Efnahagsaðgerðir vegna kjarasamninga

13. fundur
Fimmtudaginn 14. október 1993, kl. 14:12:11 (300)


[14:12]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ef ræða mín hér áðan hefur að einhverju leyti verið tilefni hv. þm. til ummæla hans varðandi niðurfellingu aðstöðugjaldsins og tekjur í staðinn þá vil ég taka fram til að forðast allan misskilning að að sjálfsögðu átti að mæta þessu að hluta með því að halda því tekjuskattshlutfalli sem var á fyrirtækjunum. Ef það hefði verið gert, þá hefðu betur stæðu fyrirtækin, þar sem niðurfelling á aðstöðugjaldinu hefði komið fram sem auknar skattskyldar tekjur, orðið að skila af því 45% inn í ríkissjóð. Þess vegna finnst mér alls ekki tímabær sú aðgerð sem ríkisstjórnin er að framkvæma núna að lækka tekjuskattinn á fyrirtækjunum. Auðvitað eiga þau að greiða afkomutengda skatta. Aðstöðugjaldið hins vegar, sem var skattur sem lagðist á kostnað fyrirtækjanna, er sú ranglátasta skattaðferð sem hægt er að hafa gagnvart fyrirtækjum og sá skattur bitnar langsamlega þyngst á þeim sem eru að byggja sig upp, auk þess sem sá skattur safnaðist saman í innlendri framleiðslu umfram innflutning. Við getum fundið dæmi þess þar sem hið endanlega vöruverð á innlendri framleiðslu var búið að taka á sig 2--3 prósentustig í gegnum aðstöðugjaldið vegna þess að þar voru það margir liðir sem voru undirframleiðendur í viðkomandi framleiðslu. Það er síðan sorglegt, eins og ég nefndi í ræðu minni áðan, að þegar kemur að því að útfæra hluta af þessu sem tekjuskatt eða útsvar, þá skuli ríkisstjórnin bregðast hvað það snertir að fara þannig að með skattleysismörkin að það kemur þyngra niður á þeim tekjulægri en öðrum.