Efnahagsaðgerðir vegna kjarasamninga

13. fundur
Fimmtudaginn 14. október 1993, kl. 13:20:21 (291)

[13:20]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Ég mun ekki lengja þessar umræður mikið. Það eru þó örfá atriði sem ég ætla að koma hér að. Það er nú hins vegar þannig að maður er eiginlega hálffeiminn yfir þessu milda yfirbragði hæstv. forsrh. sem hann sýndi hér í ræðu áðan. Hann gekk meira að segja svo langt að viðurkenna mistök ríkisstjórnarinnar þannig að maður veit ekki alveg á hverju við eigum von næst.
    Hann ræddi einnig um að ríkisstjórninni væri full alvara með að fylgja eftir breytingunum á þingsköpunum og það sýndi sig m.a. í því trausti sem ríkisstjórnin fæli stjórnarandstöðunni varðandi trúnaðarstörf hér í þinginu. Það metum við í stjórnarandstöðunni, en ég vil hins vegar benda á að fyrst og fremst ræðst það af hálfu ríkisstjórnarinnar hvernig til tekst með þessi atriði, að ríkisstjórnin virði sjálfstæði Alþingis í verki og sýni því fulla virðingu.
    Virðulegi forseti. Nú er það svo að ég ætla mér alls ekki að tala meira en 20 mínútur í þessari umræðu en ég spyr hins vegar hvort ég eigi ekki 40 mínútna tíma núna, tvöfaldan tíma þar sem þetta er fyrri ræða mín í þessu máli, en hér kom annað fram á tímatöflu. ( Forseti: Forseti tekur fram að að sjálfsögðu á hv. þm. 40 mínútur í þessari umræðu.) Ég þakka virðulegum forseta fyrir, en ég fer í sjálfu sér ekki fram á að hann lengi tímann hér á töflunni.
    Ég ætla að fara örfáum orðum um aðstöðugjaldið. Ég get ekki talað öðruvísi en svo að það hafi alltaf verið ljóst að með þessari aðgerð átti að færa skatta af atvinnulífinu og yfir á einstaklingana í þjóðfélaginu. Ég get ekki annað því að ég talaði margsinnis fyrir þessari aðgerð hér í þinginu áður en hún var kynnt af hálfu ríkisstjórnarinnar og í þessu fólst efnahagsaðgerðin að verulegu leyti, að færa til á þennan hátt. Ég geri mér einnig grein fyrir að það yrði mjög erfitt að finna tekjustofna í staðinn á annan hátt heldur en tengja það beinu sköttunum og ég er ekki búinn að sjá að það að leggja á bifreiðaskatta eða umhverfisskatta eða eitthvað annað slíkt hefði komið betur út fyrir einstaklingana í þjóðfélaginu. Hverjir hefðu borgað það á endanum? Það hefði endað þar og þá sé ég nú ekki að það sé verri leið að setja þetta í samhengi við tekjuskattinn og útsvarið því að það er þó skattur þar sem lægstu tekjurnar eru varðar. Hitt er svo annað mál að ég gagnrýndi mjög harðlega í fyrravetur þá aðgerð ríkisstjórnarinnar að breyta skattleysismörkunum á þann hátt sem þá var gert og að mínu mati gekk þveröfugt við þá stefnu sem ég var hér að nefna, að verja lægstu tekjurnar.
    Að öðru leyti ætlaði ég, virðulegi forseti, fyrst og fremst að ræða hér um vaxtamálin. Ég var á pólitískum fundi norður í landi í gærkvöldi. Þar var mikið rætt um peningastefnuna og við þingmenn brýndir á því að halda áfram baráttu okkar fyrir breytingum þar á. Ég sagði reyndar þar að ég hefði rætt þetta við viðskrh. í gær, fjmrh. deginum áður og ég skyldi halda áfram að flytja þessa ræðu um vextina á hverjum degi ef svo bæri undir ef ég fengi tækifæri til þess og það tækifæri gefst hér í dag.
    Hæstv. forsrh. ræddi nokkuð um vextina og sagði réttilega að bankarnir væru að slást við afskriftir vegna fjárfestinga fyrri ára. Það er hins vegar ekki þannig að það sé eingöngu vegna þess að það hafi allt saman verið offjárfestingar. Það er að hluta til vegna þess að vextirnir hafa viðvarandi verið allt of háir, hærri heldur en atvinnulífið í landinu stendur undir og það er svo enn. Við erum komnir í þann vítahring að bankarnir pína upp vaxtamuninn hjá þeim sem enn þá geta borgað vexti til þess að borga afskriftirnar fyrir hina sem eru farnir á hausinn. Þetta er vítahringur, eins og ég sagði, því það verða alltaf fleiri og fleiri eftir því sem vaxtamunurinn er hækkaður sem heltast úr lestinni og skuldir þeirra bætast við afskriftasjóðina.
