Skýrsla dómsmálaráðherra um málefni Happdrættis Háskóla Íslands og almannavarna

14. fundur
Mánudaginn 18. október 1993, kl. 16:39:10 (332)


[16:39]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Mér þykir miður að af óviðráðanlegum orsökum gat ég ekki sótt þann ríkisstjórnarfund þar sem hæstv. dómsmrh. kynnti áform sín um setningu þessarar reglugerðar. Hins vegar fagna ég því mjög að í þessum umræðum hefur hæstv. ráðherra lýst sig reiðubúinn til að gefa þessu máli meiri tíma og lýsir sig reiðubúinn til að halda áfram viðræðum, taka aftur upp þráðinn þar sem hann var slitinn til þess að leita eftir raunverulegu samkomulagi milli málsaðila.
    Aðalatriði þessa máls að mínu mati eru ekki lagakrókarnir, ekki deilan um túlkun laga, annars vegar á þann veg að hæstv. ráðherra sé nánast embættislega skylt að verða við óskum háskólans með vísan til gildandi laga um háskólann eða þá renging sem fram hefur komið á grundvelli lögfræðilegrar álitsgerðar sem samtökin fern hafa aflað sér þar sem þau vefengja þessa lagalegu túlkun. Þetta eru ekki aðalatriði málsins. Aðalatriði málsins er hvort það er vilji til þess hjá öllum aðilum, ekki síst þeim tveimur aðilum sem hér takast á, til þess að setjast aftur að samningaborði. Miðað við þær upplýsingar sem ég hef fengið í hendur, þá trúi ég því ekki að það hafi verið þrautreynt og ég tel sjálfsagt að hæstv. dómsmrh. geri sitt ýtrasta til þess að leiða deiluaðila aftur að samningaborðinu og leita þá eftir einhverri niðurstöðu sem fælist í því að annaðhvort væri um að ræða sameiginlegan rekstur að hluta til eða að menn settu með sér reglur um skiptingu á ágóðahlut og jafnvel með endurskoðunarákvæði í ljósi fenginnar reynslu.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki á þessu stigi málsins að hafa um þetta fleiri orð. Ég fagna þeirri niðurstöðu sem orðin er í þessari umræðu um að gefa málinu meiri tíma og treysti því þar með að það liggi fyrir að reglugerð verði ekki sett fyrr en á það hefur verið látið reyna til þrautar.