Þingfararkaup alþingismanna

13. fundur
Fimmtudaginn 14. október 1993, kl. 14:48:24 (311)


[14:48]
     Matthías Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Ég er einn af flm. þessa frv. og tel að það sé full ástæða til að gera þessa breytingu við 8. gr. laganna um þingfararkaup alþingismanna. Það má segja það eins og fram kom hjá einum ræðumanni hér áðan að þetta frv. hefði mátt koma fram fyrr. En það er þó komið fram og kemur væntanlega til afgreiðslu á hv. Alþingi hér í vetur.
    Þegar síðustu lög um þingfararkaup alþingismanna voru sett, þá kom greinilega fram í umræðu um biðlaun það atriði að greiðsla biðlauna næði ekki til þeirra sem færu í há störf. Það kom raunar fram á þann veg að biðlaun væru eðli sínu samkvæmt til þess að sá sem væri að leita sér að starfi tapaði ekki launum á meðan, í tiltekinn tíma. Ég tel að það hafi verið rangt að greiða þessi biðlaun til manna sem fóru í betur launuð störf samkvæmt gildandi lögum og túlkun sem fór fram hér á hv. Alþingi, en það er víst of seint að tala um það. Hér er verið að tala um þessa breytingu og við flm. þessa frv. töluðum um það hvort það væri rétt að þetta sama ákvæði næði til þeirra sem kynnu að hefja störf við einkarekstur eða hjá einkafyrirtæki. Við komumst að þeirri niðurstöðu að það væri hægt að haga svo til að þessi biðlaunatími liði þangað til væri komið á laun þar. Það er ekki hægt að haga því þannig til í opinberum rekstri. Hitt finnst mér sjálfsagt og eðlilegt að nefndin sem fær málið til athugunar kanni það betur. Við komumst að þessari niðurstöðu. Ég er ekkert að segja að hún sé hin eina sanna og rétta.
    Hins vegar er það annað mál og sem er lítið talað um að laun þingmanna eru lág miðað við önnur ábyrgðarstörf. Þingmenn eru kjörnir í mesta lagi til fjögurra ára. Þá geta kjósendur sparkað þeim eða fleygt þeim fyrir borð eða sett þá á aftur næstu fjögur ár. Það getur líka verið um eitt ár að ræða. Sá sem fer í framboð á það auðvitað alltaf á hættu að falla. Það er svona heldur lítt launað starf að vera frambjóðandi eða a.m.k.var það þegar ég var ungur og ég hygg að það hafi ekkert breyst. Ég held að menn hafi þurft að gera það á eigin kostnað alveg fullkomlega. En það má segja að Alþingi Íslendinga hafi á þessum árum verið afskaplega veikgeðja þegar rætt hefur verið um laun alþingismanna. Lengi vel réð þingið því sjálft hvert þingfararkaup væri. Þingmenn almennt og yfirgnæfandi meiri hluti þeirra á þeim tíma voru alveg orðnir dauðhræddir við að hafa sjálfir þessa ákvarðanatöku því að fjölmiðlar --- og það sem nú á dögum er kallað þjóðarsálin og maður má aldrei vera að því að hlusta á nema þegar maður er í sumarbústað --- þeir afgreiða þessi mál á undan öllum öðrum. Þingmenn guggnuðu og sögðu: Nú ætlum við ekki að hafa lengur þessa ábyrgð, við ætlum að varpa því á Kjaradóm sem á að fjalla um laun æðstu embættismanna þjóðarinnar, og svo vita menn allir hvernig fór. Að vísu skal það viðurkennt að ástandið í þjóðfélaginu var ekki gott, en ef það er mjög gott, þá var sagt hér fyrr á árum að þingmenn gætu aukið tekjur sínar með öðrum hætti heldur en að hækka þetta þingfararkaup og þessi hlunnindi sem þingmenn hafa, þessi litlu hlunnindi eins og styrk í kjördæmi sem er mismunandi. Menn bera það gjarnan saman við það sem áður var og þá vil ég nú bera saman af því að ég er nú orðinn svo fullorðinn sem á má sjá, að á meðan einmenningskjördæmi voru, þá var ólíkt léttara að vera þingmaður. Við skulum taka muninn á Vestfjörðum. Hvaða starf hefur það verið að vera þingmaður Ísafjarðarkaupstaðar? Kaupstaðurinn stóð á lítilli eyri. Þar var hægt að tala við hvern einasta mann á kannski tveimur til þremur dögum. Eða að ferðast um alla Vestfirði þó að samgöngur hafi stórbatnað? Að hafa með að gera framlag til einnar hafnar eða 20 hafna, jafnvel þó að þingmennirnir séu fimm. Starf þingmannsins breyttist gersamlega við stækkun kjördæmanna og það er ætlast til þess að þingmenn taki nú miklu meiri þátt í því sem er að gerast í þjóðfélaginu. Það er ætlast til að þeir mæti hjá mörgum samtökum. Í raun og veru eiga þingmenn sjaldan frí, ég tala nú ekki um ráðherrana. Ráðherrar eiga eiginlega aldrei frí. Þeir eiga eiginlega aldrei fríhelgi. Ég minnist þess oft

