Skýrsla dómsmálaráðherra um málefni Happdrættis Háskóla Íslands og almannavarna

14. fundur
Mánudaginn 18. október 1993, kl. 16:18:22 (329)


[16:18]
     Guðmundur Hallvarðsson :
    Virðulegi forseti. Ég held að það blandist engum hugur um hve mikilvægt starf björgunarsveita, Rauða krossins og háskólans er í þessu þjóðfélagi. Auðvitað vilja menn leiða þetta mál til lykta þannig að í sátt geti verið. Þess vegna gera menn sér grein fyrir því að vandi dómsmrh. er mjög mikill.
    Það er nú svo, eins og hér hefur verið getið um áður, að það eru fleiri happdrætti sem eru á því sviði að vinna að líknarmálum heldur en þeir aðilar sem hér hafa verið nefndir. Ég vildi t.d. nefna Happdrætti SÍBS, sem rekur Reykjalund og þar eru um 1.200 sjúklingar og öryrkjar til lækninga og endurhæfingar árlega auk þess sem þessi ágætu samtök reka Múlalund, vinnustofu SÍBS þar sem um 90 öryrkjar koma að. Happdrætti DAS rekur Hrafnistu þar sem á sjöunda hundrað aldraðir hafa fengið húsaskjól. Það er sammerkt með þessum báðum happdrættum að þau leggja allan sinn ágóða til þessarar líknarstarfsemi og veit ég ekki hvar við værum á vegi stödd ef þessi frjálsu félagasamtök ynnu ekki jafngifturíkt starf og raun ber vitni.
    Það er hins vegar athyglisvert þegar talað er um þau happdrætti önnur en flokkahappdrætti að í gegnum árin hafa margs konar vanhugsuð upphlaup á happdrættismarkaði skaðað hin hefðbundnu flokkahappdrætti. Menn hafa orðið varir við það í flokkahappdrættum eins og t.d. Happdrætti DAS þar sem seldur miðafjöldi hefur fallið úr 60.000 miðum niður í rétt tæplega 26.000 miða á tíu ára tímabili. Þessi tvö happdrætti hafa leitað líka til dómsmrn. til þess að fá úrlausn sinna mála með sama hætti og hér er verið að deila um núna. Ég veit það að Happdrætti DAS væri mjög í mun ef það fengi breytingar á lögum eins og nú er verið að ræða um. Það er nauðsynlegt að menn geri sér grein fyrir því að það þarf að taka lög happdrætta almennt til endurskoðunar. Ég veit það að menn hjá Happdrætti DAS væru mjög fegnir því að fá það út úr lögunum að í vinning skuli þar vera búnaðarvélar, traktorar og búpeningur. Þetta segir sína sögu um þá tíma er þessi happdrætti upphaflega hófu starfsemi sína. Þau hafa í nokkur skipti reynt að fá lögum breytt í þá átt sem hér er verið að deila um. En allt kom fyrir ekki.
    Það mál sem hér er tekist á um er mjög erfitt og ég trúi ekki öðru en að leitað verði leiða til að leysa þessa deilu sem upp er komin. Það var athyglisvert á fundinum í gær í húsi SVFÍ hvað þeir héldu tölur, þeir ágætu fulltrúar þessara félagasamtaka sem nú svo mjög deila um þá spilakassa sem Happdrætti Háskólans er að setja á laggirnar. Varðandi þá kassa sem reknir eru nú sögðu þeir að bæði Rauði krossinn og SÁÁ væru búin að koma sér upp sérstöku kerfi til þess að ,,afvatna``, ef svo mætti segja, spilafíkla sem fyrirfinnast vegna þeirra kassa sem þegar eru fyrir. Það er því ljóst, eins og hv. síðasti ræðumaður kom hér inn á, að þessu spilakassamáli mun fylgja ákveðinn vandi. Við erum að kalla vanda yfir okkur. En hvernig hins vegar má leysa það mál sem á milli þessara aðila hefur komið upp er annar handleggur. Og það er mín skoðun að ef lög um happdrætti verða endurskoðuð og þeim verður breytt, þá er nauðsynlegt að það gildi þá jafnt yfir alla aðila er að happdrættismálum standa. Við skulum ekki gleyma þeim mikilvæga þætti happdrættanna hvað varðar líknarfélög og eru þau þó miklu fleiri heldur en ég hef hér getið um.
    Ég hlýt því að spyrja dómsmrh. um einkaleyfi Háskóla Íslands til peningahappdrættis. Stangast þetta ekki á við gildandi samkeppnislög? Og hvað með hið margumtalaða EES? Er það einkaleyfi sem háskólinn hefur í anda þeirra laga sem þar er um fjallað varðandi samkeppni og annað því um líkt?
    Ég vil ljúka máli mínu hér með sama hætti og flestir þingmenn hér í dag. Ég vona að þetta mál verði leitt til lykta þannig að ekki þurfi miklar deilur upp um þetta að spinnast frekar en orðið er í ljósi mikilvægis allra þeirra aðila sem hér eiga hlut að máli, en þá líka væntanlega með það að menn horfi til fleiri átta en þessara aðila. Menn horfi þá líka til þeirra aðila sem vinna fjölmörg líknarstörf og þurfa að leita á happdrættismarkaðinn til fjáröflunar.