Skýrsla dómsmálaráðherra um málefni Happdrættis Háskóla Íslands og almannavarna

14. fundur
Mánudaginn 18. október 1993, kl. 16:05:01 (327)


[16:05]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi harma það að hæstv. dómsmrh. skyldi kjósa í ræðu sinn að ráðast með jafngrófum hætti og hann gerði á formann Rauða kross Íslands. Það vita allir að sá einstaklingur var valinn sem talsmaður fyrir þau fjölmennu samtök sem hér eiga hlut að máli, Rauða krossinn, Slysavarnafélag Íslands, Landsbjörg og SÁÁ. Og að dómsmrh. landsins skuli í ræðustól hér á Alþingi ráðast að þessum einstaklingi með þeim hætti sem hann gerði hér í skýrslu sinni til þingsins er bæði vítavert og ósæmilegt. Það er á engan hátt til þess fallið að hægt sé að leysa þá illvígu deilu sem upp er komin þegar sjálfur ráðherrann, sem á að hafa það hlutverk að leita sátta, gengur fremstur í persónulegum árásum af því tagi sem hér komu fram áðan. Það er líka vítavert að hann skuli saka formann Rauða krossins um að fara í hrossakaup gagnvart almannavörnum þegar formaður Rauða krossins var einfaldlega að benda á þá staðreynd að ef tekjustofnar þessara samtaka, sérstaklega þriggja þeirra, mundu bregðast hefðu þau ekki aðstöðu til að þjálfa mannafla, sjálfboðaliða, eða kaupa tæki til að geta með sæmd tekið þátt í störfum almannavarna og leyst þær skyldur af hendi sem þeim ber. Ég skil satt að segja ekki hvar hæstv. ráðherra er staddur í þessu máli að hann skuli kjósa að opna það með þeim hætti sem hann gerði hér á Alþingi. Ég vona satt að segja að þeim kafla sé lokið og hæstv. ráðherra gangi í það með fleirum að reyna að ná sáttum í þessu máli.
    Ég vil í öðru lagi vekja athygli á því að Háskóli Íslands er ríkisstofnun. Það fjármagn sem hefur verið aflað með Happdrætti Háskólans hefur fyrst og fremst farið í byggingar á vegum háskólans. Hér er þess vegna verið að ræða með hvaða hætti ein tiltekin ríkisstofnun fjármagnar byggingar sínar og viðhald á næstu árum.
    Nú vil ég spyrja hæstv. menntmrh.: Er það rétt sem sagt hefur verið við okkur ýmsa þingmenn að hæstv. menntmrh. hafi jafnvel ásamt fjmrh. átt viðræður við dómsmrh., einhvern tímann á liðnum missirum, til að eiga aðild að ákvörðun um þessa nýju stefnu í happdrættismálum háskólans af því að það gæti verið liður í því að leysa fjárlagaþrýstinginn hvað háskólann snertir að öðru leyti? Ég tel nauðsynlegt að hæstv. mennmrh. upplýsi hér á Alþingi hver er hlutur hans í málinu. Í öðru lagi vil ég óska eftir því að hæstv. menntmrh. birti þann samning sem Happdrætti Háskóla Íslands hefur gert við hinn erlenda aðila sem framleiðir þau tæki sem hér um ræðir. Háskóli Íslands er opinber stofnun. Hún getur ekki né happdrættið gert viðskiptasamninga við erlendan aðila af þessu tagi án þess að þeir séu opinber skjöl. Það hefur ekki fengist upplýst hvort það sé virkilega rétt að hinn erlendi aðili eigi að fá hundruð milljóna á ári, ef veltan verður af því tagi sem háskólinn býst við, í sinn hlut. Við sem eigum að taka þátt í umræðum um þetta mál hér á Alþingi eða annars staðar verðum að fá þennan samning upp á borðið, hann getur ekki verið leyndarskjal.
    Ég vil einnig segja við hæstv. dómsmrh., Þorstein Pálsson. Hér voru fyrir nokkrum árum á Alþingi harðar umræður um þá hugmynd að leggja á svokallaðan happdrættisskatt. Þá var það talið af ýmsum, m.a. þeim sem hér stendur, að það gæti verið réttlætanlegt að allir þeir aðilar sem tækju þátt í því að velta 4 milljörðum árlega greiddu hluta af því í sameiginlegan sjóð landsmanna til að standa undir margvíslegum framkvæmdum. Enginn, enginn hér á Alþingi gekk jafnhart fram í því að biðja þáv. ríkisstjórn um að hætta við þau áform og þáv. þingmaður Þorsteinn Pálsson og núv. dómsmrh. Rök hans voru þau að það mætti ekki skerða með neinum hætti tekjumöguleika hinna frjálsu félagasamtaka í landinu sem öfluðu tekna með þessum hætti, eins og Slysavarnafélagsins, eins og íþróttahreyfingarinnar, eins og Hjálparsveitar skáta og fjölmargra aðila sem þar eiga hluta að máli. Það var fallist á þessi sjónarmið og þessar hugmyndir voru dregnar til baka og hin frjálsu félagasamtök fengu að njóta alfarið þessara tekna. Nú vil ég spyrja hv. þm. og núv. hæstv. dómsmrh., Þorstein Pálsson: Hefur hann skipt um skoðun? Hefur hann skipt um skoðun? Því Happdrætti Háskóla Íslands er ekki frjáls félagasamtök, það er tekjustofn fyrir ríkisstofnun sem fjármagnar viðhald og byggingar með þessum tiltekna hætti. Ég er reiðubúinn til að ganga til samstarfs við hæstv. dómsmrh., eins og ég gerði á sínum tíma, um að greitt verði fyrir því að hætt verði við þessi áform þannig að hin frjálsu félagasamtök fái að njóta þeirra tekjuöflunarmöguleika sem þau hafa haft til þessa.
    Við alþýðubandalagsmenn höfum lagt fram ákveðna tillögu hér í því skyni að greitt verði fyrir þessu. Í fyrsta lagi, eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson lýsti hér áðan, að efnt verði strax til viðræðna og reglugerðin verði ekki gefin út. Í öðru lagi að frv. sem Guðrún Helgadóttir o.fl. flytja hér á Alþingi, um að háskólinn þurfi ekki lengur að greiða einkaleyfisgjaldið verði samþykkt. Þar með hefur háskólinn fengið nokkuð í sinn hlut án þess að gengið verði þá braut að skerða möguleika hinna frjálsu samtaka. Ég bið hæstv. ráðherra að hugleiða þessar tillögur okkar alþýðubandalagsmanna því ég er sannfærður um að þær geta orðið til þess að menn slíðri nú sverðin.