Skýrsla dómsmálaráðherra um málefni Happdrættis Háskóla Íslands og almannavarna

14. fundur
Mánudaginn 18. október 1993, kl. 16:31:13 (331)


[16:31]
     Árni Johnsen :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka ráðherra fyrir hans skýrslu um stöðu þessa máls sem útskýrði að mörgu leyti tæknilega stöðu málsins. Það skiptir auðvitað miklu máli í öllu er lýtur að björgunar- og hjálparstarfi að menn haldi jafnt ró sinni og snerpu. Því miður hefur það gengið þannig fram að einstaka aðili hefur kannski gengið of langt í umræðum helgarinnar og það ber að harma, en það er búið og gert.
    Það þýðir ekki að vera að tala hér um einhver hundruð millj. kr. eins og sumir hv. stjórnarandstöðuþingmenn hafa gert sem einhverja liggjandi upphæð á eldhúshillu stjórnarbúsins. Þessir peningar liggja ekkert á lausu og um það snýst málið. Þess vegna eru menn að keppa eftir fjármagninu. Það er stundum eins og þær lendi í því, hv. blessaðar kvennalistakonur, að halda að það sé til nóg af peningum í skúffunni eða eldhúshillunni og það þurfi bara að færa þá á milli. Þetta er bara ekki þannig og fólk gerir sér grein fyrir því að það er ekki þannig. (Gripið fram í.)
    Sagt er að það sé fyrir neðan virðingu Háskóla Íslands að afla fjár með happdrætti eins og skólinn hefur gert um 60 ára skeið. Er þá ekki alveg eins fyrir neðan virðingu Rauða kross Íslands og annarra íslenskra stofnana að afla fjár með sama hætti? Hvaða munur er á því? Er það fólk sem vinnur í björgunarsveitum og á vegum Rauða krossins lægra sett en fólk í Háskóla Íslands? Hvaða tvískinnungur er þetta?
    Það er áhyggjuefni, og það hefur komið fram og um það snýst málið, það er áhyggjuefni björgunarsveitarmanna hjá Slysavarnafélagi Íslands, hjá Landsbjörg, það er áhyggjuefni hjá Rauða krossi Íslands og SÁÁ að tapa tekjum í þeim rekstri sem þeir sinna. Á hinn bóginn er það áhyggjuefni hjá háskólarektor að tapa tekjum til nýbygginga því að ríkissjóður hefur ekkert lagt fram í nýbyggingar Háskóla Íslands. Þess fjár hefur verið aflað með happdrætti um áratuga skeið til nýbygginga og ýmissa þátta í rannsóknum og öðru er lýtur að framtíðarmöguleikum og stöðu Háskóla Íslands. Þess vegna hlýtur það að vera æskilegast og eðlilegast að menn haldi nú sjó í þessu máli og nái samkomulagi um það, að menn séu beinlínis neyddir til þess. Hæstv. dómsmrh. hefur að mínu mati opnað hér dyr með sinni ræðu þar sem hann vék að því að ef þeir aðilar allir sem hafa sótt málið óskuðu eftir breytingu á þeim lögum sem við búum við þar að lútandi um skiptingu og hlutdeild í aflafé af happdrættum, þá sé það opið. Mér finnst það mjög jákvætt í þessari umræðu að það hafi komið fram. Og ég sé ekki annað en talsmenn allra þessara ágætu samtaka muni ekki seinna en í dag óska eftir þeim viðræðum.
    Það má skilgreina nokkuð þá aðila sem hér er um að ræða. Við skulum láta Háskóla Íslands liggja á milli hluta, en þeir fjórir aðilar sem hafa sótt fram undir merki Rauða kross Íslands í þessum umræðum um helgina eru tveir sem sinna almennri björgunar- og slysavarnaþjónustu og tveir sem sinna annarri þjónustu. Slysavarnafélag Íslands og Landsbjörg sinna þætti sem er mjög víðtækur um alla landsbyggðina og með þátttöku mjög margs fólks sem leggur mikla vinnu af mörkum, óeigingjarna vinnu og mikilvæga í þágu þjóðarinnar í heild. Á hinn bóginn eru tveir aðilar, SÁÁ og Rauði krossinn, SÁÁ sem vinnur nánast eingöngu á heilsugæslusviði eða heilbrigðisþjónustu og Rauði krossinn sem vinnur á heilbrigðisþjónustusviði og svo erlendu hjálparstarfi þannig að það er ástæða til þess að skilgreina þetta.
    Það er líka ljóst að hagsmunir Rauða kross Íslands eru mestir í þessu dæmi, langmestir, er með um 70--80% af þeim tekjum sem koma inn af því sem þessir fjórir aðilar hafa aflað. Ég ligg ekkert á því að ég tel að það eigi að breyta þessu hlutfalli. Ég tel eðlilegt við uppstokkun á þessu og væntanlega í samningum að það eigi að auka hlut Slysavarnafélags Íslands og Landsbjargar. Það eru full rök fyrir því. Sú fjárfesting, sem þessir aðilar um allt land hafa staðið fyrir og eru skuldbundnir af, er mikil og hún er í miklum mínus. Það segir auðvitað ákveðna sögu að það var áhyggjuefni hjá Rauða krossinum m.a. við tekjuminnkun að það kæmi fyrst niður á erlendu hjálparstarfi. Við skulum ekkert hundsa það, en ég tel að við eigum fyrst að horfa á okkar eigin vanda í þessum efnum og klára hann á skynsamlegan hátt.
    Það kom fram hjá hæstv. dómsmrh. að hlutdeildinni í almannavarnakerfinu, almennu björgunarþjónustunni, neyðarvaktinni --- því að auðvitað eru það björgunarsveitirnar, Slysavarnafélag Íslands og Landsbjörg sem fyrst og fremst eru sérþjálfaðar björgunarsveitir landsmanna ef upp koma hvort sem er slys eða náttúruhamfarir. Aðrir eru það ekki og hafa ekki búnað til þess, hvorki Rauði krossinn, víkingasveitin, lögreglan almennt eða aðrir og til þess verður að horfa. (Forseti hringir.) Ég tel, hæstv. forseti, að það eigi að horfa til þess að þessi skipting er eins og kom fram 50% hjá Slysavarnafélagi Íslands, 40% hjá Landsbjörg og 10% hjá Rauða krossi. Það segir ekki endilega um niðurstöðu í slíku en eitthvert verður að horfa til þess og ég vil, hæstv. forseti, hvetja til þess að menn haldi nú sjó í þessu máli og gangi til viðræðna eins og ég tel að hæstv. dómsmrh. hafi boðið upp á og að menn nái samkomulagi því að það er vilji allra í málinu, það er ég sannfærður um.