráðstöfun þeirra fjármuna sem sérstaklega áttu að ganga til heimilisiðnaðar.
    Það var ákvarðað að leggja 20 millj. kr. til þess verkefnis. Síðasta ríkisstjórn hafði skipað nefnd til að undirbúa það mál og sú nefnd hafði unnið ákaflega gott starf að því máli og þess vegna þótti eðlilegt að nýta þá vinnu sem þar lá fyrir til þess að koma þessum fjármunum í þágu atvinnuskapandi aðgerða fyrir konur. Þetta mál er fullunnið og gert er ráð fyrir því að niðurstaðan verði kynnt nú allra næstu daga. Það er hugsað að þær 20 millj. gangi til eflingar á heimilis- og listiðnaði. Það hefur verið haft samráð við fulltrúa Byggðastofnunar og Heimilisiðnaðarfélags Íslands og formann áðurnefndrar nefndar, sem ég gat um, um með hvaða hætti þessu yrði við komið og niðurstaðan er sú að setja á stofn handverksmiðstöð sem rekin verði til reynslu í 3 ár. Það er gert ráð fyrir að þriggja manna verkefnisstjórn hafi yfirumsjón með rekstri miðstöðvarinnar og verkefnisstjórnin ráði verkefnisstjóra til sama tíma, auk sérstakra tengiliða á landsbyggðinni sem deili með sér einu stöðugildi. Meginhlutverk miðstöðvarinnar verði að aðstoða þá fjölmörgu aðila sem starfa að handverki ýmiss konar en vert er að benda á að á síðustu missirum hefur orðið veruleg vakning á því sviði og æ fleiri einstaklingar hafa starf af þessari atvinnugrein eins og kemur fram í minnispunktum sem ég fékk vegna þessarar spurningar sérstaklega frá hv. þm.
    Hv. 4. þm. Norðurl. e. og reyndar fleiri hv. þm. sem töluðu fundu að því að ríkisstjórnin, bráðabirgðalöggjöfin, hefði með lögunum veitt tiltekna heimild til þess að hafnarsjóðir gætu gefið afslátt á tilteknum hafnargjöldum, almennum gjöldum til sjávarútvegsins, og síðan hefði ríkisstjórnin brugðist með því að halda öllu sínu. Þetta er ekki alveg rétt vegna þess að tilkoma þessa ákvæðis var eingöngu þannig að aðilar vinnumarkaðarins, í þessu tilfelli vinnuveitendamegin frá, sögðu að allmörg sveitarfélög vildu gefa afslátt til sjávarútvegsins á almennum hafnargjaldataxta en skorti til þess heimildir. Þess var óskað sérstaklega að ríkisvaldið aflaði þessara heimilda til þess að þennan afslátt mætti veita. Þegar pakkinn, ef svo má að orði komast, var veginn og metinn og vigtaður til kostnaðar þá var ekki gert ráð fyrir því að þessi yfirlýsing hefði kostnað í för með sér fyrir ríkisvaldið, hins vegar var þarna lagaskortur og úr honum var bætt. Það er líka vitað að það voru ekki öll sveitarfélög endilega ánægð með það að það skyldi gert því þau sjónarmið heyrðust að þetta auðveldaði ríkari höfnum að bæta samkeppnisstöðu sína, ef svo má að orði komast, gagnvart öðrum höfnum. En þetta var ósk aðila á vinnumarkaðinum og það var ákveðið að verða við því. Þannig að þarna hefur ríkisstjórnin ekki í neinu efni svikist um það sem lofað var.
    Ég hef svarað því sem hv. 1. þm. Austurl. hóf ræðu sína á um bráðabirgðalögin og Hagræðingarsjóðinn og ég vil í upphafi óska honum til hamingju með kjör sem formaður í þessari mikilvægu þingnefnd sem fær málið til meðferðar. Ég hygg að sú staðreynd að stjórnarandstaðan hefur fengið forustu í þeirri nefnd bendi á tvennt, annars vegar það að ríkisstjórnin vildi sýna að henni var full alvara með þessari ákvörðun og hins vegar hitt auðvitað líka að hv. þm. sem nú gegnir formennsku í nefndinni hefur mikið almennt traust í þinginu eins og kunnugt er.
