Efnahagsaðgerðir vegna kjarasamninga

13. fundur
Fimmtudaginn 14. október 1993, kl. 13:39:53 (293)


[13:39]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hlýt að lýsa vonbrigðum mínum að hæstv. forsrh. gefur ekki skýrari svör um það hvernig ríkisstjórnin hyggist lækka vexti. En hæstv. ráðherra sagði þó að hæstv. ríkisstjórn hefði horft á það aðgerðalaust í sumar að raunvextir fóru upp í nítján komma eitthvað prósent, ég man ekki hvað mikið. Að vaxtatoppurinn fór upp fyrir verðbólgutoppinn sem kom á eftir gengisfellingunni. Það held ég að þekkist hvergi í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við og í þeim gengisfellingum sem þar hafa verið gerðar á síðustu árum að vextir hafi síðan fylgt á eftir og upp fyrir verðhækkunartoppinn. Ég hygg að þess muni hvergi finnast dæmi.

    Í öðru lagi nefndi hann annað dæmi um samsetningu vísitölunnar og í því dæmi kannski fólst að hluta til hvað þessi vísitöluleikur er vitlaus því hann sagði: Ef laun færu hækkandi þá mundi það mælast í lánskjaravísitölunni og hækka allan vaxtafótinn. Og þá sjáum við fáránleikann í þessu kerfi ef það á að mælast ef menn telja að það sé grundvöllur fyrir að bæta eitthvað launakjör í landinu að þá eigi einnig að hækka um leið sjálfkrafa allan vaxtafótinn. Þetta er algjörlega órökrétt og kannski eitt mest lýsandi dæmi um það hvað það er rangt að vera í þessum vísitöluleik ef menn vilja halda verðlagi stöðugu því að í stöðugu verðlagi er hættan sú, það var hægt að hugsa sér að þetta væri raunhæft meðan við bjuggum við verðbólguna, að þessi vísitöluleikur allur skrúfi verðlagið upp á sjálfvirkan hátt, á allt annan hátt heldur en menn vilja starfa.