Þingfararkaup alþingismanna

13. fundur
Fimmtudaginn 14. október 1993, kl. 14:46:06 (310)


[14:46]
     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
    Herra forseti. Það er vel í anda hv. 5. þm. Reykv. að gera þá kröfu til mín að ég útskýri lífshlaup hv. 14. þm. Reykv., hvernig það komi út. Það er náttúrlega gjörsamlega vonlaust.
    En ég hugsa mér í grundvallaratriðum þetta kerfi á þann veg að þegar menn þurfa að greiða sinn skatt, þá liggi það fyrir í staðgreiðslukerfinu hvaða tekjur þeir hafa og út frá því verði farið þegar greiðslan er innt af hendi eða látið endurgreiða. Það kemur til greina að endurgreiða það sem menn hafa fengið. Ég tók dæmið sem Guðrúnu aðeins til benda á það ( GHelg: Hv. 14. þm. Reykv.) --- hv. 14. þm. Reykv. með meiru, að ég er viss um það, hvað sem dómi hv. 5. þm. Norðurl. e. viðvíkur, að hv. 14. þm. Reykv. getur haft meiri tekjur af því að skrifa bækur og vera utan þings en að sitja á þingi. Það er ég ekki í nokkrum vafa um. En það sem ég vildi biðja um er að þetta mál yrði skoðað í samræmi við það sem gert er í kringum okkur og að menn geri sér grein fyrir því að þeir sem fara í vel launuð störf hjá einkageiranum eiga ekkert frekar að vera með tvöföld laun. Ef alþingismaður gerist bankastjóri Íslandsbanka, á hann þá að hafa tvöföld laun? En ef hann gerist bankastjóri í Búnaðarbankanum, á hann þá að verða af laununum? Er það það sem menn eru að fara fram á, tvöfalt kerfi? Það gengur ekki upp.