    En ég hef áður svarað þessum athugasemdum varðandi þetta atriði sem hann hóf mál sitt á. Ég verð að segja þó til viðbótar eins og ég reyndar nefndi í gær að það var meginmarkmið með breytingum sem gerðar voru gagnvart bráðabirgðalagaheimildunum að ríkisvaldið, og ég hygg að hans flokkur hafi verið þeirrar skoðunar, hefði áfram bráðabirgðalagavaldið en úr notkun þess yrði dregið og um leið bráðabirgðalagalöggjafinn, ríkisvaldið, yrði að standa fyrir máli sínu innan tiltölulega skamms tíma í þinginu. Þetta hefur allt gengið eftir eins og þessi umræða reyndar sýnir og lögin segja fyrir um og í annan stað þá hafa menn gætt sín betur á notkun bráðabirgðavaldsins heldur en oft áður og ég hygg að þessi núv. ríkisstjórn standist fyllilega samanburð við aðrar ríkisstjórnir í þeim efnum og ég hygg reyndar að það sé ekki vegna þess að hún sé jafnágæt og mér finnst hún vera, það kann að vera ágreiningur um það í salnum, en heldur vegna hins að menn eru að taka tillit til þessara hugsana sem voru. Menn eru að fara varlega í notkun á bráðabirgðalagavaldi umfram það sem áður var gert og ég hygg að sú þróun verði ekki stöðvuð hvaða ríkisstjórn sem situr í landinu á hverjum tíma. En auðvitað þarf líka, eins og hv. 18. þm. Reykv. benti á í gær, að láta á hitt reyna að kalla þingið saman, jafnvel þó væri um ágreiningsmál að ræða og láta þingið ráða ráðum sínum. Ég get gert þá játningu úr þessum ræðustól nú að ég hefði talið að það hefði verið skynsamlegt þegar kjaradómslögin voru sett á sínum tíma að þá hefði þingið komið saman og fjallað um það mál en ekki bráðabirgðalöggjafinn. Ég var ekki þeirrar skoðunar þá en svona eftir á að hyggja þá held ég að það hefði verið skynsamlegt í ljósi ýmissa hluta sem síðar hafa gerst. Ég býst við því að menn vilji fremur velja slíka kosti oftar hér eftir en hingað til.
    Hv. 1. þm. Austurl. velti því fyrir sér hvort það hefði verið staðið við þær yfirlýsingar sem gerðar hefðu verið gagnvart Alþýðusambandi Íslands og Vinnuveitendasambandi Íslands. Ég tel að það hafi verið gert. Hins vegar eru uppi sjónarmið núna af hálfu Alþýðusambandsins að það bendir til þess atriðis í fjárlagafrv. að það standi ekki til að gera það gagnvart næsta ári og það kunni að hafa áhrif á afstöðu verkalýðshreyfingarinnar um framlengingu á samningum. Ég hygg að þeir hafi ekki haldið því fram að fram til þessa hafi ekki verið staðið við það sem hafi verið lofað og ég tel reyndar að þeir telji að forsendur, hinar efnahagslegu forsendur sem gefnar voru, hafi ekki verið brotnar. Það sem hins vegar út af stendur núna er tiltekin fjárhæð sem menn deila um til atvinnuskapandi þátta hvort það standist í fjárlagafrv. Þar er um að ræða spursmál hvort menn hafa staðið við þær yfirlýsingar sem þeir gáfu. Hins vegar ræða menn síðan um hugmyndir ríkisvaldsins um tekjuöflun á móti útgjöldum vegna virðisaukaskattslækkunar og þar mundi ekki vera um brigð að ræða. Hins vegar vissu allir aðilar báðum megin við borðið eða á þrem vegum við borðið að útfærsla þeirrar tekjuöflunar gæti haft áhrif á afstöðu verkalýðshreyfingarinnar til framlengingar kjarasamninga en það var ekki um brigð að ræða í því sambandi.