    Ef ekki verður horfið af þessari braut þá blasir ekkert annað við en hrun peningakerfisins innan örfárra missira. Þetta er hin napra staðreynd í málinu og það er allt of billegt eins og hæstv. forsrh. nefndi að þessu gætu bankarnir mætt með því að auka stöðugt vaxtamuninn og þeir þyrftu á því að halda. Það setur bara meiri hraða á þessa rúllettu.
    Ég spyr einnig hæstv. forsrh. hvort ríkisstjórnin hafi ekki séð fyrir afleiðingarnar á vextina í landinu sem hlutust af efnahagsaðgerðunum í sumar. Þar á ég fyrst og fremst við gengisfellinguna. Sá hæstv. ríkisstjórn það virkilega ekki að hækkun á innflutningi, hvort það var nú kaffi eða sykur eða hvað annað, fannst hæstv. ríkisstjórn rétt að sú hækkun væri öllsömul mæld í lánskjaravísitölunni og yrði til þess að lyfta öllum vaxtafætinum í landinu upp? Þarna brugðust stjórnvöld að mínu mati mjög alvarlega, að taka ekki lánskjaravísitöluna úr sambandi þegar verðlagsþróunin var komin á það stig sem hún hefur verið síðustu tvö árin og ég held að við séum öll sammála um að við viljum standa vörð um og varðveita þann árangur. Það var ekki gert með þeim afleiðingum að fyrirtækin í landinu, og nú tala ég um þau sem eru miðlungi skuldsett og þar yfir, byrjuðu á því að taka inn á sinn rekstur gengistapið af gengisfellingunni. Sumt fellur til gjalda á þessu ári, annað ekki fyrr en seinna. Síðan beint í kjölfarið tóku þau á sig vaxtahækkun og það verulega vaxtahækkun á öllum innlendum fjárskuldbindingum. Það mikla vaxtahækkun að vikum og mánuðum saman hafa raunvextir hér á Íslandi, því ég geri engan mun eins og staðan er í dag á nafnvöxtum og raunvöxtum, hafa raunvextir hjá fyrirtækjum og heimilum, fyrirtækjum sem ekki geta hækkað sínar afurðir og heimilum sem ekki fá hækkaðar sínar tekjur, hafa raunvextir á skammtímaskuldbindingum verið á bilinu 15--20%. Þetta staðfestist í vaxtaskýrslu sem hér er nýlega komin út. Raunvaxtamælikvarðinn er nefnilega svo blekkjandi. Ef við erum með 15% nafnvexti eins og nú er eða eitthvað nálægt því, ég man það ekki alveg upp á prósentustig, þá eru þeir sem eru með óbreyttar tekjur með 15% raunvexti. Hjá hinum sem hafa einhverja hækkun á móti er það eitthvað lægra. En lítum til að mynda á þá sem hafa verið að koma yfir sig húsnæði og hafa bundið sitt lánsfé í fasteignum, fasteignum sem hafa lækkað í verði. Hverjir eru raunvextirnir þar? Ég spyr hæstv. forsrh. Þeir eru einhverjir allt aðrir og enn þá hærri.
    Staðreyndin er nefnilega sú að vaxtauppbyggingin í okkar þjóðfélagi á sér enga rökræna skírskotun til annarra efnahagsþátta hjá okkur. Því betur virðist þetta ljós vera að renna upp fyrir ríkisstjórninni núna en það hefur hins vegar ekkert komið fram enn þá hvernig hæstv. ríkisstjórn ætlar sér að taka á þessu máli í framtíðinni. En meðan þetta ástand varir, meðan fyrirtækin eru að slást við allt upp í 20% vexti og meðan sömu fyrirtæki eru að verulegu leyti að fjármagna sig með skammtímalánum verður engin nýsköpun í atvinnulífinu. Með þessari stefnu eru menn að keyra sig lengra og lengra niður í lægðina og bíða eftir því að það komi að hruninu.
    Hæstv. forsrh. sagði áðan að bankarnir yrðu að fá að taka vaxtamun til þess að vinna úr þessum afskriftum vegna tapaðra útlána. Hvernig hafa nágrannaþjóðir okkar brugðist við þessu? Hvernig hafa Norðmenn brugðist við þessu? Þeir gerðu það ekki þannig að láta þetta allt saman skella á þeim sem enn standa í skilum með sín lán. Það er ekkert siðferði í slíku. Að mínu mati verður þetta ekki leyst fyrr en menn horfast í augu við vandamálið og taka út fyrir sviga einhverja upphæð í þessu dæmi. Það verður að gera á margvíslegan hátt, það verður að gera með verulegum lánalengingum, það verður að gera með því að styrkja eiginfjárstöðu fjármunastofnana, það verða eigendur að gera og það verður ríkissjóður að gera, það verður ríkið að gera gagnvart ríkisbönkunum ef á þarf að halda. Fyrst og fremst gengur það ekki að við þessar aðstæður sé höfuðstóll þeirra sem eiga peningana alltaf tryggður númer eitt.
