Efnahagsaðgerðir vegna kjarasamninga

13. fundur
Fimmtudaginn 14. október 1993, kl. 13:41:58 (294)


[13:41]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég hlýt að vekja athygli á því að þessi breyting á lánskjaravísitölunni var gerð í tíð síðustu ríkisstjórnar og flokkur hv. þm. átti auðvitað fulla aðild að þeirri breytingu. Hún kemur mönnum til góða í skamman tíma og er freistandi að því leyti til en til lengri tíma horft þá vonandi kemur hún okkur illa. Það er dálítið skrítið að orða þetta svo, en við erum að vona það að laun muni í framtíðinni hækka heldur meira en verðlag og það rætist úr hjá þjóðinni og þá mundi þessi breyting koma okkur illa þegar fram í sækir.
    Sú er staðreyndin jafnframt að þegar rætt er um vaxtatoppinn þá var það svolítið mismunandi hvernig bankarnir tóku á því. Sumir bankanna kusu að taka toppinn mjög hátt og hratt og ganga þá hraðar niður. Aðrir bankar kusu að taka þetta með jafnari hætti á lengri tíma. Ég vona að þetta ætti að skýrast og sjást þegar verðbólgan gengur niður eins og hún er að gera núna þannig að þá sjáist að menn eru ekki að notfæra sér stöðuna. Ég vek líka athygli á því eins og kom fram í fyrri umræðum að vextir á skammtímaríkispappírum fylgdu ekki þessum toppi og það er mikilvægt. Ríkispappírarnir hafa verið að lækka, bankarnir hafa vitnað til þeirra á undanförnum árum. Fjármagnsþörfin hefur snarlækkað, hin opinbera fjármagnsþörf, það á líka að hjálpa til lengri tíma til þess að raunvextir í gamla skilningnum lækki, ekki bara nafnvextir.