    Hv. þm. ræddi um skattamál og sagði að yfirlýsingar míns flokks, ég man ekki orðrétt hvað hann sagði, en efnislega var það á þá lund að þær hefðu ekki verið merkilegar fyrir síðustu kosningar og menn ekki getað staðið við þær. Ég hygg að við höfum sagt --- a.m.k. gerði ég það fyrir kosningar --- að við mundum stoppa af skattahækkunarskriðu vinstri stjórnar og síðan þegar fram liðu stundir að reyna að lækka skatta. Við áttum ekki von á þá, frekar en hv. þm., að efnahagsforsendur mundu breytast svo til hins verra eins og þær hafa gert með minnkandi afla. Það gat enginn maður séð fyrir né þá heldur að það verð sem var á okkar afla sem var í sögulegu hámarki á árunum fyrir þær kosningar skyldi fara í slíkt sögulegt lágmark eins og það hefur gert á sama tíma og okkar afli hefur dregist saman.
    Hv. þm. ræddi um samhengið í skattamálum og hringlandahátturinn í þeim efnum væri ekki til þess fallinn að minnka hættu á skattsvikum og undandrætti. Ég get tekið undir það með honum en hins vegar verð ég að segja að þegar skattabreytingar ganga í þá áttina að samræma skattkerfið eins og til að mynda virðisaukaskattsbreytingin á ferðaþjónustu þá ætti það frekar að stuðla að bættum skattheimtum heldur en hið gagnstæða. Á hinn bóginn má deila aftur um breytingar varðandi virðisaukaskattinn á matvæli.
    Hv. þm. nefndi að menn væru með virðisaukaskattinum mjög að ganga á hag ferðaþjónustunnar en þá verður hv. þm. að hafa í huga að það má ekki taka virðisaukaskattinn einan og sér þegar verið er að meta fyrri stöðu ferðaþjónustunnar og núverandi stöðu hennar eftir að virðisaukaskattur verður á lagður um áramótin því í fyrsta lagi er búið að lækka aðstöðugjöldin, í annan stað er búið að lækka tryggingagjaldið og í þriðja lagi hefur raungengislækkunin hjálpað mjög ferðaþjónustunni. Það kom til að mynda fram þegar birtir voru reikningar eða stöðureikningar Flugleiða að bara frá sex mánaða yfirliti yfir í átta mánaða yfirlit hafði staða Flugleiða batnað verulega þó enn væri um töluvert tap að ræða og þar var einmitt gengisbreytingin sem menn höfðu í fyrstu talið að mundi ekki hafa jákvæð áhrif, hvorki jákvæð eða neikvæð áhrif á rekstur Flugleiða, það kom í ljós þegar tveim mánuðum eftir hinar fyrri yfirlýsingar að gengisbreytingin hefur haft jákvæð áhrif.
    Hv. þm. sagði að hann teldi sjálfur að lækkun matarskatts væri ekki til þess fallin að skapa öryggi í skattkerfinu, þvert á móti og hann hefði ekki verið sannfærður um það í september 1988 frekar en hæstv. utanrrh. og væri það ekki enn, en hins vegar væri hans flokkur þessarar skoðunar og hefði ályktað um það. Síðan er hávær krafa frá almenningi eða öðrum fulltrúum almennings heldur en þeim sem hér sitja um slíkt hið sama og oft er það nú svo að það er fundið að því að stjórnvöld vilji lítið gera með kröfur og áhugamál af því tagi en þarna verða menn sem sagt við því. Ég get haft sömu efasemdirnar eða áhyggjurnar af áhrifum á skattkerfið en ég taldi hins vegar verjandi engu að síður til að stuðla að því að kjarasamningar gætu gengið út árið 1994 að samþykkja að slík skattbreyting yrði gerð. Ég held að það hefði verið skynsamlegt.