þegar ég var nýkominn í sumarbústað minn vestur í Trostansfirði að maður var rétt búinn að kveikja upp þegar kom sendiboði frá Bíldudal, það væri áríðandi símtal og maður þurfti að keyra aftur til baka án þess að fá að sofa eina nótt. Þetta hefur ekkert breyst. Þetta er alveg það sama.
    Hins vegar er eitt sem hefur breyst. Þingmenn voru mjög margir í vel launuðum störfum umfram þingmennsku hér fyrr á árum. Þegar ég kom á þing þótti ekkert að því að bankastjórar væru þingmenn, væru bara að útdeila peningum. Nú er þetta talinn einn af höfuðglæpum þjóðarinnar. Henni hefur farið mikið fram, þessari þjóð, eins og allir vita. Nú eru flestir þingmenn orðnir algjörlega tekjulausir nema með kannski eina eða tvær nefndir fyrir utan þessi þingstörf með örfáum undantekningum. Þetta er sem sagt breytingin sem hefur orðið á þessum tíma.
    Þegar kjaradómur var kveðinn upp og hávaðinn var sem mestur, þá skildi ég fólk sem hafði lægstu tekjurnar. Það hafði ekki hæst. Þeir sem öskruðu hæst, bæði á torgum og í fjölmiðlum voru menn sem voru með kannski tvisvar, þrisvar sinnum hærri tekjur en þingmenn og ráðherrar. Hvar í heiminum ætli það þekkist að ráðherrar hafi það kaup sem þeir hafa á Íslandi? Forsrh. Íslands er einhvers staðar svona um miðjuna í skattaskránni. Bæjarstjórar og ýmsir menn hjá sveitarfélögunum eru miklu betur launaðir og það er undarlegt fólk --- ég bið nú þá að fyrirgefa sem hlut eiga að máli --- sem fer úr slíkum störfum og í þetta.
    Ég held að það megi líka minna á að þingmenn hafa enga aukavinnu. Við sjáum í blöðunum að þegar þing hættir í maí og byrjar 1. okt. séu allir þingmenn komnir í frí, þurfi ekkert að gera. Þetta er auðvitað tóm vitleysa eins og allir þingmenn vita og flestir vita. En það þarf alltaf að reyna að bera á borð, er hægt að gera einhvern grunsamlegan, að hann vinni ekki fyrir kaupinu sínu? Aðrir skrifa aukavinnu þegar þeir vinna aukavinnu og fá hana greidda, þeir eru flestir. Það er sem ég sæi framan í allt liðið í pressuheiminum ef þingmenn væru farnir að skrifa aukavinnureikninga og þá verður sagt: Þeir kjöftuðu nú fram til kl. 5 í morgun bara til að geta skrifað aukavinnureikninga. Þingmenn eiga að vera í samanburði við einhvern ákveðinn starfshóp, þá sleppa þeir. Hér fyrr á árum voru þingmenn sem sögðu: Það á að leggja að jöfnu þingmannsstarfið og ráðuneytisstjórastarfið. Ég er ekkert að segja að það sé það eina sanna og rétta, en það á að leggja að jöfnu við eitthvert ákveðið starf sem er háð Kjaradómi. Þannig á að vinna, finnst mér. Hvaða menn fást í framtíðinni til að sitja hérna á Alþingi fyrir þetta kaup? Þeir sem er mestur fengur er í að fá eru á þreföldum, fjórföldum launum. Þó að þeir sjálfir væru svo vitlausir að vilja það, þá ættu þeir flestir kannski eiginkonu eða eiginmenn sem segði þeim að steinhætta við þessa vitleysu, þeir fengju ekki að fara í þetta. Þetta er framtíðin sem blasir við.
    Svo er til líka annað sem er hægt að minnka nokkuð útgjöld þess opinbera. Það má fækka þingmönnum. Ég tel að það hafi verið mjög þörf breyting að færa þingið í eina málstofu. Hún auðvitað tekur sinn tíma, reyndist ekki vel á síðasta vetri, vonandi reynist hún vel á þessum vetri. Ég tel að það hafi verið mjög þarft verk. Og það er líka þarft verk að fækka þingmönnum. Við þurfum ekki að vera 63 hér inni. En það þýðir heldur ekki að um að það sé hægt að fækka þingmönnum niður í 30. Það er bara fólk sem þannig talar sem hefur ekkert vit á því sem er að gerast. Það þurfa ekki að vera svona margir þingmenn í hverri nefnd eins og er núna. Þeir voru það ekki. Þeim var fjölgað á sínum tíma. Og við versnandi afkomu þjóðarinnar og minnkandi tekjumöguleika verður auðvitað að draga saman líka í stjórnkerfinu. Það verður að draga saman í Stjórnarráðinu með því að fækka ráðuneytum. Allt er þetta hægt.
    Ég sagði nú einu sinni í vor, og það var ekkert af neinni illgirni, að það hefði verið þarft verk ef ríkisstjórnin hefði beitt sér fyrir því að fækka bankastjórum Seðlabankans niður í einn, þurfti engan að særa því tveir voru að hætta hvort sem var. En það hefði eyðilagt alveg stórkostlega rismikla umræðu um bíla, ef þetta hefði verið gert. Það skal ég viðurkenna. ( Gripið fram í: Og framavonir sumra.)
    Ég gerðist meðflm. að þessu frv. sem Eggert Haukdal, hv. 6. þm. Suðurl., er 1. flm. að vegna þess að ég taldi nauðsynlegt að þetta lægi svart á hvítu, að þetta gengi ekki og ætti ekki að ganga lengur til. Ég hef síður en svo á móti því að sú nefnd sem fær þetta mál til meðferðar kanni það til hlítar. Ef þetta er öðruvísi hjá nágrannaþjóðum okkar og það hefur reynst vel þar, þá á að taka það upp. Ef það hefur ekki reynst vel þar, þá eigum við ekki að hlaupa eftir því. Við eigum auðvitað fyrst og fremst að setja okkur lög sem eru við okkar hæfi og eru í samræmi við okkar litla þjóðfélag sem við búum í.