Skýrsla dómsmálaráðherra um málefni Happdrættis Háskóla Íslands og almannavarna

14. fundur
Mánudaginn 18. október 1993, kl. 16:41:37 (333)


[16:41]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég veit ekki hvort ég hef heyrt alveg sömu ræðu flutta af hæstv. dómsmrh. eins og hæstv. utanrrh. virðist hafa gert, en hvað um það. Það skýrist vonandi hér á eftir hvort fyrir hæstv. dómsmrh. hafi vakað eða hann hafi sagt það sem hæstv. utanrrh. lét hér að liggja, þ.e. að hæstv. ráðherra

hafi ákveðið að fresta útgáfu reglugerðar um þetta kassahappdrætti Háskóla Íslands og gefa málinu meiri tíma. Hæstv. utanrrh. virtist hafa tekið það svo að bein yfirlýsing af slíku tagi hafi verið flutt hér af hálfu hæstv. dómsmrh. Sé svo þá er málið náttúrlega komið í annan farveg, ef ekki þá vonandi skýrist það í svörum hæstv. dómsmrh. á eftir.
    Að öðru leyti er það ljóst að í þetta mál er hlaupin mikil stífni og stefnir heldur ógæfulega, svo ekki sé meira sagt. Hæstv. dómsmrh. kvartar undan því að að honum sé veist persónulega í þessu máli sem ég tel reyndar óþarfa af hans hálfu að gera. Ég tel að hér sé með eðlilegum hætti verið að víkja að embættisfærslu hans sem ráðherra. Hæstv. ráðherra verður að venja sig við að greina á milli sín sem opinberrar persónu sem fer með ákveðin völd og hins að heita Þorsteinn Pálsson og allt það. Hér held ég að ekki sé verið að veitast að persónunni sem á bak við embættið er heldur að þessari tilteknu embættisgerð hæstv. dómsmrh. og það verða hæstv. ráðherrar að þola.
    Hitt er svo miklu alvarlegra og í raun og veru hvimleiðara þegar nafngreindir einstaklingar eru teknir fyrir með þeim hætti sem hæstv. dómsmrh. gerði hér áðan og átti þar við formann Rauða kross Íslands. Það er reyndar ekki nýtt að aumingja Rauði krossinn verði fyrir barðinu á þessari ríkisstjórn og ég fer að spyrja: Hvers á hann að gjalda? Síðast var það hæstv. heilbrrh. sem rauk upp og sakaði Rauða krossinn um okur með rekstri hjálpartækjabankans fyrir ekki löngu síðan. Þetta virðist vera að verða fremur að reglu en undantekningu að hæstv. ríkisstjórn gangi í skrokk á Rauða krossinum eins og hann sé sérstaklega til þess fallinn að verða fyrir barðinu á geðvonsku manna. Ég hélt satt best að segja að orðstír Rauða krossins, bæði innan lands og alþjóðlega og það verkefni sem hann hefur með höndum, verðskuldaði eitthvað annað heldur en slíka meðferð. Sama á auðvitað við um þau samtök sem hér eiga hlut að máli. Það er afar mikilvægt að þeim sé tryggður sæmilegur starfsgrundvöllur, nógu erfitt er það nú samt að sinna við okkar aðstæður því hlutverki sem þessi samtök gera hvert á sínu sviði, annars vegar í björgunarstörfunum og hins vegar í þeim hjálparstörfum eða varðandi áfengismeðferð sem hér á í hlut. Staðreyndin er auðvitað sú að það ætti miklu frekar að vera viðfangsefni okkar hér og til umræðu á Alþingi hvort hægt sé að reikna með því til frambúðar að við getum á grundvelli sjálfboðavinnu haldið úti öllum þeim störfum sem þarna eiga í hlut. Þær tekjur, sem þessi samtök hafa aflað sér með spilakössum eða öðrum hætti, hafa hvergi nærri dugað til þess að endurnýja tækjakost og halda honum úti hvað þá að þeir sem þarna leggja af mörkum ómælda sjálfboðavinnu fái hana t.d. bætta þó ekki sé nema það vinnutap sem útköll oft og tíðum valda.