    Í þjóðarsáttinni 1990 viðurkenndu aðilar vinnumarkaðarins að ef menn eyddu umfram það sem þeir öfluðu, ef laun væru hærri en það sem atvinnulífið stæði undir á hverjum tíma þá kæmi það ekki öðruvísi fram en í aukinni verðbólgu og með þeim vítahring sem því fylgir. Fjármagnseigendur hafa ekki fengist til þess að viðurkenna þessa staðreynd enn. Fjármagnseigendur hafa enn krafist þess að allar mældar vísitölur á Íslandi hækki þeirra höfuðstól hvað sem líður greiðslugetu íslensks atvinnulífs og íslenskra heimila. Þetta er að mínu mati eitt allra stærsta málið sem við höfum við að glíma núna og ég skora á hæstv. ríkisstjórn, þar sem hún virðist vera búin að átta sig á þessu ef marka má ummæli síðustu daga og þessa skýrslu sem hér er komin fram, að taka á þessum málum.
    En ég segi hins vegar líka að því miður þá hefur hæstv. ríkisstjórn ekki tekið mark á varnaðarorðum okkar stjórnarandstöðumanna á þingi síðustu tvö ár. Ég er búinn að halda þessa ræðu sem ég er að flytja hér núna ekki einu sinni og ekki tvisvar, ekki eingöngu í gær og í fyrradag, ég er búinn að halda hana margsinnis á síðustu tveimur árum. Svörin hafa alltaf verið þau að þetta fari allt í einu að koma af sjálfu sér. Fyrst átti það að koma ef tækist að ná niður ríkissjóðshallanum, minnka þensluna. Þenslan minnkaði, vextirnir lækkuðu ekki. Síðan kom hæstv. fyrrv. viðskrh. og sagði: Þetta er af því að það er fákeppni,

nú breytum við lögum og leyfum erlendum bönkum að starfa hér á landi og þá lækka vextirnir. Það er búið að breyta þeim lögum og vextirnir, ef eitthvað er, hafa hækkað. ( Gripið fram í: Það hafa engir bankar komið.) Nei, það er að vísu rétt það hafa ekki komið hér bankar og það eru kannski engar líkur á því að vextir lækkuðu við það því ég er nánast fullviss um það að erlendar fjármálastofnanir sem hér kæmu mundu staðsetja sig eins nálægt því vaxtastigi sem er í landinu og þær geta því þær mundu ekki koma í neinni góðgerðastarfsemi, þær mundu væntanlega koma hér til þess að njóta góðs af þeirri veislu sem hér hefur verið fyrir þá sem eiga peninga.
    Málið er það að á þessu verður ekki breyting fyrr en aðilar setjast niður og tala saman á svipaðan hátt og gert var varðandi þjóðarsáttina varðandi kjarasamninga. Þetta er ekki flóknara en það. Ég varpa því hér fram til hæstv. forsrh. varðandi skatta á fjármagnstekjur, sem ég tel brýnt réttlætismál að verði gert og verði tekið upp á næstunni, hvort ekki væri skynsamlegra í þessari stöðu ef menn settust niður og reyndu að tala vextina niður, ef ekki má tala um handafl, að menn næðu einhverju samkomulagi um það að fresta um sinn að skattleggja fjármagnstekjur en sameinast þess í stað um að lækka vextina verulega. Það væri einhver sú mesta bót sem gæti komið fyrir atvinnureksturinn í landinu og heimilin. Það væri sú öflugasta aðgerð sem nú væri hægt að gera til þess að koma hjólum atvinnulífsins aftur af stað því það eru ekki allar aðstæður slæmar í dag. Við búum við eitt mesta aflaár í Íslandssögunni til sjávarins. Það hefur orðið minnkun varðandi þorskinn en það hafa aðrar tegundir komið inn í staðinn, það hefur komið rækja, það hefur komið meiri loðna og því betur þá eru menn á ýmsum sviðum í sjávarútveginum að fara yfir á brautir sem gefa okkur meiri tekjur úr takmörkuðum afla. Þannig að ég vil enn ganga eftir því við hæstv. forsrh. á hvern hátt ríkisstjórnin hugsar sér að ná niður vöxtum á næstunni.
    Einn stjórnarþingmaður kom í fyrradag og talaði um að það væri fyllilega raunhæft að lækka raunvexti mjög hratt um 3 prósentustig. Ég er honum sammála og reyndar settum við framsóknarmenn þetta fram í okkar grænu bók í vor sem leið. Það var einu sinni sagt úr þessum stól: Vilji er allt sem þarf. Það er allt sem þarf núna til að lækka vextina, það er vilji, það er vilji aðila fjármagnsmarkaðarins og það er vilji ríkisstjórnarinnar til þess að leiða þessa aðila saman til þess að taka á þessum málum.