Efnahagsaðgerðir vegna kjarasamninga

13. fundur
Fimmtudaginn 14. október 1993, kl. 13:37:38 (292)


[13:37]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég get verið hv. þm. sammála um það að við núverandi aðstæður séu nafnvextir í þjóðfélaginu raunverulega raunvextir. Að því leyti til er það mikilvægt að nafnvextirnir lækki og fylgi verðbólgunni sem fer hraðlækkandi, þá er þar um raunvaxtalækkun að ræða gagnvart flestum fyrirtækjum. Þessi verðbólgukippur sem fylgdi gengisbreytingunni gengur hratt niður og þar með vonandi vextirnir.
    Ég get líka verið sammála hv. þm. um að það er visst hættuspil við núverandi aðstæður að setja fjármagnstekjuskatt á þó að langflestir í þjóðfélaginu séu sammála því að til lengri tíma horft sé það sanngirnismál að tekjumyndun með þeim hætti lúti sömu lögmálum og tekjumyndun með einhverjum öðrum hætti, hinni venjulegu vinnu eða eignatekjumyndun.
    Vegna lánskjaravísitölunnar sem hv. þm. nefndi þá held ég að það hafi ekki verið efni til þess að taka hana sérstaklega úr sambandi og efast um að það hefði staðist lagalega í tengslum við gengisbreytinguna, ef hann meinti það. Ég hef kannski misskilið hann. En ég vek þó athygli á því að með breytingunni sem gerð var og orkaði vissulega tvímælis þá er það svo að lánskjaravísitalan mælir ekki verðbreytingar í þjóðfélaginu með sama hætti og áður því launavísitalan var sett inn í hana að þriðjungi til og á samdráttartímum í launum sem öðru þá dregur það úr vægi lánskjaravísitölunnar. Við skulum vona að laun fari til lengri tíma horft hækkandi í landinu. Það hefur sem betur fer gerst nokkuð þótt hægt hafi farið. Þannig að þá er hætt við að launavísitalan mundi frekar virka til hækkunar á lánskjaravístölu. En á undanförnum allmörgum árum þá hefur hún virkað til lækkunar á lánskjaravísitölunni.
    Vaxtanefndin hefur skilað hugmyndum um ráð til að lækka vexti. Þær hugmyndir eru núna í athugun hjá ríkisstjórn. Ég tel að vaxtamyndasamningur bankanna sem kannski hefur ekki áhrif til vaxtalækkunar við núverandi aðstæður sé einmitt til þess fallinn að ef menn þurfa í framtíðinni að grípa til aðgerða af því tagi sem við þurftum að gera sl. vor og sl. haust þá mundi vaxtamyndasamningurinn einmitt leiða til þess að menn mundu ekki lenda í verðbólgukippi í jafnríkum mæli og menn lentu nú.