    Á hinn bóginn er líka ljóst að staða Háskóla Íslands er í þessu sambandi erfið vegna þess að hvort tveggja hefur verið að gerast samtímis að tekjur hans vegna rekstrar happdrættisins hafa hríðfallið og hann hefur búið við stórkostlegan niðurskurð á fjárveitingum af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Þetta tvennt fer auðvitað mjög illa saman. En ég held að aðferðin til að leysa það sé ekki sú sem hér er verið að boða. Ég held að það væri Háskóla Íslands sjálfum fyrir bestu að sá kaleikur væri frá honum tekinn að þurfa að fara út í rekstur á þessu happdrætti við þær aðstæður sem nú er boðið upp á, í stórkostlegum illdeilum og átökum við fjölmenn almannasamtök í landinu. Það er ekki gæfulegt. Þess vegna er það svo, hæstv. forseti, að nú verða góðir menn að taka höndum saman og afstýra því óefni sem hér ella stefnir í.
    Ég vil í þessu sambandi minna á það farsæla samkomulag sem fyrir nokkrum árum síðan tókst með íþróttahreyfingunni og Öryrkjabandalaginu um rekstur lottósins. Það muna sjálfsagt einhverjir eftir því hér á hinu háa Alþingi að það stefndi í ekki ósvipaðar deilur um það mál og mikil átök fóru fram á bak við tjöldin og að hluta til bárust hér inn í þingsali á vordögum 1986, ef ég man rétt, en þá var einmitt sú deila sett niður. Menn gáfu sér tíma og menn tóku sumarið í samningaviðræður milli þessara samtaka sem leiddu til þess farsæla samkomulags sem nú stendur á bak við rekstur lottósins og ég fullyrði að var báðum aðilum til mikils góðs.
    Ég held að það sé hægt að finna enn sambærilega lausn og niðurstöðu í þessu máli og það á að leita eftir henni. Ég held að líka þurfi að því að hyggja að ef allt of margir eru að keppa um þessar sömu krónur á þessum markaði þá stefnir greinilega í það að allt of mikill hluti teknanna fari í sjálfan sig, þ.e. uppskeran verði of lítil í formi hagnaðar til hvers og eins og allt of stór hluti af þessari veltu á happdrættis-, getrauna-, flugeldasölumarkaðnum eða hvað það nú er fari í rekstur og of lítið verði eftir í formi hagnaðar eða tekna til handa þeim samtökum sem í hlut eiga. Það væri miklu nær að menn einbeittu tíma sínum að því hér að endurskoða og setja almennilega löggjöf á þessu sviði. Það vantar bæði löggjöf sem er nútímaleg og tekur mið af þeim aðferðum sem nú er farið að tíðka í þessu sambandi að hluta til í formi mjög tæknivæddra véla og það vantar starfsreglur á þessum markaði. Þetta er nánast frumskógur þegar kemur að fjáröflunarmálum samtaka og fyrirtækja í formi happdrætta, getrauna, spilakassarekstrar og alls konar sölustarfsemi sem sárlega vantar einhverjar leikreglur um. Þetta þekkja hv. þm. og þess vegna vona ég að fátt verði svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott. Þessi deila verði okkur hvatning til að taka þessi mál öllsömul til gagngerrar endurskoðunar.
    Hæstv. forseti. Að síðustu vona ég að hæstv. dómsmrh. sjái að sér og beiti sér fyrir því að viðræður hefjist á nýjan leik, hann skapi þann tíma sem þarf til að koma slíkum viðræðum á og leiða þær farsællega til lykta. Hæstv. ráðherra mun verða maður að meiri ef hann breytir þannig.