Þingfararkaup alþingismanna

13. fundur
Fimmtudaginn 14. október 1993, kl. 14:36:01 (308)


[14:36]
     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ég mun ekki bera það á stjórnarsinna að þeir séu hræddir við kjósendur því ef þeir

væru hræddir við kjósendur þá mundu þeir ekki styðja ríkisstjórnina. Það fer ekki milli mála. En burt séð frá því þá er það mál eitt og sér ekki á dagskrá heldur hitt hvaða reglur eigi að gilda um biðlaun.
    Nú er það svo að biðlaun eru greidd í þessu þjóðfélagi ýmsum aðilum. Vafalaust hefur það verið ástæðan fyrir því að þau eru sett á að menn ætla að gæta jafnræðis, menn ætla að gæta jafnræðis í þeim efnum. Við höfum ýmis dæmi um að þetta kemur út á allsérstæðan hátt. Sérstæðasta aðferðin er vissulega sú þegar menn hætta störfum sem þingmenn og fara í mun hærri stöður. Þá eru þeir vissulega á tvöföldum launum, kannski meira en tvöföldum þingmannslaunum á eftir, kannski á þreföldum þingmannslaunum. En spurningin er aftur á móti sú hvort þeir sem sömdu þetta frv. hafa fyrst og fremst ætlað að ná sér niðri á krötunum í eitt skipti fyrir öll. Mér sýnist nefnilega að það blasi við að frv. sé of seint á ferðinni til að ná þeim tilgangi sínum að refsa þeim alþýðuflokksmönnum sem kosnir voru á þing fyrir seinustu kosningar, þá hefði þurft að flytja þetta í fyrra og láta samþykkja þetta þá. ( EH: Menn athuguðu ekki öll ósköpin sem gengu á í sumar í embættaveitingum.) Lög þessi öðlast þegar gildi, þau eru ekki afturvirk þannig að þeir eru sloppnir fyrir horn. Ég spyr aftur á móti sjálfan mig mjög að því ef þessar leikreglur sem hér eru settar upp yrðu samþykktar, hvort þær lúti þeirri almennu kröfu um lög að jafnræðis sé gætt? Og þegar ég segi jafnræðis þá á ég við að það er ekki jafnræði að mínu viti ef alþingismaður heldur biðlaunum ef hann gerist starfsmaður hjá einkafyrirtæki á miklu hærri launum, þá er ekki jafnræðis gætt. Þá er farið að mismuna mönnum eftir því hvar í þjóðfélaginu þeir starfa. Sjálfstæðismenn eru margir hverjir úr einkageiranum. Þeir eru margir hverjir líklegir til þess að taka að sér störf að loknu starfi sínu á þingi sem forstjórar fyrirtækja. Ef við viljum vera sjálfum okkur samkvæm í þessari uppsetningu þá ætti að standa hér: Réttur til biðlauna fellur niður ef fyrrv. alþingismaður tekur við stöðu með jafnháu eða hærra kaupi en hann hafði sem þingmaður. Þá er upprunalega hugsunin um biðlaun í fullu gildi, að þau séu laun sem eigi að greiða á meðan menn bíða eftir öðru starfi.
    Ef hv. þm. sem talaði hér áðan, Guðrún Helgadóttir, 14. þm. Reykv., sæi nú að það væri miklu skynsamlegra að standa bara í því að gefa út bækur og hefði tvöföld laun fyrir það ætti þá að hafa hana á biðlaunum við að skrifa þessar bækur? Eru einhver rök fyrir því? Eru einhver rök fyrir því að ef stórbóndinn af Suðurlandi, Eggert Haukdal, sem býr þar miklu myndarbúi, gengur beint til verka sinna ef hann skyldi nú taka ákvörðun um að hætta, og ég segi ef hann skyldi taka ákvörðun, ég veit að hann þarf ekki að hætta vegna þess að hann skorti stuðning, ef hann skyldi taka ákvörðun um að hætta á þá að hafa hann á biðlaunum við það starf ef hann hefur meiri tekjur en hér á þingi? Er ekki grunnhugsunin sú að það verði að gæta jafnréttis og jafnræðis? Og ef menn setjast að í fyrirtæki, gerast forstjórar Sementsverksmiðju ríkisins, og svo gerist það bara eftir að þeir eru búnir að vera í mánuð forstjórar þá selja þeir öll hlutabréfin og þá er þetta ekki lengur eign ríksins, eiga þeir þá að fá biðlaunin upp á nýtt en tapa þeim ef þeir eru skipaðir á meðan ríkið á meiri hluta? Gengur það upp? Við skulum ganga djarfar til leiksins. Við skulum segja að það mundi gerast að Guðjón Guðmundsson, hv. 5. þm. Vesturl., yrði skipaður forstjóri Sementsverksmiðju ríkisins. Hann er að vísu ekki krati, hann er sjálfstæðismaður, og það setur það í mikinn vafa hvort þetta gæti orðið. ( Gripið fram í: Gísli er hérna.) Segjum að hann yrði skipaður forstjóri og af því að bréfin eru í eigu ríkisins þegar þetta gerist þá fær hann engin biðlaun. Svo selur bara Friðrik bréfin, þá er hann komin á full biðlaun og forstjóralaun líka. Stenst þetta svona? Ég held ekki.
    Ég er hlynntur því að þessi ákvæði séu endurskoðuð. Og ég er sannfærður um það að flm. eru vel meinandi með sínar hugmyndir í sinni uppsetningu. En ég held að það verði að taka mið af því, ef þetta er sett upp á þann hátt, að laun manna verði lögð til grundvallar hvaða starf sem þeir vinna. Aðeins með þeim hætti sýnist mér að jafnræðis sé gætt milli þingmanna og líka að þess sé gætt að menn fari ekki hreinlega að spila á þetta kerfi eins og flest kerfi sem sett eru upp. En auðvitað er það hárrétt hjá flm. að þetta var ekki í upphafi hugsað til þess að þeir sem yfirgæfu þingið og færu í toppstöður hjá ríkinu fengju líka þessar bætur. Enda hygg ég að það hefði verið frekar auðvelt hjá ráðherrum sem skipuðu í þessar stöður að láta menn skrifa undir yfirlýsingu þess efnis áður en þeir fengu stöðuna að þeir féllu frá þessum biðlaunum ef þeir hefðu verið að hugsa um hagsmuni ríkisins.
    En mér sýnist aftur á móti að jafnræðisreglunni þurfi að fylgja eftir, anda hennar þurfi að fylgja eftir. Ef þetta verður gert eins og hér er lagt til þá sýnist mér að hún sé brotin og af þeirri ástæðu stóð ég hér upp að ég vona að sú nefnd sem tekur þetta til athugunar kynni sér það nokkuð hvernig að þessu er staðið í nágrannalöndunum, hvaða reglur gilda um þess hluti og að menn gefi sér tíma til að búa þannig um hnútana að þetta sé ásættanlegt og það sé ekki hægt að finna nýjar leiðir til að spila á þetta kerfi.