    Hv. 1. þm. Norðurl. e. taldi að það sem hefði komið fram að allnokkur hluti sérstaks framkvæmdaátaks á þessu ári hefði falist í því að veita heimildir til flutnings fjármuna milli ára, þá hefði verið um blekkingaleik, eins hv. þm. sagði, að ræða gagnvart verkalýðshreyfingunni. Yfirlýsingar forustumanna verkalýðshreyfingarinnar sjálfrar liggja fyrir um það að ekki hafi verið um neinar blekkingar að ræða, þeim hafi ætíð verið fullljóst með hvaða hætti þessi milljarður á þessu ári væri fenginn. Þar var því ekki um neina blekkingu að ræða heldur gengið hreint til verks og beint framan að mönnum og menn voru alveg klárir á því hvað það var sem þeir voru að fara yfir í því sambandi.
    En hv. þm. spurði einnig hvort það væri meiningin að framvegis væri slíkur tilflutningur háður samþykki aðila vinnumarkaðarins hverju sinni og auðvitað er það ekki svo. Það er út af fyrir sig ljóst.
    Ég tel að hv. 3. þm. Vesturl. hafi algerlega misskilið það sem hann var að fjalla um, varðandi aðstöðugjaldið og tilfærsluna gagnvart sveitarfélögunum og þegar hann fjallaði um bráðabirgðaþáttinn í því sambandi. Í fyrsta lagi var það nú svo að mikil samstaða var um það að fella aðstöðugjaldið niður. Ég hugsa að ég hafi nú verið þingmanna tregastur persónulega til þess að það væri gert þó ég féllist auðvitað á sjónarmið mikils meiri hluta í því sambandi, þegar fram liðu stundir. En bráðabirgðaástand sem um var talað var eingöngu það að fyrsta árið, þar sem það lá á að gera þessa breytingu, þá mundi ríkisskattkerfið bera þessa breytingu en síðar með samkomulagi við sveitarfélögin yrði breytingin færð aftur á ný yfir á þau. Og það er að gerast nú. En hv. þm. talaði rétt eins og nú væri verið að auka útgjöldin skyndilega með þessum aðgerðum og hann blandaði alltaf saman hugmyndum í fjárlagafrv. um sérstakt tryggingagjald eins og það væri að koma til vegna aðstöðugjaldsins. Það er misskilningur. Það gjald er lagt til vegna tekjuminnkunar vegna virðisaukaskattsbreytingarinnar og á ekkert skylt við þetta sem hv. þm. fjallaði um.
    Hv. þm. sagði jafnframt að vegna efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar og gengisbreytingar hefði ekki sést hvort lækkun aðstöðugjaldsins hefði skilað sér í lækkun á vöruverði. Það liggur fyrir að lækkun aðstöðugjaldsins skilaði sér í vöruverði. Það kom fram vegna þess að verðhækkanir urðu minni en menn bjuggust við og aðilar eru sammála um það, Neytendasamtökin jafnframt, að lækkun aðstöðugjaldsins skilaði sér einmitt og hefur komið fram í lækkun á vöruverði, eins og til var stofnað.
    Ég hef farið nokkuð hratt yfir sögu, enda er tíma mínum lokið. En eins og ég segi, þingmálið sem slíkt fer til afgreiðslu væntanlega í hv. efh.- og viðskn. Þar gefst færi á að svara spurningum sem ég hef ekki svarað hér, annaðhvort vegna þess að ég hef ekki haft svörin á reiðum höndum eða vegna tímaskorts, hvort tveggja gæti verið, enda gefst kjörið tækifæri til þess að svara slíkum spurningum í hv. þingnefnd sem fær málið til meðferðar.