Skýrsla dómsmálaráðherra um málefni Happdrættis Háskóla Íslands og almannavarna

14. fundur
Mánudaginn 18. október 1993, kl. 16:12:10 (328)


[16:12]
     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Hvað sem líður lagalegri heimild hæstv. ráðherra í þessum efnum og hvað sem líður þörf Háskóla Íslands fyrir fjármagn til uppbyggingar skólans og hvað sem líður afleiðingum þessa fyrir þá aðila sem fyrir eru á þessum markaði þá er það svo stórt mál að leyfa uppsetningu á hundruðum spilakassa af þeirri gerð sem hér um ræðir að það er óásættanlegt að hæstv. dómsmrh. skuli ætla að gera það án umræðu í þjóðfélaginu. Það er líka óásættanlegt að Háskóli Íslands sem fram til þessa hefur verið talinn æðsta og virtasta menntastofnun þjóðarinnar skuli ætla að fara út í starfsemi sem þessa.
    Það hefur lengi verið ljóst að hæstv. ríkisstjórn er ekki sérstaklega vel í takt við sitt þjóðfélag en mér þykir leitt að þurfa að segja að mér sýnist þetta gefa það til kynna að háskólinn sé það ekki heldur.
    Hvers vegna skyldu aðrar þjóðir Evrópu ekki hafa sett upp starfsemi sem þessa? Ætli það sé fyrir það að enginn hafi vitað af þessum tólum? Mér segir svo hugur að ástæðan sé miklu frekar sú að þessi leikur, ef leik skyldi kalla, býður upp á fíkn. Þessir kassar eru nefnilega nær eingöngu í spilavítum í þeim fjórum fylkjum Bandaríkjanna sem á annað borð hafa leyft kassana og það segir meira en mörg orð.
    Það er erfitt fyrir Háskóla Íslands að hafa á örfáum árum hrapað úr því að hafa um 60% af markaðshlutdeild af happdrættisfé þjóðarinnar niður í það að vera kannski með 15--18%. Þetta er öllum ljóst. Þess vegna þurfa að fara fram umræður um það hvernig happdrættisfé verði skipt á sanngjarnan hátt. Fulltrúar Rauða kross Íslands, SÁÁ, Slysavarnafélagsins og Landsbjargar héldu að þeir væru í alvöruviðræðum við dómsrn. og fulltrúa Háskóla Íslands um að finna leiðir sem miðuðu að því að skipta fé á sanngjarnan hátt án þess að taka upp rekstur á þessum spilakössum sem kenndir hafa verið við gullnámu. Það virðist hins vegar vera svo að þetta hafi eingöngu verið málamyndaumræða. Ef til vill var ákvörðunin af hálfu hæstv. ráðherra tekin fyrir löngu síðan. Getur verið að þarna hafi tíma verið eytt algjörlega til ónýtis? Að minnsta kosti er það ljóst að fréttina fengu þessir aðilar í gegnum fjölmiðla án þess að slitnað hefði upp úr viðræðum að þeirra mati. Dómsmrh. hafði ákveðið að leyfa gullnámuna og segir núna að þetta sé ekkert annað en ný tækni, ný tækni í öflun happdrættisfjár.
    Við skulum láta það liggja milli hluta hvort hægt er að tala um spilavíti í þessu sambandi en hitt vil ég að komi fram að mér finnst það jafnvel skárra að opna raunverulegt spilavíti á Íslandi þar sem alþjóð vissi og færi ekki í grafgötur með hvers konar starfsemi færi þar fram innan dyra heldur en að skella upp 350 kössum af þeirri gerð sem hér um ræðir og laumast þannig bakdyramegin að landsmönnum.
    Við Íslendingar erum delluþjóð og það gerir kannski smæð þessa þjóðfélags. Bíladellan hjá æðstu embættismönnum þjóðarinnar er eitt afbrigðið, snuðin sem grunnskólabörn gengu með um hálsinn í fyrravetur er annað afbrigðið og svona mætti lengi telja. En ég vil segja að það er mikil ábyrgð sem hvílir á hæstv. dómsmrh. ef hann verður valdur að því að nýjasta dellan verði þessi svokallaða gullnáma.
    Mér finnst þetta mál dapurlegt og það er dapurlegt að fólk skuli ekki geta náð samkomulagi og talað saman og þar átti hæstv. dómsmrh. að vera í lykilhlutverki. Ég vil svo sannarlega vona að þau orð sem hafa verið sögð um þessa helgi, og kannski hefur eitthvað verið ofsagt þar, verði ekki til þess að það verði ekki hægt að setjast aftur við samningaborðið.
    Það er í sjálfu sér óþarfi að endurtaka það sem hér hefur komið fram um mikilvægi þeirra félagasamtaka sem hafa leyfi til rekstrar spilakassa í dag og hvað það hefði í för með sér ef tekjuforsendum yrði rústað. Og ég vil trúa því, og leyfi mér að halda því fram, að það vilji enginn Íslendingur og ekki heldur hæstv. dómsmrh. En hver skyldi svo heildarkostnaðurinn vera við happdrættin og við að afla þessa fjár? Mig langar til að spyrja hæstv. dómsmrh. hvort hann hefur tölur um það og hvort honum finnst ekki augljóst að kostnaður muni stóraukast með tilkomu þessara kassa.
    Ég vil að síðustu segja það, hæstv. forseti, að ég varð fyrir miklum vonbrigðum með ræðu hæstv. ráðherra hér áðan þar sem hann notaði tímann mikið til til að skamma formann Rauða krossins sem er að sjálfsögðu fjarstaddur og hefur ekki tækifæri til að taka þátt í þessari umræðu. Svo klikkti hann nánast út með því að hóta björgunarsveitum lögsókn. Svona vinnubrögð ganga ekki. Ég endurtek það sem ég sagði áðan, hæstv. forseti, að það þarf að koma aftur að samningaborðinu í þessu viðkvæma og erfiða máli og í þeim efnum á hæstv. dómsmrh. að beita sér.